23.12.2006 | 06:24
Tveir dagar til Jóla...
Spennan er svo mikil að varla er hægt að sofa núna á nóttinni. Það er sko erfitt að vera krakki og þurfa að bíða eftir jólunum Mikið man ég nú hvernig þetta var í Stórholtinu þegar pakkarnir voru settir undir tréð á Aðfangadag og maður þurfti að bíða allan daginn til þess að opna þá. Og svo voru teiknimyndir sýndar í sjónvarpinu, en bara til klukkan fjögur, svo þurfti maður að bíða í sparifötunum þangað til að klukkan varð sex og maður gat sest niður að borða.
Ég man að mamma og pabbi dunduðu sér alltaf við uppvaskið, og ég og Annas bróðir biðum og biðum, alveg á nálum. Mikið var nú gaman þegar maður fékk að opna pakkana. Uppáhalds jólin mín voru þegar ég var fimmtán ára og við bjuggum í Sonderbörg í Danmörku. Ég fékk átta bækur í jólagjöf og ég held að ég hafi ekki sofnað fyrr en á Jóladags morgun, því að ég var að lesa alla nóttina. Alla vikuna á milli jóla og nýárs lá ég uppi í rúmi, með marglituðu jólaseríuna mína í glugganum, með smákökur og Machintosh, og las og las og las...
Enn þann dag í dag les ég og les, en ekki get ég nú gert það alla nóttina lengur, því að á morgnana þarf ég sko að vakna og hugsa um börnin. Ég man að ég og Hanna vinkona mín á Ísó fórum á bókasafnið tvisvar til þrisvar í viku og tókum út sex bækur, því það var hámarkið sem mátti taka út. Svo löbbuðum við útí sjoppu og keyptum okkur súrfiska og héldum svo heim á leið í snjónum, svona spenntar að lesa bækurnar.
Ef að börnin mín læra að elska að lesa eins mikið og ég, eða að minnsta kosti hafa mikinn áhuga á að lesa, þá veit ég að þau eru allaveganna búin að læra það frá mér, og þó svo að þeirra bestu jól verða kannski ekki af því að þau fengu átta bækur í jólagjöf, þá vona ég samt að þau eigi eftir að muna hversu lengi mamma og pabbi dunduðu sér í uppvaskinu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.