Færsluflokkur: Bloggar

Vika 1

Þá er fyrsta vika nýja ársins búin. Þó svo að það sé nýtt ár er það víst að tíminn bíður ekki eftir neinum. Í gær fékk maðurinn minn þau leiðindatíðindi að einn af nánustu frændum hans var dáinn. Það sorglegasta er sú staðreynd að hann var um 55 ára gamall, alltof ungur til þess að fara. Því miður ríkir sú staðreynd að hann var ekki búinn að hugsa vel um sig, var búinn að vera í eiturlyfjum í mörg ár og þó svo að hann var hættur öllu svoleiðis þá voru þau auðvitað búin að taka sinn toll.

Fjölskylda hans Tim deyr ung. Pabbi hans dó þegar hann var 15 ára gamall og svo dó mamma hans þegar hann var um 36. Þetta var einn af þeim fáu ættingjum sem var enn á lífi fyrir utan systkini hans sem að eru fjögur. Ekki gaman að byrja árið á þennan hátt, en það er víst að tíminn bíður ekki eftir neinum.Undecided

Ég er búin að ákveða það að í dag byrja ég aftur á fullu með það sem eftir er af lífinu mínu. Dagurinn í gær er farinn, kemur aldrei aftur, og morgundagurinn er bara loforð sem að getur verið svikið. Dagurinn í dag er sá sem ég hef og ég ætla að njóta hans. Byrja á því að njóta þagnarinnar sem ríkir í húsinu hjá mér svona eldsnemmaSleeping. Njóta hvers og eins bita sem ég set ofan í mig, og passa mig á því að ég vel bitana á heilsusamlegan hátt. Njóta krakkanna minna þó að þau fari í taugarnar á mér. Njóta alls sem ég hef og hugsa um það sem mig langar til þess að hafa í framtíðinni og setja mér markmið að afla mér þess ef ég virkilega þarf á því að haldaBlush

Ég man þegar ég var einstæð og einmana þá hugsaði ég oft til dauðans, kannski af því að ég var hrædd um hvað myndi verða af börnunum mínum og svoleiðis. Eftir að ég kynntist Tim og eftir að ég er búin að vera veik, er ég búin að einbeita mér að lífinu og hugurinn reikar sjaldnar til dauðans. Ég er enn hrædd um hvað yrði af börnunum mínum, en ég nýt þeirra á allt annan hátt núna, ég virkilega nýt þeirra á allan hátt. Kannski er það mín lexía, þessvegna er ég veik, svo að ég nýt hverrar mínútu betur, ég var of upptekin áður fyrr. Kannski...

Hver dagur á jörðu er gjöf, eins væmið og það hljóðar (common, ég væmin) en ég trúi því virkilega. Ef mér væri sagt að dagurinn í dag væri minn síðasti, þá myndi ég leyfa krökkunum að taka sér frí í skólanum, keyra niður að strönd, hlaupa um berfætt í sandinum og leyfa börnunum að búa til sandengla og ekki stressa mig yfir að fá sand inní bíl. Ég myndi panta risastóra pítsu með auka pepperoni, og leyfa krökkunum að drekka gos með. Svo myndi ég knúsa og kyssa þau í kaf og bara horfa á þau með aðdáundar augum, því þau eru virkilega börn Guðs. Og svo myndi ég segja þeim að tíminn bíður ekki eftir neinumSmile


Hversdagsleikinn

Það er eitthvað sérstakt við hversdagsleikann. Hann er eins og gamall vinur sem þú ert ekki búin að sjá í einhvern tíma, en það er eins og þú hafir séð vin þinn í gær. Þú knúsar vin þinn og það er eins og að koma heim, þér hlýnar allri að innan jafnt sem utan. Þið setjist saman við eldhúsborðið og drekkið kaffisopa og spjallið saman og það er eins og enginn tími hafi liðið, þið eruð enn ung og spræk en í staðinn fyrir að tala um skólann ykkar þá talið þið um skóla barna ykkar og barnabarna.

Já, hér er hversdagsleikinn kominn aftur, rigningin bankar á gluggann hjá mér, kaffikannan kraumar, börnin væla við að þurfa að vakna snemma og fara aftur í skólann. Hér er niðamyrkur þegar ég dríf mig á fætur fyrir sex svo að ég geti búið til hádegismat og nesti fyrir börnin, straujað fötin þeirra, vakið þau og undirbúið morgunmat, greitt hár og þvegið andlit. Svo er haldið á leið í skólann með regnhlífar í fararbroddi, húfu á höfði, og vetrarstígvélin á fótunum. Skapið hefur aðeins batnað, en enn eru stýrur í augum og smá kvartað og kveinað.

Hér bíður mín uppvask og óhrein borð þegar ég kem heim eftir göngutúrinn. Ryksugan bíður spennt eftir að sjá hvað hún fái nú að borða í dag, er það Cheerios eða vöfflur eða kannski er eitthvað gott ennþá á gólfinu eftir kvöldmatinn í gær. Talvan bíður þolinmóð á meðan íbúðin fær meiri athygli en hún, en loksins hér er vinkona hennar komin til þess að strjúka á henni stafina. Talvan malar eins og köttur og vonast til þess að vinkona sín þurfi nú ekki að snúa athyglinni eitthvert annað. Því miður er ekki hægt að gera tölvunni til geðs því að búðirnar bíða spenntar eftir að fá heimsókn, og reikningarnar fussa bara og sveia því að ekki er ennþá búið að sinna þeim.

Já, hversdagsleikinn er svo sannarlega kominn og ég segi bara VELKOMINN VINUR


Árið 2007 er runnið í garð

GLEÐILEGT ÁR

kæru vinir og vandamenn. Takk fyrir öll þau gömlu og góðu og ég hlakka til að sjá og eyða tíma með ykkur öllum á þessu ári.

Hér hjá okkur sex í San Jose voru áramótin róleg og góð. Þann 30. Desember fengum við bræður hans Tim í heimsókn (þeir eru tveir) og konur þeirra og börn. Hér voru 10 börn hlaupandi um og átta fullorðnir og ég var á fullu í eldhúsinu að töfra fram allsskonar góðgæti. Við spiluðum Scene it leikinn og kallarnir unnu konurnar tvisvar... bara heppni ef þú spyrð mig.

Svo á gamlaársdag þá horfði ég á RÚV og fylgdist með skaupinu og skildi nú sumt af því af því að ég fylgist nú með fréttum frá Fróni, en fannst þetta svona misfyndið eitthvað, kannski er ég bara ekki alveg inní þessum húmor, ég veit ekki. Svo gæddum við okkur hér bara á forréttum og eftirréttum, og settum á okkur hatta og fylgdumst með Time Square í New York þegar silfurkúlan er færð niður og niðurtalningin er þvílíkt spennandi.

Svo var ég og maðurinn minn bara lognuð hér útaf rétt fyrir eitt á meðan Mikaela mín var enn að horfa á bíómynd í imbanum, alltaf síðust að fara að sofa sú. Mikill er nú munurinn á mér núna og fyrir svona sjö-átta árum, þegar djammið var sko minn besti vinur á gamlárskvöld. Já, og ekki bara á gamlaárskvöld heldur bara á hverri helgi var djammið minn fylgifiskur. Hvað börnin manns gera mikinn mun á því sem að manni finnst skemmtilegt. Núna finnst mér best að vera í faðmi fjölskyldunnar, leika leiki með þeim, tala við þau, hlæja með þeim, allt er þetta betri drykkur en nokkur barþjónn getur mixað fyrir mig svo að ég skemmti mér nú vel.

Nú lít ég með vonaraugum til nýja ársins og er vongóð með að árið muni bera góða hluti í för sér. Ég held í jákvæðina og efst á mínum lista er að laga heilsuna og borga nógu mikið af mínum skuldum til þess að geta komið heim í sumar. Þannig að ég óska ykkur öllum aftur Gleðilegs árs og takk fyrir þau gömlu og hlakka til þess að sjá ykkur vonandi í sumar...


Gamla árið...

að renna út. Mikið er nú gaman að horfa tilbaka yfir næstum því liðið 2006 og sjá hvað er búið að gerast í heiminum, hjá vinum og vandamönnum, hjá sjálfum sér. Ég var alltaf vön að setja mér þvílík markmið þegar ég var yngri áður en að ég eignaðist börn. Markmiðin voru alltaf þau sömu, spara pening, og grennast. Alveg sama hversu mikinn pening ég átti eða átti ekki, eða hversu grönn ég var eða var ekki, þá voru þetta alltaf þau áramótaheit sem voru efst á mínum lista.

Mikið er búið að vera um stríð í heiminum árið 2006, og við erum búin að finna mikið fyrir því hér í AmeríkuSideways. Bensínverðin eru búin að fara upp og niður eins og róla á leikvellinum, pólítikín alveg að fara með mann því að það er það eina sem er talað um í fréttunum, það eða hversu margir hafa nú dáið í dag í Írak, þetta er allt mjög upplífgandi eins og hægt er að ímynda sér. Svo erum við auðvitað með Arnold sem stjórnar okkar Kaliforníufylki, og er ekkert smá gaman að horfa á hann gefa ræður og eina sem að maður heyrir er I´LL BE BACK, alveg sama hvað hann er að tala um. Ekki má nú gleyma okkar frábæra forseta, sem er búinn að svindla allt sitt líf til þess að hafa það líf í stjórnmálum sem hann er búinn að hafa, og þetta er okkar nútíma Jesús sem við eigum að fylgja með augun opin og lokuð.Cool

Það fyndnasta við pólítíkina hér í Ameríku finnst mér nú samt að hér eru þvílíkar umræður yfir tveimur manneskjum sem sækjast kannski eftir forsetastarfinu 2008, ein manneskjan er Barak Obama, sem er svartur maður (Guð minn góður, sagði ég svartur), og hin manneskjan er Hilary Clinton, sem er hvít kona (Guð minn góður, sagði ég kona). Bandaríkin eru ennþá í Flintstone tímabilinu, því þetta er allt víst voða snemmt að vera að tala um svartan mann eða konu í framboði fyrir forsetasætið. FLINTSTONES TÍMINN, þið skiljið. Við höldum nú samt að allir hvítu mennirnir sem eru með öll völdin hér í Ameríku eigi nú pottþétt eftir að sjá til þess að hvít kona verði forseti áður en að svartur maður verði forseti, þó svo að Barak Obama eigi nú hvíta mömmu og svartan pabba frá Kenya, en í Ameríku ef þú ert með dropa af svertingjablóði í þér þá er litið á þig sem svertingja.

Annað áhugavert í heiminum í dag er hversu hitastigið hefur breyst, hér er bara heitara og heitara með hverju árinu sem líðurShocking. Ég er alltaf að reyna að finna mér kaldan stað til þess að slaka á, en get varla komið heim til Íslands í kuldann, því að á Íslandi er bara 7-10 stiga hiti yfir jólin núna. Eina sem að ég get gert er að sitja inní bílnum mínum og kveikja á ACinu. En þá eyði ég öllu bensíninu mínu og þá get ég ekki sparað neinn pening eins og nýársheitið mitt er alltaf. Hjá fjölskyldu og vinum er lífið búið að ganga sinn vanagang. Börn fæðast, börn stækka, hús eru byggð, íbúðir eru keyptar, bílar bila, fólk eldist, fólk deyr, lífið hefur í för með sér hlátur og tár, góða og slæma daga, hamingju og sorg, orku og orkuleysi, svo lengi mætti telja. Þegar litið er tilbaka í lok árs, þá er hægt að sjá marga góða og slæma hluti. Mér finnst alltaf ef að góðu hlutirnir eru fleiri en þeir slæmu, þá er árið vel heppnað.

Ég fékk loksins græna kortið mitt í ár, er núna með mitt tíu ára kort og ekki hægt að kasta mér útúr landinu, þó svo að það var reynt... Undecided Skilnaðurinn minn gekk í gegn eftir eitt og hálft ár af stressi, reiði, orkuleysi, óhamingju, og reiði... var ég búin að nefna reiði? Það sem að ég hef lært af þeirri reynslu er að ekki giftast eða eignast börn með manni sem að þú ert ekki tilbúin að vera skilin frá, það er rosalega mikill sannleikur í þessum orðum. Ég komst af því eftir eitt og hálft ár að ég er með MS sjúkdóminn, og hann er ekkert á leiðinni neitt, sá sjúkdómur mun fylgja mér það sem eftir er.

Börnin mín stækkuðu og stækkuðu, bæði í centimetrum og orðaforða og óþekktAngry Sem betur fer stækkuðu eyrun þeirra líka og rassarnir svo að ég get skammað þau meira og rasskellt beturWink Án gríns, þau ná mér uppá brjóstkassa, ég veit að ég er nú enginn risi, en common þau eru bara sex og sjö ára. Þau eru líka rosalega góð öll fjögur, og ég tel mig mjög heppna með hvað þau eru góðhjörtuð og gáfuð og skemmtileg bara. Ég er búin að vera heppin að geta verið frá vinnu á sjúkrapening án þess að þurfa að flytja eða losa mig við bílinn minn og við getum ennþá keypt í matinn, þannig að það er allt mjög gott mál. Ég sakna þess að fara að vinna á hverjum degi, en þakka Guði fyrir að ég hef getað hvílt mig og einbeitt mér að því sem ég þurfti að klára árið 2006. Ég er frekar stressuð yfir framtíðaráhorfum í sambandi við vinnumál, og peninga, en verð að treysta því að það mun allt fara vel.

Ekki má gleyma þeirri mikilvægu staðreynd að ég er með yndislegan mann í mínu lífi sem að styður mig 110%. Hann er gáfaður, góður, og gamaldags á góðan hátt, hann trúir á sitt hlutverk sem faðir og eiginmaður, og hann hugsar svo vel um okkur öll. Ég er loksins á þeim stað í mínu lífi þar sem að ég trúi að ég sé búin að finna minn maka að eilífu. Ég veit að hann er minn Óli Kalli, eða minn Ómar, eða minn Bragi, eða minn Simbi. Nema það að hann er minn TimSmile

Það má segja þetta mikið um árið 2006, það er búið að vera áhugavert. Að mestu leyti var það erfitt, en á góðan hátt, því að ég náði að klára marga kafla í minni lífsbók. Ég er gáfaðri fyrir vikið, reynslunni ríkari fyrir vikið, og ríkari á andlegan veg fyrir vikið. Nú líður að 2007 og ég hef eins og þið öll vonir um gott ár. Ég hef vonir fyrir ykkur öll að 2007 gefi ykkur allt sem ykkur vantar, sumt af því sem ykkur langar í, og ekkert af því sem þurfið ekki á að halda. Þó svo að ég er hætt í áramótaheitunum, þá er eitt víst, mitt plan er að spara pening (svo ég komist í heimsókn til Íslands), og að grennast (svo ég sé nú sæt fyrir ykkur þegar ég kem í heimsókn), en mitt heitasta áramótaheit er að njóta þess að vera í faðmi fjölskyldu og vina daglega. Dagurinn í dag gæti verið besti dagur í lífi okkar, bara ef við notum hann rétt.Wink

GLEÐILEGT ÁR

 

 

 


Æðisleg Jól

Takk kæru vinir og vandamenn fyrir jólakortin, símtölin, og jólagjafir. Mikið eru þetta búin að vera yndisleg jól, ég verð nú bara að segja það. Á aðfangadag vaknaði ég eldsnemma og rauk útí búð til þess að kaupa aðeins meira, alltaf að kaupa aðeins meira. Kláraði að kaupa í matinn og svo hélt ég heim á leið og byrjaði í undirbúningnum. Hér voru börnin og maðurinn tilbúin klukkan sex, en ekki ég og ekki jólasteikin, þannig að við borðuðum um sjöleytið. Ég minnti sjálfa mig á mömmu, sem var alltaf að hoppa í sturtu þegar jólin byrjuðu, þannig að núna er ég bara alveg eins.

Möndlugjöfina fékk hún Mikaela mín þetta árið og var svaka montin, hún er nefnilega stundum tapsár þegar kemur að svoleiðis hlutum. Síðan voru pakkarnir frá Íslandi og núna Svíþjóð opnaðir og var mikil lukka hér á bæ. Takk kærlega Bríet, Breki, Arney, Rebekka, Sesselja, og Diljá, við vonum að ykkur líkaði vel við ykkar gjafir líka. Siðan lögðumst við öll fyrir framan imbann og horfðum á It´s að Wonderful Life, og var það mjög hátíðlegt að horfa á hana. Kalli og Jasmine sofnuðu í miðri mynd, en Mikaela og Janae voru algjörar hetjur og voru vakandi til ellefu.

Jólasveinninn var sko ekkert smá upptekinn að setja alla pakkana undir tréð og gera allt tilbúið fyrir Jóladag, og svo var hann líka svo spenntur að hann gat voða lítið sofið þannig að í morgun þegar Mikaela vaknaði eldsnemma þá var hann þreyttur. Hér var svaka stuð að rífa upp allar gjafirnar, og svo mikið af gjöfum að það tók alveg tvo tíma að opna. Síðan var gætt sér á Beikon, Osta, og Egg Croissants og svo farið að leika sér með allt nýja dótið, spila nýju leikina, og horft á nýju bíómyndirnar. Síðan fékk ég mér smá blund og er ekki bara búið að taka til í húsinu mínu, búið að setja saman kappekstur brautina hans Kalla og Mikaela búin að leyfa Ariel hafmeyjunni að synda í baðinu okkar. Þannig að hér er búið að vera þvílíkt fjör í dag.

Núna ætla ég að fara í kappekstur við Kalla, í Bratz leik við Mikaelu og gefa nýja barninu hennar að borða, hlusta á geisladiska með tvíburunum, og kannski horfa á bíómynd með manninum mínum, þó svo að það verði eflaust ekki í bráð. Ó, já, kannksi skell ég Nýja Sjálenska lambalærinu mínu inní ofn, svo að allir geti nú borðað eitthvað í öllum spenningnum, set hér inn myndir þegar ég er búin í öllum mínum hlutverkum, jólin eru sko komin, og þau eru yndislegSmile 


Jólin komin

GLEÐILEG JÓL KÆRU LANDAR, VINIR OG VANDAMENN

Gleðileg Jól og farsælt komandi ár. Takk fyrir allt gamalt og gott og ég vona að ykkur öllum líði vel í faðmi fjölskyldunnar yfir þessi helgu jól.

Við höldum okkar íslensku hefð gangandi í kvöld með hamborgarahrygg, brúnuðum kartöflum, og möndlugjöf. Svo verða blessuðu pakkarnir loksins opnaðir og þá verða nú börnin rólega í smá stund, þangað til að tíminn er kominn til þess að fara að sofa og bíða eftir Ameríska Jólasveininum sem kemur með alla pakkana. Þeir verða svo opnaðir hér í fyrramálið. Ég set inn myndir svo yfir jólin.

Ástar-, Saknaðar- og hinar innstu Jólakveðjur frá okkur til ykkarKissingHeartKissingHeart


Einn dagur til jóla...

Þorláksmessan er hér og sömuleiðis er heimþráin. Ég er búin að reyna að vera sterk allan mánuðinn og er búin að þvílíkt vera upptekin, eða passa mig á að vera upptekin svo að heimþráin myndi kannski gleyma mér þetta áriðUndecided

En ég var ekki svo heppin. Ég var að tala við vinkonu mína í Boston sem að allt í einu fattaði það að Þorláksmessan var komin, og fór á þvílíkan bömmer. Ég var bara að tala við hana og sagði einmitt við hana að ég væri enn að bíða eftir að ég færi á bömmer, og kannski myndi það bara ekki gerast hjá mér í ár, en bömmerinn er kominn. Þannig að ég ákváð að setjast við tölvuna og reyna að skrifa eitthvað sem ætti eftir að rífa mig upp úr þessu, en hvað skal skrifa...

Fimm mínútum síðar og ég veit ekki enn hvað skal skrifa. Ég ætla að fara að reyna að finna mér eitthvað að gera, þá verð ég kannski skárri í heimþránni. Skrifa aftur á morgun, vonandi verða tárin hætt að streyma þáFrown

Núna dansaði maðurinn minn fyrir mig KJÚKLINGADANSINN sinn og núna er ég farin að hlæjaGrin


Tveir dagar til Jóla...

Spennan er svo mikil að varla er hægt að sofa núna á nóttinni. Það er sko erfitt að vera krakki og þurfa að bíða eftir jólunumPouty Mikið man ég nú hvernig þetta var í Stórholtinu þegar pakkarnir voru settir undir tréð á Aðfangadag og maður þurfti að bíða allan daginn til þess að opna þá. Og svo voru teiknimyndir sýndar í sjónvarpinu, en bara til klukkan fjögur, svo þurfti maður að bíða í sparifötunum þangað til að klukkan varð sex og maður gat sest niður að borða.

Ég man að mamma og pabbi dunduðu sér alltaf við uppvaskið, og ég og Annas bróðir biðum og biðum, alveg á nálum. Mikið var nú gaman þegar maður fékk að opna pakkana. Uppáhalds jólin mín voru þegar ég var fimmtán ára og við bjuggum í Sonderbörg í Danmörku. Ég fékk átta bækur í jólagjöf og ég held að ég hafi ekki sofnað fyrr en á Jóladags morgun, því að ég var að lesa alla nóttina. Alla vikuna á milli jóla og nýárs lá ég uppi í rúmi, með marglituðu jólaseríuna mína í glugganum, með smákökur og Machintosh, og las og las og las...

Enn þann dag í dag les ég og les, en ekki get ég nú gert það alla nóttina lengur, því að á morgnana þarf ég sko að vakna og hugsa um börnin. Ég man að ég og Hanna vinkona mín á Ísó fórum á bókasafnið tvisvar til þrisvar í viku og tókum út sex bækur, því það var hámarkið sem mátti taka út. Svo löbbuðum við útí sjoppu og keyptum okkur súrfiska og héldum svo heim á leið í snjónum, svona spenntar að lesa bækurnar.

Ef að börnin mín læra að elska að lesa eins mikið og ég, eða að minnsta kosti hafa mikinn áhuga á að lesa, þá veit ég að þau eru allaveganna búin að læra það frá mér, og þó svo að þeirra bestu jól verða kannski ekki af því að þau fengu átta bækur í jólagjöf, þá vona ég samt að þau eigi eftir að muna hversu lengi mamma og pabbi dunduðu sér í uppvaskinuShocking


Þrír dagar til jóla...

Hér er niðurtalningin byrjuð, að vísu búin að vera í gangi síðan 1. Desember eins og ég býst við að sé búið að vera hjá ykkur öllum sem eiga börn. Hér er að vísu talið niður til 25. Desember því að á Jóladagsmorgun eru jólin tæknilega byrjuð hér.

Kaninn er fyndinn á jólunum. Ég er nú búin að vera búsett hér í meira en tíu ár, en kemst enn ekki yfir hvernig þetta er allt saman hér. Hér eru allir á síðasta snúningi, að kaupa allt sem hægt er að kaupa, að leita að hverri og einustu útsölu sem hægt er að finna, og svo er öskrað á hvort annað þegar er verið að leita að bílastæði í Kringlunni. Talandi um JólaandannSideways Og allt þetta er útaf einum blessaða degi, því hér er sko bara haldið uppá jólin á Jóladag, og svo eru jólin barasta búin.

Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að hér eru mörg mismunandi trúarbrögð ræktuð, þannig að það er mikið af fólki sem að heldur ekki upp á Jól, en samt sem áður, þá furða ég mig enn á því hvað jólin eru eitthvað hversdagsleg hjá Kananum. Það er barasta vaknað á Jóladag og hlaupið fram í stofu og byrjað að rífa uppúr pökkum, án þess að þvo sér í framan eða bursta í sér tennurnar, allir enn með úfið hár og í náttfötum. Svo þegar er búið að rífa og tæta og öll stofan full af jólapappír þá hverfa allir inní sitt eigið horn til þess að leika sér með það sem að var fengið frá Jólasveininum.

Það er annað sem ég fatta ekki, foreldrarnir eru búnir að vera úti öskrandi á aðra foreldra yfir bílastæði, að eyða leigupeningnum í flottustu og dýrustu tækninýjungarnar fyrir börnin sín svo að þau geti nú lokað sig inní herbergi þangað til á næstu jólum, og svo fær Jólasveininn allar þakkirnar... Er ekki ennþá farin að skilja það logicFootinMouth Kannski er ég eitthvað SLOW...

Mér finnst ég svo heppin að hafa alist upp á Íslandi með mínar sterku hefðir og trúarbrögð, þó svo að mér fannst við ekkert sérlega trúuð þegar ég var að alast upp. En, ég sé núna að trúin á Jólunum sjálfum, og ástæðan fyrir Jólunum situr föst í manni sem fullorðnum. Að vita það að við höldum uppá fæðingu Jesús, að við njótum þess að vera í faðmi fjölskyldunnar og að vera í kringum fólk sem við elskum, og að Jólin eru um kærleika og sterkleika fjölskyldu, það er það besta við Jólin. Ef ég get unnið í því að börnin mín haldi þeirri hefð áfram með sínum börnum, þá hef ég sinnt mínu hlutverki sem móðir.

Svo bíð ég bara eftir að þau opni pakkana frá Jólasveininum, öskri af ánægju yfir tækninýjungunum sem að ég öskraði á fimm manns til þess að komast yfir, og svo vona ég bara að ávísunin mín fyrir rafmagnsreikningnum sé enn gildW00t


Ég er skilin

SmileWinkGrinWhistlingJIBBÍ JEI JIBBÍ JEI JIBBÍ JEI

Hvað annað get ég sagt nema þvílíkur léttir. Ég er miklu hamingjusamari að skilja við þennan aumingja frekar en ég var að giftast honum, hvað segir það nú mikið. Ég er semsagt aftur orðin Bertha Sigmundsdóttir, og verð það þangað til að ég kannski hef þá ánægju að giftast prinsinum mínum honum Tim.

Ég fór fyrir framan dómara og var þetta trial short cause, semsagt vorum við þau einu sem að vorum að sjá dómarann þann daginn. Ég beið og beið og ekkert kom hann einu sinni til að ganga frá sínum málum, coward... Þannig að ég fór bara ein fyrir framan dómarann og fékk allt sem ég vildi. Skilnaðinn, og svo var tekinn allur heimsóknartími frá honum af því að hann er ekki búinn að gera það sem að dómarinn var búinn að skipa honum að gera í Júní. Hann átti að taka foreldratíma, svo átti hann að mæta í eiturlyfjaneyslu tíma, og svo átti hann að fara í eiturlyfjaprufu vikulega til þess að við gætum verið viss um að hann væri ekki að reykja gras eða eitthvað verra en það. Hann gerði aldrei neitt af því sem var búið að skipa honum fyrir og svo voru alltaf einhver vandamál í hvert skipti sem að börnin fóru í heimsókn.

Hann átti að hafa þau yfir jólin, á Aðfangadag frá 10 um morguninn til 6 á Jóladag. Þannig að ég átti ekki að hafa þau á Aðfangadag og við höldum alltaf uppá íslensk jól á Aðfangadag og opnum pakka frá Íslandi og borðum hamborgarahrygg og brúnaðar kartöflur og svo leitum við af möndlunni í grautnum, þannig að þetta er alltaf rosa gaman hjá okkur og ég er búin að hafa þetta svona síðan Kalli fæddist. Þannig að börnin voru sko ekkert ánægð með að þurfa að fara til pabba síns, þó svo að þau myndu vera með ömmu sinni líka, en auðvitað eru þau vön að vera hjá mömmu sinni.

Í fyrra voru fyrstu jólin sem að ég var með Tim þannig að það var í fyrsta skipti sem okkur börnunum leið eins og alvöru fjölskyldu. Ég var vön að eyða jólunum með mínum fyrrverandi og mömmu hans og var það alltaf mjög kósý, en það var alltaf hjá mömmu hans, ekki heima hjá mér og gert á minn hátt eins og ég vil hafa það. Þannig að í fyrra byrjuðum við okkar eigin hefð sem fjölskylda og ég var ekki ánægð með það að ég myndi ekki hafa börnin mín þessi jól til þess að halda hefðinni gangandi. Þannig að ég er gjörsamlega í himnaríki yfir þessu öllu saman, jólin eru nú þegar erfið af því að ég er alltaf með mikla heimþrá, þannig að hugsa til þess að ég myndi vera án barna minna var eins og að slíta úr mér hjartað...

Ég er himinlifandi yfir þessu öllu saman. Það er búið að taka mig eitt og hálft ár að skilja við hann, og ég var búin að vera slitin frá honum í eitt og hálft ár áður en við byrjuðum á skilnaðinum þannig að þetta er allt í allt búið að taka þrjú ár. Í millitíðinni er ég búin að kynnast þessum yndislega manni sem er búinn að standa við hlið mér í gegnum þetta allt saman. Þannig að lífið er gott þegar það viðkemur ástinni. Ég er ástfangin upp yfir haus, á fjögur yndisleg og góð börn, og fæ að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar. Lífið verður varla betra en það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband