Færsluflokkur: Bloggar
7.2.2007 | 23:00
Á ég að sprauta honum...
Aldrei mun ég gleyma þessum orðum og minnir mig að þetta sé úr þeirri frábæru mynd Stella í orlofi, eða þá að þetta var í einhverju gömlu skaupi, en alltaf hef ég munað þessa fyndnu spurningu, og spyr nú sjálfa mig, á ég að sprauta henni????
Það var hringt í mig loksins í gær útaf þessu nýja meðali sem ég á að fara að byrja á, þetta heitir Copaxone, og er þetta meðal sem að maður sér sjálfur um að sprauta sig með, á hverjum degi. Læknirinn minn, taugasérfræðingurinn minn sem heitir Doctor Sól, er nú ekki sérlega sólarlegur, frekar þurr á manninn, grannur og hávaxinn og er alltaf með þessar fyndnu sögur til þess að bera saman mín einkenni við aðra hluti. Til dæmis, ef líkaminn á mér væri bíll, þá er ekki nóg fyrir mig bara að setja bensín í mig, heldur þarf líka að skipta um olíuna, tékka á vélinni, og skipta um dekk öðru hvoru. Þannig að hann er búinn að ákveða að það sé best fyrir mig að fara í olíuskiptingu núna, en ég verð að fara í eina svoleiðis á hverjum degi, og er þetta ein besta olían fyrir MS bílinn minn og heitir hún Copaxone.
Doctor Sól segir líka að líkaminn minn sé eins og bíll án tryggingar. Ég borga fyrir tryggingar í hverjum mánuði án þess að lenda í árekstri. En, ef það gerist að ég lendi í árekstri þá munu tryggingarnar mínar borga fyrir skaðann. Þetta er hans samanburður við þetta meðal sem ég er að fara að byrja að sprauta henni...
Þar sem að ég er enn í byrjunarstigi MS, þá þarf ég að tryggja líkamann minn með Copaxone, þannig að ef ég lendi í árekstri, sem er það sama og MS kast, þá verður skaðinn ekki eins mikill því að ég er með tryggingar. Þetta er nú engin sólarsaga samt, því að þessi daglegu skot geta auðvitað haft skaðandi áhrif á manneskjuna, sjúkdóminn, og heilsuna yfir höfuð. Ég lít á þetta sem svo að ég vil frekar vera tryggð og ekki lenda í árekstri, en að lenda í árekstri ótryggð.
Það er nú eitt gott við að búa í frjálsa landinu með góða heilsutryggingu. Meðalið sem að kostar $30.000 á ári, sem er meira en 2 millur heima eins og krónan er þessa dagana, mun aðeins kosta mig skítna $15 á mánuði. Ég fæ mánaðarsendingar til mín í gegnum Fed Ex, þarf ekki að ná í lyfin eða neitt. Ég er nú þegar búin að fá ejector, sem að ég mun setja sprauturnar í og það aðstoðar mig við að sprauta sjálfa mig. Á morgun kemur fyrsta sendingin af meðalinu mínu, og þarf ég að hafa það kælt inní ísskáp, svo fæ ég líka BioTech kassa sem að ég mun setja notuðu sprauturnar ofan í. Svo kemur hjúkka hérna heim til mín á Sunnudaginn til þess að þjálfa mig á notkun sprautanna. Hún er líka með MS, er búin að vera með það í 28 ár, og sagði að hún er búin að vera á Copaxone í 3 ár og líður núna betur en í langann tíma. Hún er á leiðinni á Mánudaginn í draumaferðina sína, og verður í burtu í 6 vikur. Ég er mjög ánægð fyrir hennar hönd og get ekki beðið eftir að hitta hana.
Ég er búin að hafa mestar áhyggjur af krökkunum, að ekki hræða þau með þessu öllu. Sprauta mig eftir að þau fara í skólann, og inná baði um helgar, en aðallega að þau geti ekki einhvern veginn meitt sig á þessu. Þannig að ég vil vera eins varkár og ég get, sérstaklega þar sem að við erum í lítillri íbúð, þá verð ég að passa mig. Ég er að spá í að reyna að finna lítinn ódýrann ísskáp til þess að setja útá svalir, svo að ég geti geymt meðalið þar. Þá þurfa börnin ekki að horfa á meðalið í hvert skipti sem að þau fara inní ísskáp til þess að ná í eitthvað.
Ég er búin að tala við þau um þetta smá, ég vil ekki hræða þau, en ég vil líka að þau skilji hvað sé í gangi með mig, því að auðvitað skynja börn svona hluti, og ég er búin að vera rosalega þreytt og erfitt fyrir mig að gera marga hluti með höndunum, vegna verkja. Þannig að skera niður epli og reima skó er ómögulegt suma daga. Börnin mín eru svo góð og yndisleg að þau kyssa á mér hendurnar tíu til tuttugu sinnum á dag, þau eru alltaf að reyna að hjálpa mér og spyrja mig hvort að sé ekki allt í lagi með mig.
Stundum verð ég leið þegar ég hlusta á þau spyrja mig hvernig mér líður, því að bernskan á að vera fögur og skemmtileg, en stundum get ég ekki gert fyrir þau það sem ég vil og þá verð ég döpur. Sem betur fer hef ég yndisleg börn, og þetta er lífið sem að Guð hefur planað fyrir mig. Ég geri það besta úr þessu öllu saman, hef mína frábæru daga jafnt og mína hörmulega, en er það ekki svoleiðis fyrir okkur öll, á mismunandi stigum bara.
Ég les mikið núna blogg annarra og sé hversu gott ég hef það miðað við marga aðra. Ég veit að við öll sem foreldrar getum ekki dílað við það þegar börnin okkar eru veik, og við óskum alltaf að við gætum verið veik í staðinn, þannig kemst ég í gegnum alla mína daga. Ég vil miklu frekar vera veik, heldur en að börnin mín séu veik. Þegar ég byrjaði með þessa verki í höndunum á mér fyrir, Vá, það eru næstum því komin 2 ár núna, þá bað ég til Guðs. Ég gerði samning við hann, að hvað sem að væri að hjá mér, myndi ekki vera það alvarlegt að ég myndi deyja ung og ekki vera til staðar til þess að ala upp börnin mín. Þannig að ég skal halda uppi mínum hluta samningsins, og díla við þennann sjúkdóm sem að heitir MS, og vera hér til staðar fyrir börnin mín. Og þakka Guði fyrir það að ég sé veik, en ekki þau, og þakka Guði fyrir það að suma daga get ég reimað skóna hjá þeim, og skorið niður epli fyrir þau í nesti
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2007 | 16:49
100asti dagurinn...
er dagurinn í dag, það er skóladagarnir sem að börnin eru búin að upplifa. Þessu er fagnað þvílíkt í 1. bekk hjá henni Mikaelu minni, og fórum við í andargarðinn okkar í gær. Við köllum hann það af því að fyrir utan það að vera leikvöllur, er þarna stór tjörn og fullt af öndum og gæsum og svönum. Við fórum með þetta risastóra brauð og gáfum öndunum að borða, og söfnuðum svo að okkur fullt af steinum.
Í 1. bekk hér er hundraðasta deginum fagnað með því að krakkarnir koma með hundrað af einhverju, hverju sem er þannig séð, til þess að deila með bekkjarfélögunum. Og hún Mikaela mín, eins og hún er nú mikil prinsessa, er algjör stelpustrákur líka, svona eins og ég var þegar ég var á hennar aldri, hún ákváð sko að sanka að sér drulluskítugum steinum.
Þegar við vorum búin að því var leikið sér á leikvellinum og svo haldið heim á leið í hreingerningar. Þar var öllum steinunum skellt ofan í baðkar, og hún dundaði sér við að þrífa þá og gera þá nice and shiny. Svo var þeim stungið ofan í King Kong plastík popp skál sem að við fengum hérna í bíó einhvern tímann, og svo í morgun var sko haldið á leið með 100 steina í skólann.
Kennarinn hennar var nú soldið hissa þegar hún mætti á svæðið með þessa steina, ég held að hún hafi hálfpartinn búist við að Mikaela myndi koma með prinsessu límmiða, eða bara Barbie dúkkurnar sínar. Kennarinn þekkir meira þessa prinsessu hlið á henni dóttur minni, frekar en þessa strákahlið, sem ég þekki mjög vel. Þannig að þetta er mjög spennandi að fá að heyra hvað aðrir í bekknum hennar komu nú með í skólann.
Rétt áður en að Mikaela sofnaði í gærkveldi þá var hún að ímynda sér hvað aðrir myndu koma með, og þá taldi hún upp perlur, og skeljar frá ströndinni, eða nammi. Prinsessan var þá komin aftur, og strákastelpan horfin. Það er æðislegt að sjá hvernig litlu börnin okkar virka, hvernig hugurinn virkar og hvernig hegðunin er.
Því miður stækka þau alltof hratt og núna má ég ekki kyssa hana bless fyrir framan bekkjarfélagana, og má ekki kalla hana baby, sem er auðvitað bara gæluorð hér. Svo þegar hún kemur heim þá liggur hún í kjöltu mér allan daginn, og vill að ég fari meira að segja með henni inná klósett til þess að pissa. Já, prinsessu hugurinn með strákastelpu hegðun, stóra stelpan í skólanum sem má ekki kyssa, en litla stelpan þegar heim kemur sem getur ekki beðið eftir að mamma sín segi Hæ, baby
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2007 | 18:21
Ofur Skálin
Í dag er Ofur Skálin spiluð í Miami, Flórída. Þar spila Chicago Bears á móti Indianapolis Colts. Ég veit þið eruð nú örugglega að spá í af hverju ég er að skrifa um einhvern blessaðan fótboltaleik, en maðurinn minn er sko algjör fótboltakall.
Þetta er fyndið þegar maður er búinn að vera í fyrrverandi samböndum, og búinn að vera giftur, að líta tilbaka á mennina sem að maður hefur verið með. Tim er fyrsti maðurinn sem ég hef verið með sem er algjör íþróttafrík. Fyrir ykkur sem að horfðuð á Sex and the City, þá líður mér stundum eins og Samantha þegar hún var að deita íþróttagæjann. Hún var alltaf að horfa á körfuboltaleiki með honum, og gat ekki beðið þangað til að síðasti leikurinn yrði búinn svo að hún myndi nú loksins fá einhverja athygli og eitthvað action frá gæjanum. Svo er leikurinn loksins búinn og hún þvílík spennt að fá nú einn koss eða svo. Þá segir gæinn, nei bíddu, elskan, ég þarf að fylgjast með hafnarboltanum
Þannig er þetta nú með hann Tim minn, um leið og fótboltinn verður búinn í dag, þá á hann eftir að finna körfuboltann til þess að horfa á. Og mér á eftir að líða eins og Samantha, með enga athygli og ekkert kynlíf
Það góða við að vera með íþróttafíkli er að maðurinn hefur lítinn sem engann áhuga að vera úti á lífinu á hverri helgi. Hann er algjör familíu gæji, sem ég fíla í tætlur. Þannig að ég kvarta nú ekki mikið yfir íþróttunum, heldur reyni bara að horfa á eitthvað af þessu með honum, eins og til dæmis Ofur Skálina. Ég er að vísu líka með smá veðmál í gangi þannig að ég ætla að horfa á leikinn til þess að sjá hvort að ég geti nú ekki unnið einhvern pening. Ég meina, það er ekki nóg fyrir mig að horfa á einhverja stóra rassa hlaupandi upp og niður völlinn, ég verð sko að fá borgað fyrir svoleiðis píningar, eða fá kynlíf eftir á...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 17:19
Sjálfsvorkun
Ég fann það í gær að ég var gjörsamlega að væflast í sjálfsvorkun. Það er sagt að slæmir hlutir gerist þrefaldir og ég fann sko fyrir því í gær. Ég er búin að vera frá vinnu núna í ár og er það nú ekki skemmtilegt, en cela vie... Ég er búin að fá sjúkrapening í ár, en núna er hann að renna út, þannig að ég sótti um langtíma sjúkrapening og sú umsókn tekur 3-4 mánuði, takk fyrir.
Ég lít semsagt frammá að hafa engar tekjur næstu þrjá mánuði. En, ég panikaði ekki, heldur sótti um að taka út pening úr lífeyrissjóðnum mínum, og er búin að bíða eftir að fá það samþykkt. Hér í Ameríku er alltaf svona catch 22. Ég get ekki fengið auka pening frá ríkinu af því að ég á yfir $6000 í ellilífeyrissjóðnum mínum, 401K eins og það kallast hér. En, ég get ekki tekið út þann pening til þess að lifa á þangað til að sjúkrapeningurinn minn byrjar að koma eftir 3 mánuði. Ástæðan er sú, að mínar aðstæður eru ekki nógu erfiðar til þess að ég geti fengið leyfi til þess að taka út minn eigin pening, sérðu catch 22.
Þannig að fyrst að mínar aðstæður falla ekki undir það sem ríkisskatturinn er búinn að stimpla sem erfiðar aðstæður, þá veit ég barasta ekki hvað erfiðar aðstæður eru Það er ekki nóg að vera veikur og þurfa að stressa sig yfir heilsubótum og hvort að heilsutryggingar manns eiga nú eftir að samþykkja meðölin sem maður þarf að taka, heldur getur maður ekki tekið út sinn eiginn pening af því að aðstæður manns passa ekki inn í einhverja formúlu sem einhver eldgamall hvítur Kanakarl bjó til þar sem hann sat eflaust í nærbuxunum að horfa á klám í tölvunni hjá sér...
Ekki nóg með það, svo fæ ég líka þær fréttir að peningur sem ég er búin að vera að þéna til hliðar verður núna settur í biðstöðu næstu 3 mánuðina. Þannig að ég hef ekki aðgang að mínum pening, heldur get ég ekki þénað einhvern smápening næstu 3 mánuðina útaf einhverju rauðu límbandi... Ég var bara skíthrædd eftir að þetta tvennt gerðist, því ég vissi það að atvik númer þrjú var handan við hornið, og klukkan ekki komin yfir hádegi hjá mér.
Tim, sem betur fer, minnti mig á það að það þriðja var búið að gerast, og það var nú ekki svo slæmt, en við vorum að bjóða í jersey á ebay og unnum ekki sem highest bidder. Þannig að það var það þriðja, þannig að ég vissi að restin af deginum yrði ekki eytt í panik að bíða eftir þriðja atvikinu.
Ég get sagt ykkur það, að sama og við allt annað, þá hefur Ameríka margt gott uppá að bjóða, þó svo að ég kvarta oft og kveina yfir því slæma. Mér finnst mjög gott að búa hér, og mér hefur alltaf fundist að möguleikarnir séu endalausir þegar viðkemur manns menntun og vinnumöguleikum. Þar sem ég hef núna undanfarið ár haft þá ánægju að vera stimpluð sem sjúklingur í þessu stóra landi, þá hef ég séð aðra hlið á þessu landi.
Ég þakka Guði fyrir það að vera vel tryggð, því án þess veit ég ekki hvar ég væri stödd. Það góða við Ameríku er líka það, að fólk sem hefur haft möguleika á að mennta sig og hefur unnið mestallt sitt líf, hefur aðgang að aðstoð hjá ríkinu, og er aðstoðin ekki amarleg á meðan hún er fyrir hendi. Mér finnst sanngjarnt að fólk sem hefur unnið allt sitt líf og er sífellt að reyna að betrumbæta líf sitt, hafi aðgang að meiri aðstoð frá ríkinu og landinu, frekar en fólk sem nennir ekki að gera neitt og situr heima fyrir og safnar pening frá ríkinu til þess að reykja svo peninginn í hass formi.
Þar sem ég sat í sjálfsvorkun í gærkveldi, þá var ég minnt á það hversu heppin ég er að hafa stuðningsfullan mann og fjögur heilbrigð börn. Það er alltaf gott þegar maður er á einhverjum bömmer að muna eftir því jákvæða sem er tilstaðar í lífi manns akkúrat í dag. Ég hef margt að vera þakklát fyrir og er fjölskyldan, nær sem fjær, og vinirnir mínir, nær sem fjær, í fararbroddi. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að þykja svo vænt um mig að þið lesið þessa litlu og stunum löngu pistla hjá mér. Það er æðislegt fyrir mig að lesa orð ykkar í gestabókinni og í athugasemdunum, það virkilega hjálpar mér á jákvæðan hátt að heyra frá ykkur öllum, þúsund þakkir enn og aftur fyrir stuðninginn.
Málið er bara það, að það eru margir dagar sem eru slæmir, og enn fleiri dagar sem eru góðir. Er það ekki tilgangur lífsins, að komast yfir slæmu dagana til þess að vera nær þeim góðu dögum sem fylgja. Til dæmis, í dag ligg ég ekki í eins mikillri sjálfsvorkun, ég er núna bara að reyna að fiffa allt til svo að næstu þrír mánuðir setji mig ekki á hausinn. Ég hef sagt þetta áður, og segi aftur að vera ekki að þéna pening er niðurdrepandi, sérstaklega fyrir duglegt fólk, sem ég tel mig nú vera. Ég verð að finna einhverja leið til þess að sætta mig við þá staðreynd að vinna er of erfið fyrir mig núna, og ég verð að leyfa sjálfri mér að huga að mínum veikindum.
Ég hugsa bara til þeirra sem eru langtum verri að en ég, og þá finnst mér ég algjör aumingi. Það er svo margt fólk sem á við krabbamein að stríða, en er enn fullvinnandi, hvað er eiginlega að mér? Ég veit að ég má ekki gera sjálfri mér þetta, því að það er ekki gott að rífa sjálfan sig niður, en stundum þarf það til þess að maður geti endurbyggt sjálfan sig. Maðurinn minn benti mér nú bara á það að það er ekki hægt að bera sjálfan sig saman við annað fólk, því við erum öll einstaklingar, og við erum öll að ganga í gegnum okkar eigin erfiðu aðstæður. Ég veit ekki hvernig það er að vera með krabbamein, en sú manneskja veit ekki heldur hvernig það er að vera með MS.
Þetta er bara svona, þetta líf okkar. Ég er búin að ákveða að sleppa sjálfsvorkuninni í dag og einbeita mér í staðinn að endurbyggingu. Horfa á björtu hliðarnar er oft erfitt þegar maður er með ský hangandi yfir sér, en ég skal sko finna það bjarta í mínu lífi. Ég næ mér bara í regnhlíf, þá sé ég ekki skýin, og svo bíð ég bara eftir að börnin koma heim úr skólanum, brosandi og hamingjusöm, og að springa úr spenning til þess að segja mér frá öllum ævintýrunum sem gerðust í skólanum. Eitt er nú víst, að um leið og þau labba inn um dyrnar, þá sé ég ekki lengur skýin, því að sólin skín í gegnum öll börnin fjögur. Ef brosandi börn er ekki bjarta hliðin á lífinu, þá veit ég barasta ekki, hvað er
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2007 | 18:00
Hvatir
Sjálshvatir og sjálfsagi er ekkert grín. Ég sit hér og stari á æfingarhjólið mitt og bíð eftir að það kalli á mig. Ég veit að eftir að ég er búin að hjóla í hálftíma þá á mér eftir að líða betur, en að taka þessi fimm skref og hífa mig uppá sjálft hjólið er annað mál.
Er það ekki með flest í okkar lífi? Á ég að borða pítsu eða salat, á ég að glápa á imbann eða lesa, á ég að labba útí búð eða keyra, á ég að hanga í tölvunni eða leika mér við börnin. Þetta er svona með agann og hvatirnar.
Hvatirnar hafa sitt eigið tungumál, það er eins og engilinn og djöfullinn rífist yfir hverri einustu hvöt, á ég eða á ég ekki. Ég er nógu gömul til þess að vita hvað ég á að gera, hvað er betra fyrir mig, samt veit ég að ef ég vel vitlaust þá á ég eftir að sjá eftir því. En, ef ég labba útí búð og strætó keyrir á mig, á ég þá ekki eftir að hugsa með mér, ég vildi óska að ég fékk mér pítsu í staðinn fyrir salat.
Aginn er líka erfiður að eiga við. Að hafa sjálfaga þýðir oftast að líf manns er betra. Manni líður betur líkamlega, andlega, og sálarlega. Þegar maður leggst þreyttur á koddann á kvöldin, þá hugsar maður um daginn sem er að líða. Ég hugsa um það sem ég gerði og það sem ég gerði ekki. Mér líður vel þegar ég hugsa um allan heimalærdóminn sem við kláruðum, bækurnar sem ég las fyrir börnin mín, góða matinn sem ég eldaði, samræðurnar sem ég og maðurinn minn höfðum, og allt það sem ég afrekaði.
Aginn er stundum slakur hjá mér. Þegar svoleiðis dagur gerist þá líður mér ekki eins vel. Ég hugsa um bækurnar sem ég var of þreytt til þess að lesa fyrir börnin mín, pítsuna sem ég pantaði í staðinn fyrir að elda, heimalærdóminn sem er enn ókláraður, þau fáu orð sem að fóru á milli mín og mannsinns, og allt það sem ég afrekaði ekki. Manni líður ekki vel líkamlega, andlega né sálarlega.
Með aldrinum lærir maður að það er allt í lagi að hafa daga þar sem aginn er ekki 100%. Maður lærir að hvatirnar eru stundum of sterkar hjá manni, að refsa sjálfum sér fyrir að borða junk, í staðinn fyrir heilsusamlega máltíð, er ekki heilbrigt. Það eru dagar sem að kalla á að slaka á og ekki vaska upp það kvöldið, eða að horfa á bíómynd á sófanum með popp er það sem að öll fjölskyldan þarfnast þann daginn.
Já hvatir og agi eru ekkert grín. Ég er enn að stara á hjólið, en ég ætla að láta mínar letihvöt hverfa núna og leyfa aganum að taka á, því mér á eftir að líða betur í kvöld þegar ég leggst þreytt á koddann. Einn dagur í einu er nóg fyrir mig, ég hef áhyggjur af morgundeginum á morgun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 18:13
Sædýrasafnið
Í gær héldum við Kalli á leið í bekkjarferð. Við fórum til Monterey, sem er klukkutíma sunnan við okkur, og þar er þetta líka geðveika sædýrasafn. Kalli er búinn að vera að læra um hafið og lífið sem er þar síðastliðinn mánuð, og þessi bekkjarferð var auðvitað toppurinn á tilverunni fyrir alla krakkana.
Eins og má búast við var mikil spenna hjá öllum í sambandi við þessa ferð. Kalli ákváð að keyra einn með mér í okkar bíl í staðinn fyrir að fara í rútunni með bekknum sínum. Hann vildi sko fá að vera einn með mömmu sinni, því að hann er vanur að vera umkringdur systrum sínum. Þetta var mjög notalegt hjá okkur, við spjölluðum um daginn og veginn á leiðinni og sáum fullt af hestum, kúm og kindum út um gluggann, þar sem við vorum komin útí sveit þannig séð.
Þegar við komum á áfangastað var mikil spenna í loftinu og byrjuðu krakkarnir á því að borða nesti. Síðan var haldið á leið inn í safnið og spennan alveg að gera útaf við krakkana. Það var mikið af foreldrum með, þannig að ég og ein mamman löbbuðum saman um með þrjá krakka samtals. Ekki var það nú erfitt, því að oft í þessum bekkjarferðum er ekki nóg af foreldrum, þannig að ég hef oft þurft að sjá um 4 til 6 krakka ein.
Við ráfuðum um safnið næstum því í þrjá tíma. Við sáum allskonar fiska, hákarla, seli, og auðvitað marglyttur. Þetta safn er svo stórt að þó svo að við vorum þar í þrjá tíma, þá þurftum við aðra þrjá til þess að sjá allt sem hægt var að sjá. Það er nóg um sýningar líka, þegar er verið að gefa dýrunum að borða til dæmis, þá er sýning í gangi, því að allir vilja sjá hvort að kafarinn verði nú kannski bitinn af hákarli, haha.
Svo eru selirnir ekkert smá skemmtilegir, þeir leika sér með bolta og koma alveg upp að glerinu og liggur við að þeir gefi manni kossa í gegnum glerið. Þeir eru mjög vingjarnlegir og gaman að fylgjast með þeim. Kalla fannst þeir skemmtilegastir, og svo auðvitað hákarlarnir.
Að vísu sáum við enga hvali, en það er hægt að fara útá sjó á hvalaveiðar, ekki alvöru hvalaveiðar, heldur myndaveiðar. Þá er reynt að finna hvalina svo að almenningurinn geti tekið myndir af þeim. Það er eins og það er. Mér fannst rosa gaman að sjá Dori, frá Finding Nemo, og svo sáum við auðvitað Nemo líka. Svo eru stjörnufiskarnir æði pæði að mínu mati og var hægt að skoða þá og koma við þá á einum stað.
Hér er ein mynd sem að tók mig allaveganna tuttugu tökur til þess að ná. Þeir synda ekkert smá hratt framhjá manni og svo var erfitt að ná heila mynd af honum, hann var svo fljótur að fara framhjá mér að ég náði aldrei hausnum með, en svo loksins tókst það. Kalla fannst hákarlarnir ekkert smá flottir og þeir eru það auðvitað.
Það er rosalega gaman að geta farið á svona söfn til þess að læra um sjávarlíf og maður sér virkilega hversu lítill maður er í þessum stóra heimi. Ég og Kalli skemmtum okkur konunglega og við erum að plana aðra ferð með allri fjölskyldunni. Við fórum öll á sædýrasafnið þegar ég og Tim vorum nýbyrjuð saman, þannig að það er kominn tími til þess að við förum öll aftur saman.
Ég set inn fleiri myndir í myndaalbúmin mín, ég vona að þið njótið þeirra. Endilega farið að plana ferð til mín svo að ég get farið með ykkur á þetta flotta sædýrasafn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 03:50
Disneyland Pabbar
Það er fyndið með Disneyland pabba. Þeir lifa í töfraheimi þar sem þeir setja börnin sín og fyrrverandi konu á pásu, koma svo í heimsókns tveimur til þremur árum síðar eftir að hafa haft lítið sem ekkert samband við börnin sín, og eru svo yfir sig hissa að börnin hafa stækkað og konan búin að lifa sínu lífi í staðinn fyrir að væla yfir honum.
Þeir skilja ekkert í því að allt sé ekki eins, af hverju þegar þeir settu okkur á pásu héldum við áfram að spila? Ég meina hvað er eiginlega að þessari spólu???????Svo skilja þeir ekkert í því að börnunum er alveg sama hvort að þau sjái hann, og konan hefur ekkert að segja við sig. Svo reyna þeir að kaupa ástina hjá börnunum, en þegar þeir eyða tíma með þeim, þá nenna þeir ekki að leika við þau, fara með þau í bíó, eða gera smá heimalærdóm. Ég meina, þetta var sko ekki í pabba handritinu
Ég tala nú ekki um að elda, fá þau til þess að sitja kyrr við matarborðið, borða grænmetið sitt, gefa þeim bað, lesa fyrir þau, segja þeim tíu til tuttugu sinnum að fara nú að sofa, og svo þegar þau eru sofnuð að þurfa að taka til, vaska upp, gera bakpokann og heimalærdóminn tilbúinn fyrir næsta dag, skrifa undir tíu mismunandi form fyrir skólann, og svo reyna að sofna áður en þau vakna og þurfa á klóið, eða vilja skríða uppí, eða vilja fara heim til mömmu sinnar, því að þau þekkja ekki þennan mann sem er allt í einu kominn aftur inn í líf þeirra, sem er víst pabbi þeirra
Þegar þeir loksins fatta að þetta er ekki töfraheimur þar sem hægt er að ýta á pásu og hafa börnin og fyrrverandi konuna í biðstöðu, þá verða þeir reiðir. Hvernig dirfist konan að vera í sambúð með nýjum manni, hvernig dirfist hún að vera hamingjusöm, hvernig dirfist hún að snúa börnunum gegn honum... Svo byrja þeir að reyna að eyðileggja fyrir konunni með því að neita að borga meðlag, reyna að fá forræði, þegar það gengur ekki, þá reyna þeir að fá heimsóknartíma, þegar það gengur ekki þá byrja þeir að hringja í konuna og skella á, eða hringja um miðja nótt, eða snúa mömmu sinni, ömmu krakkana á móti fyrrverandi konunni sinni og svo framvegis.
Þeir eru ágætir þessir Disneyland pabbar, ég get sagt ykkur það af persónulegri reynslu. Það góða sem hægt er að finna í þeirri staðreynd að eins margir Disneyland pabbar og eru til, tvöfalt ef ekki þrefalt sinnum fleiri pabbar eru Jarðar pabbar. Þeir vita hvað það tekur að hugsa um, hjálpa til, og elska börnin sín. Þeir koma og taka til eftir að Disneyland pabbarnir eru búnir að reyna öll galdrabrögðin sín. Þá koma alvöru galdrapabbarnir og töfra fram hliðar á börnunum sem að Disneyland pabbarnir vissu ekki að væru til. Jarðar pabbarnir töfra líka fram hliðar á konunum sem að þær vissu ekki einu sinni að væru til og eru mjög hamingjusamar þegar þær finna þessar hliðar á sjálfum sér.
Sem betur fer er eitt gott við Disneyland. Jarðar pabbinn, fyrrverandi konan og börnin þeirra bjuggu saman það sem eftir var og eins og í öllum Disneyland ævintýrum, voru þau hamingjusöm til æviloka... með áhyggjum inná milli, rifrildum og svefni á sófanum, peningaleysi, börnum, barnabörnum, barnabarnabörnum (með smá heppni), vinnu, ellinni, og fullt af ást, ást, ást
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2007 | 16:38
Fimm Spor
Þá er búið að ganga mikið á hér hjá okkur. Ég endaði á bráðavaktinni í gærkveldi með syni mínum sem var með skurð á vörinni eftir að Janae skellti hausnum í vörina á honum. Auðvitað var þetta bara slys, þau voru að leika sér inní herbergi og hún var að dansa og kippti hausnum á sér upp akkúrat þegar hann labbar framhjá og BÚMM..........
Við biðum í tvo og hálfan tíma þangað til að læknirinn sá hann og þá var bara byrjað að sauma vörina, fimm spor takk fyrir, þrjú í sjálfa vörina og tvö undir henni. Þetta var enginn smá skurður og ég get sagt ykkur það að hann stóð sig eins og hetja. Var drulluþreyttur, fer vanalega að sofa klukkan 8, og við vorum á bráðavaktinni frá hálf átta til tíu mínútur yfir ellefu. Þannig að hann sofnaði í fanginu á mér, alveg eins og þegar hann var lítið barn, og svo svaf hann þangað til læknirinn byrjaði að undirbúa hann fyrir sporin. Hann grét smá, en hann var svo mikil hetja, ég var ekkert smá stolt af honum. Það er ótrúlegt hversu dugleg börnin okkar eru, sérstaklega þegar mikið reynir á.
Fyrir utan þetta ævintýri er allt við það sama. Ég er búin að vera rosalega slöpp síðustu fimm daga, ég er búin að vera með eitt af þessum köstum sem þeir segja að maður fái. Þessi köst geta varað í einn dag til eins mánuðs, þannig að ég vona að þetta fari að lagast aðeins, er bara búin að vera uppí rúmi síðustu tvo daga.
Stelpunum líður vel og gengur vel í skólanum, í dag eru þær ánægðar því að helgin er að verða komin. Í dag förum við Tim svo í minningarathöfnina fyrir frænda hans og verður það erfitt. Systur hans tvær eru komnar hingað frá Suður Kaliforníu þar sem þær eru bara búnar að eiga við snjó síðustu daga, ekkert smá skrítið, það er eitt að búast við því að fá smá snjó í Norður Kaliforníu þegar það er búið að vera svona kalt, en í Suður Kaliforníu, í Malibu af öllum stöðum, ótrúlegt.
Svo er ég nýbúin að eignast litla frænku, til hamingju Ragnhildur og Hjörtur. Þau eru búsett í Danmörku og áttu litlu stúlkuna á Sunnudagskvöldið var, hjartanlegar hamingjuóskir og ég get ekki beðið eftir að sjá litlu snúlluna. Ég læt þetta bara gott heita í bili, skrifa fljótlega aftur svo lengi sem að rúmið étur mig ekki, eða börnin mín slasist ekki, eða bara að heimurinn farist í öllum þessum veðurhamförum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 18:08
Löng helgi
Þá er komin fyrsta langa helgin á nýja árinu. Á mánudaginn kemur höldum við uppá Martin Luther King Jr. daginn og er frí hér í öllum skólum. Þannig að ég hef púkana heima næstu þrjá daga. Hér er enn þvílík kuldabylgja og varla hægt að fara út án þess að vera með húfu, trefil, og vettlinga. Þetta er sko ekki algengt hér í Kaliforníu þó svo að það er stundum kalt á nóttunni, þá man ég ekki eftir að þurfa að dúða mig yfir hábjartan dag. Hér sér maður fólk vanalega í stuttbuxum og peysum allt árið í kring.
Núna er ég með litlu frænku hans Tims í heimsókn, hún er bara tveggja ára og algjör lítil mús, hún er ein af þessum stelpum sem að láta eggjastokkana hjá manni hristast. Hér er búið að vera mikið rætt hvort að skuli bæta við einu barni í fjölskylduna. Við erum enn á báðum áttum með það, að vega og meta kosti og galla við þá ákvörðun. Ég er búin að lesa mér mikið til um hvernig meðganga hefur áhrif á sjúkdóminn sem ég hef og segja flestir að á meðan á meðgöngu stendur líður konum betur. Minni verkir semsagt og öll einkenni minnka. Ég verð nú að segja að þetta er ein af þeim stærstu ástæðum sem ég vil eignast annað barn, minni verkir í níu heila mánuði, Guð minn góður, ég myndi myrða fyrir það.
Svo eru 20-40% líkur á að verkirnir og einkennin verða miklu verri eftir fæðingu. Þá er talað um að það geti gerst innan við nokkra mánuða eftir að barnið fæðist, ekki gaman að hugsa til þess að kannski geta ekki hugsað um litla krílið þegar það er komið. Það jákvæða við að pæla í þessu öllu er það að ég veit að ég myndi hafa rosalega mikla aðstoð. Tvíburarnir okkar verða 13 á árinu, Kalli 8, og Mikaela 7. Guð hvað tíminn líður hratt. Og svo auðvitað hef ég stuðningsfulla manninn minn sem á eftir að vera við hlið mér í gegnum þetta allt saman.
Kostirnir eru margir ásamt mörgum göllum. Einn sá helsti galli er auðvitað peningar, er það ekki alltaf vandamálið Samt finnst mér fáránlegt að láta peninga ráða mikilvægum ákvörðunum í lífinu, en raunveruleikinn er sá að það væri heimska að íhuga ekki hversu stóran þátt peningar hafa í öllum lífs ákvörðunum. Það góða við að eignast barn er að maður hefur níu mánuði til þess að undirbúa komu barnsins, þannig að það væri nú ekkert mál að kaupa allt sem að þarf til.
Svo reikar hugurinn til stærðar fjölskyldunnar, við erum nú sex fyrir, þannig að bæta við einu í viðbót er nú ekki það erfitt, en sjö manna fjölskylda er nú frekar stór. Ég hugsa til þess hvernig þetta var í gamla daga og flestar mömmur áttu nú fjögur eða fleiri börn. Þá var líka mamman heima við og pabbinn þénaði peninginn. Nú til dags er ekki hægt að lifa á tekjum mannsins eins, nema að hann þéni $100.000 eða meira og ef hann gerir það þá sér hann aldrei fjölskylduna, hann er alltaf að puða. Sú staðreynd að ég er búin að vera frá vinnu núna í ár vegna veikinda er mjög niðurdrepandi fyrir mig. Samt finnst mér æðislegt að geta labbað með krakkana í skólann og náð í þau, gert heimalærdóm og eldað góðan og heilsusamlegan kvöldmat hér á hverju kvöldi. Ég hef nú alltaf verið algjör vinnuhestur, en núna fer öll mín orka í heimilið og heilsuna.
Ekki misskilja mig, mér finnst gott að hugsa um heimilið, ég hef séð þvílíkan mun í börnunum mínum síðan ég hef verið heimavið, en ég sakna auðvitað að þéna þann pening sem mín menntun leyfir mér að þéna. Sérstaklega þar sem ég er að svitna yfir að borga LÍN tilbaka öll skólalánin. Ég er búin að lofa sjálfri mér að á þessu ári mun ég ákveða hvernig vinnu ég get sinnt með mínum veikindum, hvort ég ætli að eignast eitt barn í viðbót, og ég vil annaðhvort leigja eða kaupa hús fyrir lok sumars. Mikilvægar ákvarðanir liggja fyrir, og ég veit að ég mun gera réttar ákvarðanir í öllum tilfellum. Auðvitað getið þið fylgst með hér á blogginu hjá mér hvað 2007 ber í för með sér fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er bara spennt sjálf að sjá hvaða ákvarðanir verða teknar, það er alltaf gaman þegar maður íhugar lífið og tilveruna, sérstaklega þegar maður er að íhuga nýtt líf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2007 | 06:22
Skrítinn dagur
Dagurinn í dag var skrítinn. Ég er búin að hafa erfiðleika með svefn síðastliðið ár og getur það vel verið vegna lyfjanna sem ég tek. Læknirinn minn ákváð að stækka skammtinn minn á þeim lyfjum sem gera mig syfjaða og í dag tók ég fyrsta skammtinn og rotaðist útaf. Ég var sofnuð rétt áður en krakkarnir komu heim úr skólanum og vaknaði ekki fyrr en um 6leytið og varð ansi smeyk því ég hélt að það var kominn morgunn.
Kolrugluð alveg fer ég framúr rúminu tilbúin að fara að vekja börnin og gera allt tilbúið fyrir skólann og sé þá að það er rétt svo kvöldmatartími. Þessi lyf geta sko alveg farið með mann og ég er meira að segja búin að kaupa svefntöflur svo að ég geti kannski fengið eina góða nótt til þess að hvíla mig. Á hverri nóttu vakna ég tvisvar eða oftar útaf verkjum, martröðum, eða ég þarf að létta á mér. Þetta er búið að vera svona í langan tíma og ég er bara dauðþreytt á að vera dauðþreytt, þannig að í dag sagði líkaminn á mér greinilega að nóg væri komið og nú skildi ég sko fá þá hvíld sem ég þurfti á að halda, en ég get nú sagt ykkur það að ég er enn þreytt.
Mér finnst nú hálfómögulegt að vera svona þreytt og ekki einu sinni fara í daglega vinnu. Auðvitað er það mikil vinna að hugsa um heimili og fjögur börn, en ég hef nú alltaf verið í vinnu, síðan ég man bara eftir mér hef ég verið að vinna, barnapössun þegar ég var níu ára, í fiskvinnslu þegar ég var ellefu, í bakaríinu þegar ég var fimmtán, og í veitinga og hótel bransanum þegar ég var tvítug. Alltaf unnið og þénað minn eiginn pening, alltaf verið helvíti sjálfstæð bara.
Það er það erfiðasta akkúrat núna sem ég er að díla við og reyna að sætta mig við. Staðreyndin er sú að ég þarf að hugsa vel um mig fyrst og fremst, eða ég verð bara verri. Þessi sjúkdómur er einstaklingsbundinn þannig að engar tvær manneskjur ganga í gegnum það sama. Það er erfitt að geta ekki séð fram á hvernig þessi sjúkdómur á eftir að þróast hjá manni, það er rosaleg óvissa sem að kemur með þessu öllu. Það finnst mér erfiðast eins og er.
Ég er byrjuð að labba aftur og er aðeins byrjuð að styrkja líkamann líka með því að lyfta aðeins og svoleiðis. Ég ætla mér bara að taka þessu rólega og er búin að ákveða að þetta er minn lífstíll það sem eftir er, ég verð að vera aktív svo að sjúkdómurinn nái ekki völdum yfir mér, það eru margir sem að enda í hjólastól eða verra, en ég held að fyrst að ég var greind með þennan sjúkdóm ung þá hef ég meiri tíma til þess að hugsa vel um mig. Það eru margir sem að halda því fram að þetta sé sjúkdómur sem að fólk er með frá fæðingu, en er skilgreint með á milli tvítugs og fertugs eða seinna í lífinu. Auðvitað er erfitt að kyngja þessu öllu, hver vill vera ungur og lifa með svona sjúkdóm, en það góða er að ég er á lífi
Skrítinn dagur eins og ég sagði áður, en góður á margan hátt. Kuldinn er loksins kominn hér alveg eins og heima, ég sé að það var -12 stig á sumum stöðum heima, Brrrrrrrrrrrr. Hér í kvöld fáum við líka frost, en bara 2-3 gráður. Ég bý í dalnum þannig að við eigum kannski eftir að sjá smá snjó efst á fjöllunum, snjór í Kaliforníu segið þið, já takk segi ég barasta, þessvegna er gott að vera í Norður Kaliforníu því að allaveganna er alltaf smá möguleiki á veturna að fá að sjá smá snjó efst í fjöllunum, ekkert smá gaman fyrir mig Ég reyni að ná kannski góðri mynd og set hér inná ef að við fáum snjóinn, þangað til njótið kuldans heima, ég ætla sko að njóta þess að kúra undir sæng í kvöld.
P.S. Endilega skrifið í gestabókina eða í athugasemdirnar, það er æðislega gaman að heyra frá ykkur öllum, látið mig líka vita ef þið eruð með blogg síðu eða sendið mér email adressurnar ykkar svo að ég geti haldið áfram að vera í sambandi við ykkur öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)