Fallegur sunnudagur

Ein vika til Páskadags, takk fyrir. Ég tók eftir því fyrir fimm dögum síðan að Páskarnir eru að koma, og þeir koma mjög snemma í ár. Krakkarnir mínir eru í vorfríi vikunni eftir Páska, og einhverra hluta vegna, þá hélt ég að ég hafði mánuð í vorfríið þeirra, en svo er víst ekki...

Hér var klukkunni breytt um síðustu helgi, þannig að núna er tímamismunurinn níu klukkutímar á milli Ameríku og Íslands. Henni var breytt miklu fyrr en vanalega, eða um þremur vikum fyrr en vaninn er. Þetta er gert svo að hægt sé að safna meiri orku... Það er hugsunin á bakvið hugmyndina, þar sem núna verður dimmt úti klukkutíma seinna, þá er ætlast til að fólk noti minni orku, til dæmis, kveiki ekki á ljósum heima hjá sér, eða noti ekki hitann eins mikið o.s.fr. Þetta virkar ekki alveg, af því að núna er dimmra á morgnana, og þá þarf fólk að nota ljósin meira á morgnana, í staðinn fyrir á kvöldin, þannig að raunveruleikinn er sá að við spörum enga orku, því miður...

Dagurinn í dag er mjög fallegur, hér skín sólin og hitinn er hærri en vaninn er á þessum tíma árs. Ég er á leiðinni með börnin útá leikvöll, leyfa þeim að hlaupa um svo að orkan þeirra minnki, svo að vonandi geta þau farið að sofa á réttum tíma í kvöld þar sem skólinn kallar á þau í fyrramálið. Hún Mikaela mín er algjör ugla, hún vakir lengst frammá nótt, og á morgnana breytist hún í tígrisdýr sem sýnir mér tennurnar og öskrar þegar hún þarf að fara á fætur. Hún er svo skapgóð að eðlisfari, en ég sver það, á morgnana breytist hún í öskrandi skepnu, ég þekki hana varla...

Ég var að vísu svona sjálf sem barn, og alveg þangað til að ég varð mamma, algjör ugla. Ég gat vakað langt frammá nótt, stundum svaf ég tvo tíma og fór í skólann eða í vinnu um morguninn, og lét eins og ég var vel hvíld. Ég var að vísu ekki eins skapvond og dóttir mín, allaveganna ekki svo að ég muni. Sonur minn á annað borð þarf sinn svefn, annars er dagurinn hans ónýtur. Allt þarf að vera í réttri röð svo að hann eigi góðan dag. Hann er búinn að vera svona síðan hann var ungabarn. Hann veit við hverju má búast daglega, og ef að eitthvað breytist þá á hann í erfiðleikum. Til dæmis, ef að kennarinn hans er veikur, þá er mjög erfitt fyrir hann að díla við aukakennarann, sérstaklega ef að hann/hún fylgir ekki stundaskránni. Þegar hann var tveggja ára, þá raðaði hann alltaf öllum bílunum sínum í fullkomna, beina röð. Ef að honum tókst ekki að hafa röðina beina, þá varð hann reiður og kastaði bílunum frá sér.

Núna er hann miklu betri, en það var tímabil þar sem ég hélt að hann væri einhverfur, eða með athyglisbrest, eða eitthvað samanbert. Sem betur fer þá lagaðist hegðun hans, og ég þurfti og þarf oft enn að aðstoða hann með ákveðna hluti, af því að það er erfitt fyrir hann þegar stundarskráin breytist... Hann er svo gáfaður, drengurinn, stundum stari ég bara á hann, því að sýgur inn lærdóm, eins og blaðra sýgur í sig loft. Ég tel mig heppna að hann sé ekki veikur á einhvern hátt, því að ég á vinkonur sem þurfa að ganga í gegnum ýmislegt með sín börn, og ég bið fyrir þeim á hverjum degi.

Tvíburunum gengur vel, þær eru nýbúnar að fá einkunnirnar sínar, og þær eru að standa sig ágætlega. Einkunnirnar þeirra gætu verið betri, og ætla ég að vinna með þeim þessa síðustu mánuði og vonandi munu einkunnir þeirra batna. Þær eru því miður frekar hægar þegar kemur að því að muna hluti, og er það aðallega vegna þess að þær voru fyrirburar (er það rétt íslenska hjá mér?). Þær fæddust tvo mánuði fyrir tímann, þannig að allt þeirra líf hafa þær verið soldið eftirá í skólanum. Þær eiga mjög erfitt með minni, þær gleyma flestu, og þurfum við að minna þær oft á dag að gera ákveðna hluti. Ef ég er að tala við þær um þrjá hluti í einum samræðum, þá er það líklegt að þær eiga eftir að muna einn hlut, en ekki þrjá. Þetta er búið að vera mjög erfitt fyrir mig, af því að ég tala um marga hluti í einu, og er vön að gera það við litlu börnin. Ég þarf oft að minna sjálfa mig á að tala um einn hlut í einu við tvíburana, og er að verða betri. Þetta er ekki þeim að kenna að heilarnir þeirra virka hægar en hjá flestum þrettán ára krökkum, en stundum verð ég pirruð á að endurtaka sjálfa mig tíu sinnum á dag, en ég þarf að venja mig á að vera þolinmóðari.

Jæja, þá er ég búin að tala um öll börnin, og veðrið. Mér og Tim líður vel, erum bara að slaka á núna yfir helgina, þar sem næsta vika á eftir að líða hratt og undirbúningur fyrir Páskana er byrjaður. Ég vona að helgin hjá ykkur öllum hefur verið afslappandi, og ég vona að ykkar undirbúningur gangi vel. Ég veit að margir eru á fullu að ferma börnin sín, og ég bið innilega að heilsa öllum fermingarbörnunum bæði hjá ættingjum, vinum, og bloggvinum. Það eru tuttugu og eitt ár síðan ég fermdist, og var minn árgangur sá síðasti sem fermdist í kirkjunni á Ísafirði áður en hún brann. Síðan var ný kirkja byggð á sama stað, en það er mjög sérstakt að vera síðasti árgangurinn sem fermdist í gömlu kirkjunni á Ísó.

Núna dríf ég mig útá leikvöll með litlu börnin, á meðan sólin skín, áður en myrkrið kemur, og áður en ég verð of löt til þess að nenna að fara. Kossar og knús til ykkar allra, farið vel með hvort annað og sérstaklega ykkur sjálfHeart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að heyra um börnin þín Bertha mín.  Já þið flýtið klukkunni og það er gert í Evrópu líka, en ekki hér, svo við sitjum eftir allt sumarið hehehe.... Já páskarnir eru að koma, dóttir mín og litla barnið hennar koma með kvöldvelinni, og sonur Ella kemur á miðvikudaginn með sitt litla barn og kærustu, svo það verður fullt hús hjá mér, og svo gerum við öll fjölskyldan eitthvað saman.  Það verður ansi fjölmennt og fjörugt í kúlunni yfir páskana.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2008 kl. 09:19

2 identicon

Kvitt kvitt....endalaust gaman að fylgjast með þér.....þótt ég þekki þig nú ekki persónulega hehe...

Knús til þín og hafðu það gott í vikunni :c)

Melanie Rose (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 17:33

3 identicon

Ég hélt alltaf að þetta væru 7 tímar á sumrin og 8 tímar á veturna ... hefur eitthvað breyst?

Annars alltaf gott að sjá og lesa bloggin þín. Þú ert hetja og ég vona að þú og fjölskyldan eigið góða páska saman. Takk fyrir frásagnirnar af börnunum og ykkur - have some delicious chocolates over Easter!!

Knús og kossar til ykkar

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 12:41

4 identicon

Vildi bara óska ykkur fjölskyldunni gleðilegra páska :) Hafið það gott Bertha mín.

kveðjur Ragnhildur og fjölskylda

Ragnhildur (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 08:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband