8.1.2007 | 14:40
Vika 1
Þá er fyrsta vika nýja ársins búin. Þó svo að það sé nýtt ár er það víst að tíminn bíður ekki eftir neinum. Í gær fékk maðurinn minn þau leiðindatíðindi að einn af nánustu frændum hans var dáinn. Það sorglegasta er sú staðreynd að hann var um 55 ára gamall, alltof ungur til þess að fara. Því miður ríkir sú staðreynd að hann var ekki búinn að hugsa vel um sig, var búinn að vera í eiturlyfjum í mörg ár og þó svo að hann var hættur öllu svoleiðis þá voru þau auðvitað búin að taka sinn toll.
Fjölskylda hans Tim deyr ung. Pabbi hans dó þegar hann var 15 ára gamall og svo dó mamma hans þegar hann var um 36. Þetta var einn af þeim fáu ættingjum sem var enn á lífi fyrir utan systkini hans sem að eru fjögur. Ekki gaman að byrja árið á þennan hátt, en það er víst að tíminn bíður ekki eftir neinum.
Ég er búin að ákveða það að í dag byrja ég aftur á fullu með það sem eftir er af lífinu mínu. Dagurinn í gær er farinn, kemur aldrei aftur, og morgundagurinn er bara loforð sem að getur verið svikið. Dagurinn í dag er sá sem ég hef og ég ætla að njóta hans. Byrja á því að njóta þagnarinnar sem ríkir í húsinu hjá mér svona eldsnemma. Njóta hvers og eins bita sem ég set ofan í mig, og passa mig á því að ég vel bitana á heilsusamlegan hátt. Njóta krakkanna minna þó að þau fari í taugarnar á mér. Njóta alls sem ég hef og hugsa um það sem mig langar til þess að hafa í framtíðinni og setja mér markmið að afla mér þess ef ég virkilega þarf á því að halda
Ég man þegar ég var einstæð og einmana þá hugsaði ég oft til dauðans, kannski af því að ég var hrædd um hvað myndi verða af börnunum mínum og svoleiðis. Eftir að ég kynntist Tim og eftir að ég er búin að vera veik, er ég búin að einbeita mér að lífinu og hugurinn reikar sjaldnar til dauðans. Ég er enn hrædd um hvað yrði af börnunum mínum, en ég nýt þeirra á allt annan hátt núna, ég virkilega nýt þeirra á allan hátt. Kannski er það mín lexía, þessvegna er ég veik, svo að ég nýt hverrar mínútu betur, ég var of upptekin áður fyrr. Kannski...
Hver dagur á jörðu er gjöf, eins væmið og það hljóðar (common, ég væmin) en ég trúi því virkilega. Ef mér væri sagt að dagurinn í dag væri minn síðasti, þá myndi ég leyfa krökkunum að taka sér frí í skólanum, keyra niður að strönd, hlaupa um berfætt í sandinum og leyfa börnunum að búa til sandengla og ekki stressa mig yfir að fá sand inní bíl. Ég myndi panta risastóra pítsu með auka pepperoni, og leyfa krökkunum að drekka gos með. Svo myndi ég knúsa og kyssa þau í kaf og bara horfa á þau með aðdáundar augum, því þau eru virkilega börn Guðs. Og svo myndi ég segja þeim að tíminn bíður ekki eftir neinum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.