Hér ilmar allt...

Núna er ég búin að standa í jólabakstrinum í allan dag. Er búin að búa til fjórar tegundir af íslenskum smákökum. Súkkulaðibitakökur, hnetusmjörkökur, krapkúlur, og kornflextoppar. Nammi namm, get ég sagt ykkur, krakkarnir búnir að hjálpa mér að rúlla saman litlum kúlum og deifa þeim í sykur og svo sleikja þau bara puttana, ekkert smá gott.

Á morgun legg ég leið hérna útí búð sem heitir Trader Joe´s til þess að finna íslenskt, eða enskt sýróp til þess að nota í smjörkökur og mömmukökur, sem ég vonast til þess að geta bakað á morgun. Annars erum við líka að fara að búa til piparkökuhús hérna þegar ég er búin að slaka aðeins á. Ég fann piparkökuhús sem þarf bara að líma saman hliðarnar og setja svo þakið á, og svo skreyta með glassúr og auðvitað fullt af nammi, það verður eflaust svaka stuð að búa þau til, við ætlum að búa til tvö, og svo brjótum við þau niður og borðum yfir hátíðarnar.

Annars erum við sennilega að fara að ná okkur í jólatréð okkar í dag, það er hætt að rigna í bili þannig að það er góður tími til þess að ná í tréð. Við ætlum að fá okkur hvítt tré aftur, semsagt alvöru tré sem er búið að sprauta með hvítum snjó. Það er eini snjórinn sem við fáum hér í San Jose, falskurPouty En það er rosalega hátíðlegt að vera með svona hvítt tré inni hjá sér,  við skreytum það með rauðum og gull kúlum og marglita ljósum og ég get ekki beðið eftir að sitja hér á kvöldin fyrir framan tréð okkar með kveikt á kertum og bara vera í faðmi fjölskyldunnar.

Ég er með rosalega mikla heimþrá þessa dagana, en reyni að laga hana með því að hlusta hér á FM95.7 og búa til íslenskar smákökur og hugsa vel til allra heima á Íslandi og útum alla Evrópu, það eru margir vinir og vandamenn sem búa erlendis eins og ég og hugsa ég hlýlega til ykkar allra. Þessi heimþrá tekur oft fastan sess í manni, sérstaklega yfir jólin, og þá líka þegar maður er ekki búinn að sjá fólkið sitt í nokkur ár, komin meira en tvö ár núna síðan ég var síðast heima á Fróni. Það er þá alltaf næsta ár, og er ég að plana að koma heim næsta sumar þannig að þá kannski læknast heimþráin aðeinsErrm Fer núna í piparkökuhúsin, hér ilmar allt eins og jólin...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband