Færsluflokkur: Bloggar

Mikill léttir!!!

Mikið er ég nú ánægð í dag, því það er loksins farið að kólna hér í San Jose. Núna er bara 30 gráður, ekki 38-40 eins og það er búið að vera. Hér voru sko öll met slegin í Júlí, það hefur aldrei verið eins heitt hér síðan það var byrjað að skrá niður hversu heitt það er, og það eru nú komin meira en 100 ár síðan það var byrjað. Hér er bara allt ágætt að frétta, við búin að synda í dag, búin að gera þvottinn, og er núna að horfa á heimildarþátt um úlfa, svaka stuð!!

Ég veit ekki hversu margir vita hvað er búið að vera í gangi með heilsuna hjá mér síðustu átján mánuði, en það er búið að vera eitthvað vesen með mig. Ég er búin að vera með verki í báðum höndum núna stöðugt í meira en ár, er daglega með dofatilfinningu í fótum, höndum, og andliti. Svimar rosalega mikið, sé svarta depla sveimandi fyrir augunum, og er búin að vera að vinna með sérfræðingum og heimilislækninum mínum að reyna að komast að því hvað sé í gangi.

Þetta var nú orðið svo slæmt að þetta var farið að hafa neikvæð áhrif á vinnuna hjá mér og ég mjög heppin með það að hafa getið tekið mé sjúkrafrí í nokkra mánuði. Læknarnir eru nú að að hallast að því að ég sé með MS, heila og mænusigg, og er ég nú ekki nógu ánægð með það. En, það er ekki búið að 100% skilgreina mig ennþá, þannig að ég held bara í vonina. Ég vildi nú að hægt væri að komast að því hvað þetta sé svo að það sé hægt að gefa mér kraftaverka pillu og mér gæti batnað...Þetta er bara búið að vera langur tími án þess að ég viti hvað sé að, þannig að ég er orðin svolítið þreytt á þessu. Hitinn er búinn að vera svo rosalegur og er hann búinn að hafa neikvæð áhrif á heilsuna hjá mér og eru verkirnir búnir að vera miklu verri síðustu tíu daga, þannig að ég er rosalega HAPPY að það sé farið að kólna aftur, því að þá kannski minnka verkirnir.

Ég bið alla um PLEASE að ekki hafa neinar áhyggjur af mér, ég trúi því að Guð hugsi vel um mig og mín börn, og vonandi bráðlega fer mér að batna. Ég er að deyja, mig langar svo aftur í vinnu, því maður er staurblankur á einhverjum sjúkrapeningum hérna úti, en ég er með góða heilsutryggingar, þannig að það er mjög gott mál. Ég vildi bara aðeins létta á mér, það eru margir sem að vita að það er búið að vera heilsuvandamál hjá mér, en ég vildi bara að allir myndu heyra það frá mér. Það er góð ástæða fyrir þessu, ég veit það, ég veit ekki hver ástæðan er ennþá, en ég er búin að fá að njóta þess að vera heima með börnunum mínum í fyrsta skipti síðan þau fæddust allan daginn í nokkra mánuði, að labba með þau í skólann, sækja þau, gera heimalærdóm, hoppa í sund, bíó, útí garð, hvað sem er. Hlusa á þau rífast, horfa á þau slást, horfa á þau kenna hvoru öðru um allt, og núna er ég sko tilbúin að fara aftur í vinnu eða að þau byrji í skólanum aftur sem fyrst...SMÁ GRÍN, en í alvöru talað, ég trúi því að allir hlutir gerast af ákveðnum ástæðum, og það er góð ástæða fyrir öllu þessu.

Jæja, kominn háttatími hjá mér, búin að horfa á úlfana, og núna er maðurinn byrjaður að horfa á hnefaleika, þannig að ég er pottþétt að hoppa uppí rúm. Litla dúllan mín hún Mikaela, uglan mín, er enn vakandi, labbandi um í sínum eigin heimi, að reyna að halda sér vakandi eins lengi og hún getur, hún er alltaf söm við sig, hefur engan áhuga á að fara að sofa á kvöldin, alltaf eitthvað að dunda sér. Kalli minn sofnaður tveimur mínútum eftir að hann leggst niður, en hún ekki tveimur tímum síðar. Kannski að ég fari nú að reyna að temja hana, nei, ég held að ég leyfi henni bara að vera villtur hestur, hún er sko íslensk þessi!!!


Erfið vika

Mikið er erfitt þegar maður eldist og fólk fer að deyja. Þessi vika er búin að vera rosalega erfið fyrir mig. Vinur minn og fyrrverandi vinnufélagi, Tim Powley, lést á Mánudaginn var. Hann var að verða fimmtugur og ég vann með honum í veisluþjónustunni fyrir þremur árum síðan. Ég vann með honum í fimm ár allt í allt og svo eftir að ég missti vinnuna þá hittumst við reglulega og fórum út í hádegismat og svoleiðis. Við vorum búin að reyna að plana að hittast í hádegismat síðustu þrjár vikurnar, en það var alltaf eitthvað og við náðum aldrei að fara út áður en hann dó.

Jarðarförin hjá honum var núna á Föstudaginn og var það rosalega erfiður dagur. Jarðarförin var mjög falleg og fullt af fólki talaði og vottaði fjölskyldu hans sínar samúðarkveðjur, hann var giftur í nítján ár og átti sextán ára gamla dóttur. Ég hitti allt fólkið sem að ég vann með, og var það mjög yndislegt að hitta alla, fyrir utan kellinguna sem ég vann fyrir, en allir aðrir voru svo ánægðir að sjá mig og ég ánægð að hitta alla, þó svo að kringumstæðurnar voru ekki sem bestar. Ég veit ekki hvort að margir vissu að fyrir tveimur mánuðum þá dó annar vinur minn og fyrrverandi kærasti í Boston. Hann David vinur minn var týndur í þrjá mánuði áður en að hann fannst í höfninni í Boston. Hann var 33 ára gamall og skildi eftir tvö börn, sonur hans er jafngamall Kalla mínum.

Ég komst ekki í jarðarförina hans vegna fjármála, en mikið var ég nú sorgmædd þegar hann dó og svo bara tveimur mánuðum síðar deyr annar vinur minn.  Auðvitað er þetta bara hluti lífsins, en ég er nú búin að vera svo heppin að hafa ekki misst marga í lífi mínu, fyrir utan Kalla bróðir og svo afa, langaafa, langaömmu og frænkur mínar, Diddu og Gunnhildi. Maður huggar sig við það þegar fólk deyr þegar það er komið yfir ákveðinn aldur, eins erfitt og það er að sætta sig við dauðann, en mikið er þetta nú erfitt að missa fólk.

Mér finnst sérstaklega erfitt að geta ekki tekið upp símann og hringt og spjallað og hlegið. Maður kann aldrei að meta það sem að maður hefur fyrr en það er orðið of seint. Ég veit að það er ástæða fyrir því að ég missti tvo vini á svona stuttum tíma, þó svo að ég skilji ekki ástæðurnar núna. Ég bið og vona að vinir mínir og ættingjar hafi það betra í himnaríki og að þar séu ekkert nema hamingjustundir og skellihlátur og góður matur og félagsskapur. Kennslustundin er sú að meta fólkið í lífi sínu og láta fólk vita hversu vænt manni þykir um það, eins oft og hægt er.

Ég vil hér með láta ykkur öll sem að lesið þetta blogg vita mér þykir rosalega vænt um ykkur og þó svo að það eru margir vinir og ættingjar sem ég tala ekki við í gegnum síma daglega, vikulega, mánaðarlega, jafnvel árslega, þá eruð þið alltaf efst í huga mér og ég sakna ykkar allra svakalega. Ég get ekki hugsað mér að missa annan vin eða ættingja án þess að geta látið tilfinningar mínar í ljós og verið viss um að ÞÚ VITIR AÐ MÉR ÞYKIR ROSALEGA VÆNT UM ÞIG. Ég get ekki beðið eftir að gefa þér knús og koss og hlæja, gráta, blóta, öskra, borða, drekka, og bara sitja og ekki segja neitt UM LEIÐ OG LÍFIÐ GERIR ÞAÐ MÖGULEGT FYRIR OKKUR.

Ástar og saknaðarkveðjur í bili.

P.S. Hitinn er enn meiri þessa dagana, vildi óska að ég gæti sent eitthvað af þessum hita til ykkar svo að við getum allaveganna andað í nokkra daga!!


Engar fréttir!!

Héðan er sko ekki mikið að frétta þessa dagana. Hér er bara hiti og ég að kafna eina ferðina enn. Ég er búin að vera á fullu hjá tannsa, búin að fara þrisvar sinnum á síðustu vikum að laga tennur og draga úr tönn, og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að lífið er mjög skemmtilegt hjá mér þessa dagana. Krökkunum líður rosalega vel, eru bara úti að leika sér á daginn eða við hoppum í sund, eða horfum á bíó saman. Þau eru vakandi langt fram á kvöld að leika sér í tölvuleik eða með Barbies, eða bíla, þannig að hér er engin regla þessa dagana.

Annars erum við skötuhjúin að reyna að plana einhverjar ferðir, við erum með miða í tívólí og svoleiðis, en við þurfum að leigja bíl, því að við erum orðin sex manna fjölskylda... Þannig að ég er alltaf að plana eitthvað, maður verður að hafa hluti til þess að hlakka til, annars er maður bara dáinn innan í sér, allaveganna finnst mér það!!

Jæja, gott fólk, ég læt heyra í mér bráðlega, um leið og það eru einhverjar fréttir eða þegar ég þarf að létta af mér. Heyrumst!!!

 


Þjóðhátíðardagur Kanans

Í gær var fjórða Júlí fagnað hér í Ameríku, Independence Day!!! Við áttum okkur mjög góðan dag. Systir hans Tim mannsins míns er búin að vera í heimsókn núna í tíu daga og hún kom heim til okkar. Við fórum svo öll til San Francisco og löbbuðum um hafnarsvæðið, nánar tiltekið Pier 39-49. Þar var aragrúi af fólki, sól og blíða, fullt af listamönnum að selja myndir af frægu fólki eða af Golden Gate Bridge, og trúðar, og tónlistarmenn... endalaust af skemmtunaratriðum. Svo settumst við niður við höfnina og borðuðum samlokur sem ég bjó til, og snakk og bjór, og slökuðum á.

 Um átta leytið lá leiðin okkar um borð ferju sem að sigldi með okkur í kringum Alcatraz, og aðrar nærliggjandi eyjur og vorum við með geðveikt útsýni yfir borgina. Svo um hálf tíu byrjaði flugeldasýningin og ég get sagt ykkur það að við vorum með besta útsýni sem hægt var að hafa. Kuldinn var ekkert smá mikill og krakkarnir okkar voru í vetrarjökkum með húfur og teppi, og drukku heitt kakó og eina sem að við heyrðum frá þeim var Vá, sjáðu, Oh, æðislegt, frábært.  Þetta var besta flugeldasýning sem ég hef séð, ég hef aldrei farið til San Francisco áður á fjórða Júlí þannig að ég var svaka ánægð með þetta, þetta var í einu orði sagt, MERGJAÐ!!!

Svo lá leiðin heim á við og það var geðveik traffík. Það tók okkur næstum því tvo klukkutíma bara að komast að hraðbrautinni og svo 40 mínútur í viðbót að komast heim. Sem betur far var ég ekki að keyra, en greyið systir hans Tim keyrði. Það var ekkert smá erfitt en ég hélt mér vakandi alla leiðina heim til þess að hún hafði félagsskap og myndi ekki sofna undir stýri, því um leið og við komum upp í bíl þá sofnuðu krakkarnir og maðurinn minn.

Í dag erum við bara búin að vera að slaka á og ná okkur eftir alla spennuna, en þetta var rosalega gaman. Ég vil gera þetta að hefð og reyna að fara á hverju ári, því við skemmtum okkur öll svo vel og börnin voru öll svo góð, vel lukkað hjá okkur!!

Jæja, gott fólk, ég læt heyra frá mér fljótlega, takk kærlega til ykkar allra sem eruð að fylgjast með okkur og gaman að sjá að þið eruð að skrifa í gestabókina, það er ekkert smá gaman að lesa skilaboðin frá ykkur. Endilega sendið mér líka bréf á berjamo@hotmail.com það er svo gaman að fá fréttir frá Íslandi.


Án barna...

Jæja, núna eru börnin mín farin frá mér í tvo heila daga, og er það ekkert smá erfitt. Þetta er önnur helgin sem að þau fara í heimsókn til pabba síns, og ég er sko ekki ennþá búin að sætta mig alveg við þetta. Ég veit að það er hollt og mikilvægt fyrir þau að eyða tíma með pabba sínum, en hann er búinn að vera frá lífi þeirra svo lengi, að hann er eins og frændi frekar en pabbi.

Það er margt gott við að þau fari til hans tvær helgar í mánuði. Þau fá að eyða tíma með honum og hann getur unnið að því að vinna sér aftur traust þeirra og mitt. Ég fæ smá break, sem er ekki amalegt... Og þau eru hamingjusöm. Börn vilja auðvitað eyða tíma með báðum foreldrum sínum, og ég er búin að sjá til þess að þau séu örugg með honum, hann er nefnilega á skilorðisbundum heimsóknum, þannig að mamma hans, amma þeirra, er með þeim allan tímann. Hún er það sem þeir kalla hér, supervisor...

Mér líður betur við að vita að hún sé til staðar til þess að sjá um að börnin mín eru örugg, hamingjusöm, virt, og elskuð. Hún er æðisleg kona, ég get sagt ykkur það að ég er ekkert smá heppin að hafa hana að. Ég ákváð sjálf að búa erlendis, en þegar maður er ungur, er maður ekkert að spá í að sakna fjölskyldunnar. Svo eignast maður sín eigin börn, og er ekkert smá að sakna fjölskyldunnar og vina. Þetta er búið að vera þannig með mig og mín börn, að við erum bara búin að vera við þrjú. Amma þeirra er búin að vera eini fjölskyldumeðlimurinn þeirra sem að er alltaf búinn að vera til staðar. Meira en pabbi þeirra, frændur, frænkur, svo framvegis.

Það er rosalega leiðinlegt fyrir mömmu mína og pabba að geta ekki séð þau hvenær sem þau vilja, að ég geti ekki hoppað uppí bíl og kíkt í heimsókn eða leyft þeim að gista hjá þeim yfir helgi og svoleiðis. Ekkert var ég nú að spá í þetta áður en að ég eignaðist börn!!! En, svona er nú bara lífið, maður lifir við sínar ákvarðanir, en mikið sakna ég ykkar allra heima á Íslandi.

Ég er að fara að endurnýja vegabréfin hjá Kalla og Mikaelu, og svo bíð ég bara í nokkra mánuði í viðbót með að skilnaðurin minn fari í gegn, og svo fæ ég vonandi græna kortið mitt eftir 3-4 mánuði, og þá kæra fólkið mitt, er ekkert sem stendur í vegi fyrir mér að koma heim til Íslands hvenær sem er (nema kannski peningarnir, æi, gleymdi þeim...)

Þegar maður er ekki búinn að gera neitt annað en að standa í því að sjá um pappírsvinnu í sambandi við Immigration og skilnaðinn, þá verður léttirinn ekkert smá mikill þegar maður er loksins búinn í þessu helv... Þetta er búið að taka næstum því tvö ár allt í allt, þrjú ár frá því að ég og fyrrverandi skildum að borði og sæng, en þessi helv.... pappírsvinna er bara FULL TIME JOB!!!

Jæja, þá er ég sko búin að létta á mér, þannig að núna ætla ég að njóta þess að hafa engin börn hlaupandi hér um, svei mér þá, ég fer kannski bara í bíó, að sjá eitthvað annað en DISNEY mynd!!! Njótið dagsins, saknaðarkveðjur frá mér til ykkar!!!

 


Enn að kafna...

Ókei, ég get nú alveg þolað einn og einn dag í þessum hita, en fimm dagar í röð, ég get sko svarið fyrir það, þetta er ekki venjulegt. Við gerum ekki annað en að hlaupa útí sundlaug, til þess að fá smá kælningu, svo komum við inn, og erum enn blaut, en af svita í staðinn... Aubarasta, þessi hiti er að drepa mig...

Ég væri sko til í að koma heim núna í rigningu eða bara í sól og sumar heima. Annars hef ég nú frétt að sumrin heima á Íslandi séu farin að vera ávið útlönd, minni rigning, og meiri sól og hiti, er það rétt kæru landar?

Mikið er nú leiðinlegt hvað það er dýrt að fljúga heim, ég vildi gefa mikið fyrir að geta komið heim tvisvar á ári, en kannski þegar ég er orðin frægur rithöfundur þá get ég gert það. Þangað til verð ég að bíða og safna og koma heim þegar fjármálin leyfa. Í millitíðinni, hvenær ætlið þið vinir og vandamenn að drífa ykkur til Vesturstrandarinnar? Þið megið vita það að hús mitt er opið ykkur hvenær sem er, og ég skal sko sýna ykkur San Francisco, og alla skemmtilegu og fallegu staðina hér þegar þið komið...

Ég bíð bara spennt, það er enginn búinn að koma í heimsókn til mín hér í San Jose, þannig að einhver verður að vera fyrstur... Sjáumst!!!


Meiri hiti!!!

Hér hjá mér er þvílíkur hiti að það hálfa væri nóg. Ég held að hér sé um 35 gráður celcíus, en 92 gráður Fahrenheit. Við lágum svoleiðis fyrir í sundlauginni í dag, og núna sit ég hér brennd á nefir og öxlum,  það er svona að vera Íslendingur...

Krakkarnir mínir báðir eru orðin þvílíkt brún og elska að það sé enginn skóli þessa dagana. Ég er líka fegin því, ég fæ að sofa til 9 á morgnana núna í staðinn fyrir 7, og er það þvílíkur munur. Annars þarf ég nú að fara að kaupa skólabækur fyrir þau fyrir sumarið svo að þau gleymi nú ekki neinu. Ætla að láta þau læra allaveganna í einn klukkutíma á dag, ég veit, ég er hræðileg mamma!!!

Endilega skrifið í gestabókina, mig langar svo til þess að heyra frá öllum vinum og vandamönnum.

Heyrumst!!!


Hæ hó og jibbí jei og jibbí jei, það er kominn 17. Júní

Gleðilegan 17. Júní kæru landar og fjölskylda og vinir. Mikið vildi ég nú vera heima fyrir að fagna þessum góða áfanga, en því miður er ég hér í San Jose í steikjandi hita. Þar sem að ég vann forræðismálið mitt um daginn, þá er þetta helgi pabba barnanna minna, þannig að ég er barnslaus og allslaus, en leyfi ekki sorginni að stjórna mér, er bara að drekka Heineken og að reyna að finna mér svalan stað í íbúðinni minni.

Njótið afmælis þjóðarinnar elsku landar, og vonandi mun ég vera á landinu bráðlega!!!


Útskrift yfirstaðin!!!

Jæja, þá er litla dúllan mín búin að útskrifast úr Kindergarten hér í San Jose í gær. Mikið var nú æðislegt að sjá 80 fimm ára börn útskifast með stór bros, í fínum kjólum og jakkafötum. Hún Mikaela mín var auðvitað fallegasta stelpan, en þið mömmur vitið nú alveg að öllum mömmum finnst sín börn sætust. Eftir útskriftina fórum við svo á uppáhaldsveitingastaðinn hennar, Chili´s og hún fékk sér kjúkling og franskar, og ís auðvitað og ég sat bara og horfði á hana og hugsaði með mér, hvert fór tíminn?

Mér finnst að það hafi verið í gær þegar ég hélt á henni nýfæddri, og núna er hún bara lítil kona, með sínar skoðanir og alltaf að reyna að segja mér til. Ég er fegin að núna sé komið sumarfrí, sérstaklega þar sem ég er enn heima fyrir, núna get ég farið með þau í sund á daginn, eða út á leikvöll, eða bara setið heima og horft á bíó með þeim. Það er ekkert betra en að njóta barnanna sinna, sérstaklega þegar maður vaknar einn daginn og þau eru að verða stærri en maður sjálfur, bæði börnin mín ná mér nú þegar upp á brjóstkassa...

Ætli það taki nema nokkur ár í viðbót að þau horfi niður til mín þegar ég er að reyna að skamma þau, þá verður Bertha litla bara að fá sér tröppur og hoppa uppá þær til þess að skamma börnin sín, ekki málið...


Heimþrá

Þegar maður er búinn að búa erlendis í mörg ár þá eru margir hlutir sem að maður saknar frá Íslandi. Ég man varla hvernig SS pylsur bragðast með steiktum lauk og ískaldri kók. Eða hlöllabátur, hvað þá soðinn fiskur með nýuppteknum kartöflum úr kartöflugarðinum hans afa. Það sem ég sakna samt mest er fjölskyldan mín og vinirnir. Það er eitt sem er svo huggulegt og yndislegt við Ísland, og það er að geta skroppið til vinkonu sinnar í kaffi án þess að hringja á undan sér. Manni er alltaf tekið með opnum faðmi og sterku kaffi og kleinum. Hér í Ameríku þarf maður alltaf að hringja á undan á sér, aðallega útaf vegalengdum, en líka af því að maður veit aldrei hvernig skapi kaninn er í... Njótið þess að skreppa í kaffi, mínir kæru landar!!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband