10.1.2007 | 06:22
Skrítinn dagur
Dagurinn í dag var skrítinn. Ég er búin að hafa erfiðleika með svefn síðastliðið ár og getur það vel verið vegna lyfjanna sem ég tek. Læknirinn minn ákváð að stækka skammtinn minn á þeim lyfjum sem gera mig syfjaða og í dag tók ég fyrsta skammtinn og rotaðist útaf. Ég var sofnuð rétt áður en krakkarnir komu heim úr skólanum og vaknaði ekki fyrr en um 6leytið og varð ansi smeyk því ég hélt að það var kominn morgunn.
Kolrugluð alveg fer ég framúr rúminu tilbúin að fara að vekja börnin og gera allt tilbúið fyrir skólann og sé þá að það er rétt svo kvöldmatartími. Þessi lyf geta sko alveg farið með mann og ég er meira að segja búin að kaupa svefntöflur svo að ég geti kannski fengið eina góða nótt til þess að hvíla mig. Á hverri nóttu vakna ég tvisvar eða oftar útaf verkjum, martröðum, eða ég þarf að létta á mér. Þetta er búið að vera svona í langan tíma og ég er bara dauðþreytt á að vera dauðþreytt, þannig að í dag sagði líkaminn á mér greinilega að nóg væri komið og nú skildi ég sko fá þá hvíld sem ég þurfti á að halda, en ég get nú sagt ykkur það að ég er enn þreytt.
Mér finnst nú hálfómögulegt að vera svona þreytt og ekki einu sinni fara í daglega vinnu. Auðvitað er það mikil vinna að hugsa um heimili og fjögur börn, en ég hef nú alltaf verið í vinnu, síðan ég man bara eftir mér hef ég verið að vinna, barnapössun þegar ég var níu ára, í fiskvinnslu þegar ég var ellefu, í bakaríinu þegar ég var fimmtán, og í veitinga og hótel bransanum þegar ég var tvítug. Alltaf unnið og þénað minn eiginn pening, alltaf verið helvíti sjálfstæð bara.
Það er það erfiðasta akkúrat núna sem ég er að díla við og reyna að sætta mig við. Staðreyndin er sú að ég þarf að hugsa vel um mig fyrst og fremst, eða ég verð bara verri. Þessi sjúkdómur er einstaklingsbundinn þannig að engar tvær manneskjur ganga í gegnum það sama. Það er erfitt að geta ekki séð fram á hvernig þessi sjúkdómur á eftir að þróast hjá manni, það er rosaleg óvissa sem að kemur með þessu öllu. Það finnst mér erfiðast eins og er.
Ég er byrjuð að labba aftur og er aðeins byrjuð að styrkja líkamann líka með því að lyfta aðeins og svoleiðis. Ég ætla mér bara að taka þessu rólega og er búin að ákveða að þetta er minn lífstíll það sem eftir er, ég verð að vera aktív svo að sjúkdómurinn nái ekki völdum yfir mér, það eru margir sem að enda í hjólastól eða verra, en ég held að fyrst að ég var greind með þennan sjúkdóm ung þá hef ég meiri tíma til þess að hugsa vel um mig. Það eru margir sem að halda því fram að þetta sé sjúkdómur sem að fólk er með frá fæðingu, en er skilgreint með á milli tvítugs og fertugs eða seinna í lífinu. Auðvitað er erfitt að kyngja þessu öllu, hver vill vera ungur og lifa með svona sjúkdóm, en það góða er að ég er á lífi
Skrítinn dagur eins og ég sagði áður, en góður á margan hátt. Kuldinn er loksins kominn hér alveg eins og heima, ég sé að það var -12 stig á sumum stöðum heima, Brrrrrrrrrrrr. Hér í kvöld fáum við líka frost, en bara 2-3 gráður. Ég bý í dalnum þannig að við eigum kannski eftir að sjá smá snjó efst á fjöllunum, snjór í Kaliforníu segið þið, já takk segi ég barasta, þessvegna er gott að vera í Norður Kaliforníu því að allaveganna er alltaf smá möguleiki á veturna að fá að sjá smá snjó efst í fjöllunum, ekkert smá gaman fyrir mig Ég reyni að ná kannski góðri mynd og set hér inná ef að við fáum snjóinn, þangað til njótið kuldans heima, ég ætla sko að njóta þess að kúra undir sæng í kvöld.
P.S. Endilega skrifið í gestabókina eða í athugasemdirnar, það er æðislega gaman að heyra frá ykkur öllum, látið mig líka vita ef þið eruð með blogg síðu eða sendið mér email adressurnar ykkar svo að ég geti haldið áfram að vera í sambandi við ykkur öll.
Athugasemdir
rafrænt innlitskvitt
Ólafur fannberg, 10.1.2007 kl. 16:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.