24.1.2009 | 04:03
Ný von í loftinu
Kæru Íslendingar
Ég er búin að fylgjast mikið með fréttunum síðustu daga frá Íslandi og það er mjög sorglegt að sjá að fólk hefur leyft vonleysinu að steypast yfir sig. Mjög skiljanlegt, en sorglegt. Það er auðvitað búið að vera erfitt síðustu mánuði hjá mörgum heima á Fróni, og ég get vel skilið vonleysið, reiðina, vonbrigðina, og svo lengi mætti telja, en ég vona að enginn leyfi nokkrum skemmdarvörgum að eyðileggja friðsæl mótmæli sem margir eru hluti af.
Ég hef búið í Bandaríkjunum síðan 1994, en virkilega kallað þau heimili mitt síðan 1996, og hér hefur margt skeð á þeim tíma. Þrír mismunandi forsetar, sá þriðji nýtekinn við, þrjú stríð, 11. September, Hurricane Katrina, og svo auðvitað kreppan sem gengur yfir núna. Síðustu átta árin hafa verið frekar ömurleg með fyrrverandi forsetann okkar, og eitt á eftir öðru gerðist undir stjórn hans. Hlutirnir hafa farið síversnandi, sérstaklega síðustu tvö árin, og auðvitað síðustu sex mánuðina. Svona leiðindi taka sinn toll á manni, þunglyndi, kvíðaköst, áhyggjur halda fyrir manni vöku, og svo lengi mætti telja, en sannleikurinn er sá að það er vonleysi sem gerir allt enn verra. Ég hef sjálf fundið fyrir vonleysinu síðustu þrjá mánuðina, sérstaklega í Desember, maðurinn minn missti vinnuna sína í Nóvember, engar atvinnuleysisbætur komu fyrr en eftir jólin, og við eigum fjögur börn, og útlitið var svartara en miðdimm nótt, því að enginn peningur var til fyrir jólagjöfum, ekki einu sinni fyrir mat. Ég gerði það sem gera þurfti, og leitaði til vina um hjálp, og gat keypt í jólamatinn, og gat pakkað inn þremur pökkum handa hverjum krakka, og þetta voru jólin okkar, mjög ódýr, allt sem keypt var, var keypt á útsölu, og ekki var hægt að baka eins mikið, eða kaupa eins mikið nammi, eða mat, en vitiði það að við komumst af, við lifðum jólin af, og þau voru bara mjög hugguleg.
Ég segi allt þetta af því að ég var sjálf mjög þunglynd, vonleysið steyptist yfir mig mörgum sinnum á dag, og útlitið var svart. EN, fyrr í vikunni steyptist yfir mig von, hugrekki, jákvæðni. Bandaríska fólkið fékk loksins að sjá nýjan forseta taka við embættinu, fékk að heyra von í rödd hans þegar hann flutti sína fyrstu forsetaræðu, sá fallegu stelpurnar hans í litaríkum fötum með bros útaf eyrum, sá ástina í augum hans fyrir eiginkonu sinni þegar þau dönsuðu kvöldið í burtu fyrir framan allan heiminn, og svo fengum við að sjá hann byrja að breyta lögum og reglum sinn fyrsta dag í Hvíta húsinu, von, hugrekki, jákvæðni helltist yfir mig þessa vikuna. Það er ótrúlegt hversu mikilvæg vonin er, maður gerir sér oft ekki grein fyrir hversu mikilvæg hún er, fyrr en maður er án hennar, eða þegar maður fær hana aftur.
Ég segi við ykkur öll, ekki gefa upp von. Ekki leyfa vonleysinu að taka yfir, ekki leyfa vonleysinu að breyta ykkur, eða láta ykkur gera hluti sem þið vanalega mynduð aldrei gera. Það er mjög mikilvægt að vera trúr við sjálfan sig, að ekki leyfa aðstæðum, erfiðleikum, eða baráttum að breyta hver maður er inní sér. Ekki leyfa nokkrum manneskjum að breyta þér, þínu skapi, hver þú ert innst inni, vertu trúr sjálfum þér, og Guð mun sjá um áframhaldið. Ef að hlutirnir geta farið á batnandi veg hér í Bandaríkjunum eftir að George W. Bush var forseti, þá geta hlutirnir farið á batnandi veg heima á Íslandi með ríkisstjórnina þar, ég virkilega trúi því 100%. Ég mun halda áfram að vona, bæði fyrir mína hönd hérna í Bandaríkjunum, og fyrir ykkar hönd heima á Íslandi. Ég sagði í byrjun þessa árs að 2009 myndi verða gott ár, og ég trúi því enn, þó svo að byrjunin hafi kannski verið soldið erfið, þá eru góðir hlutir ókomnir... Farið vel með ykkur, öll, og haldið vonininni lifandi
Athugasemdir
Við Íslendingar missum auðvitað ekki alla von... ég veit að betri tímar eru framundan ("ég veit" = ég vona svo sannarlega í þessu tilfelli...) og maður á alltaf að trúa á hið góða - en því er ekki að neita að fólkið hefur verið æ meira óánægt með ríkisstjórn og aðra aðila síðan hrunið gerðist. Þegar talað hefur verið um ábyrgð, þá hefur enginn sýnt hana ... og nú þegar Björgvin loksins segir af sér ... þá lyktar það af pólitík vegna komandi kosninga og ekki vegna þeirrar ábyrgðar sem hann hefði átt að sýna.
Ég vona að komandi kosningar sýni okkur það að fólkið hafi völdin og pólitíkusar virði það. Fleiri mættu fara að fordæmi Björgvins og auka vonina um betra Ísland.
En með alla þá vini sem ég á, hér heima og í Bandaríkjunum , þá er framtíðin sko björt. Og með þá lífsins gjöf sem við erum í sitthvoru lagi að fara að njóta á þessu ári ... þá er jú framtíðin bjartari!
Kærar kveðjur til ykkar, dúllan mín
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 15:58
Elsku Bertha mín innilegt knús fyrir þessa færslu, sem sýnir hvað þú ert yndisleg manneskja, hugsar fyrst og fremst um aðra en þig sjálfa.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2009 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.