Hversdagsleikinn

Það er eitthvað sérstakt við hversdagsleikann. Hann er eins og gamall vinur sem þú ert ekki búin að sjá í einhvern tíma, en það er eins og þú hafir séð vin þinn í gær. Þú knúsar vin þinn og það er eins og að koma heim, þér hlýnar allri að innan jafnt sem utan. Þið setjist saman við eldhúsborðið og drekkið kaffisopa og spjallið saman og það er eins og enginn tími hafi liðið, þið eruð enn ung og spræk en í staðinn fyrir að tala um skólann ykkar þá talið þið um skóla barna ykkar og barnabarna.

Já, hér er hversdagsleikinn kominn aftur, rigningin bankar á gluggann hjá mér, kaffikannan kraumar, börnin væla við að þurfa að vakna snemma og fara aftur í skólann. Hér er niðamyrkur þegar ég dríf mig á fætur fyrir sex svo að ég geti búið til hádegismat og nesti fyrir börnin, straujað fötin þeirra, vakið þau og undirbúið morgunmat, greitt hár og þvegið andlit. Svo er haldið á leið í skólann með regnhlífar í fararbroddi, húfu á höfði, og vetrarstígvélin á fótunum. Skapið hefur aðeins batnað, en enn eru stýrur í augum og smá kvartað og kveinað.

Hér bíður mín uppvask og óhrein borð þegar ég kem heim eftir göngutúrinn. Ryksugan bíður spennt eftir að sjá hvað hún fái nú að borða í dag, er það Cheerios eða vöfflur eða kannski er eitthvað gott ennþá á gólfinu eftir kvöldmatinn í gær. Talvan bíður þolinmóð á meðan íbúðin fær meiri athygli en hún, en loksins hér er vinkona hennar komin til þess að strjúka á henni stafina. Talvan malar eins og köttur og vonast til þess að vinkona sín þurfi nú ekki að snúa athyglinni eitthvert annað. Því miður er ekki hægt að gera tölvunni til geðs því að búðirnar bíða spenntar eftir að fá heimsókn, og reikningarnar fussa bara og sveia því að ekki er ennþá búið að sinna þeim.

Já, hversdagsleikinn er svo sannarlega kominn og ég segi bara VELKOMINN VINUR


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband