Hugleiðingar...

Allan daginn hleypur hugurinn minn, og það eru allskonar upplýsingar sem hlaupa um hann. Ekki bara upplýsingar, heldur líka spurningar, væntingar, hugleiðingar. Það má kannski segja að þessa dagana er ég að reyna að finna mig.

Það er svo fyndið, því að eftir að ég fór frá fyrrverandi manninum mínum, þá var eins og ég þurfti að kynnast sjálfri mér uppá nýtt. Ég leyfði honum og sjálfri mér að breyta mér á margan hátt. Ég gekk til sálfræðings í næstum því tvö ár, og var það mjög erfitt. Það tók mig langan tíma að opna mig fyrir sála, sérstaklega þá um ofbeldið. Ef þú hugsar útí það, hver vill virkilega tala um í klukkutíma hvernig maðurinn þinn átti það til að lemja þig, skyrpa á þig, hóta þér dauða, ég meina ekki er það voða upplífgandi.

Ég man suma daga, eftir að ég sá sála, þá fór ég beint á barinn og fékk mér í glas, af því að ég var alveg upptrekkt að tala um fortíðina, þó svo að fyrrverandi var ennþá að reyna að hafa vald yfir mér, og þá í gegnum börnin. En, eins og ég segi, ég þurfti að endurkynnast sjálfri mér á þeim tíma sem ég gekk til sálfræðings.

Núna er ég að ganga í gegnum soldið svipað, sem betur fer er það ekki eins neikvætt og gerir mig ekki eins upptrekkta. Ég er virkilega að endurkynnast sjálfri mér vegna veikinda minna. Ég hef talað hér oft um veikindin mín, og ekki af því að ég vorkenni sjálfri mér, heldur bara til þess að losa um tilfinningar sem ég hef gagnvart sjúkdómnum. Ég fæ mjög mismunandi viðbrögð þegar ég segi fólki frá því að ég gangi með MS. Sumt fólk veit kannski ekki alveg hvernig þessi sjúkdómur er, og skilur bókstaflega ekki af hverju ég sé frá vinnu. Aðrir skilja aðeins betur og þá er skilningurinn aðeins meiri. Svo vita sumir nákvæmlega, og þá fæ ég góð ráð, fólk er jákvæðara þegar ég ræði þetta við það, og því reyni ég að mestu leyti að leita til þeirra þegar mig langar til þess að kvarta eða vorkenna sjálfri mér.

Það er ekki hægt að vera með leiðindi gagnvart þeim sem kunna ekki að meðhöndla svona veikinda fréttir, það er bara ekki þeim að kenna, því það veit ekki betra. En, ég tek eftir að um leið og ég heyri viðbrögð fólks, þá breytist umræðan um sjúkdóminn hjá mér. Það er auðvitað skiljanlegt, en samt leiðinlegt, því að fólk vill oft ekki skilja betur, og þá hætti ég að tala um hvernig mér líður, þegar ég tala við það fólk. Tökum til dæmis mömmu mína. Hún er mjög sterk kona, og hefur gengið í gegnum ýmislegt. Fyrir einu ári síðan þá lærisbrotnaði hún á skíðum, og var rúmliggjandi í tvo mánuði svo að beinið gæti lagað sig til. Í fyrsta lagi þá sagði mér enginn að hún hafði brotnað á skíðum á Ítalíu, og enginn hafði fyrir því að láta mig vita í næstum þrjár vikur að hún var rúmliggjandi. Ég skil ekki neitt af hverju ég get ekki náð í hana, því að aldrei svarar hún í símann. Einn daginn næ ég svo í hana, og hún segir mér af dögum sínum, og þetta hljómaði sem hryllingur sem hún var að ganga í gegnum, ég meina að vera rúmliggjandi og geta varla hreyft sig sem vikum skiptir.

Þegar ég svo loksins tala við hana, þá segir hún við mig, já það þýðir nú ekkert að væla yfir þessu, það gerir hlutina ekkert betri. Jú, það gerir hlutina víst betri, að endrum og eins gráta smá. Allaveganna, þegar ég hef talað við hana um minn sjúkdóm, þá líður mér alltaf að hún haldi að ég sé að ljúga um þetta, eða að ég sé bara aumingi, eða að ég sé bara ímyndunarveik með þetta allt saman. Henni til handar, þá hefur hún aldrei sagt það beint við mig að hún haldi að ég sé að ljúga, en í samræðum okkar þá líður mér alltaf eins og að hún sé að dæma mig sem auminga, eða lygara. Eins og ég segi, hún hefur aldrei sagt þetta beint við mig, en hún er ein af þeim sem ég get ekki talað um sjúkdóminn minn við, því að það er eins og hún fatti þetta ekki. Okkar samband, eins og þið vitið er búið að vera mjög erfitt síðasta árið, og ég hef varla talað við hana í ár núna, en þetta byrjaði eiginlega allt í fyrra þegar hún slasaðist, og enginn hafði fyrir því að láta mig vita. Hvorki pabbi, né bróðir minn. Þá leið mér loksins í síðasta skiptið, eins og ég tilheyrði ekki fjölskyldunni, því að þetta var ekki í fyrsta skipti sem að eitthvað svona kom uppá. Bróðir minn hefur lent í ýmsu, en foreldrar mínir láta mig aldrei vita.

Þegar þér hefur liðið eins og að þú sért útskúfaður úr fjölskyldunni, þá er löng leið tilbaka uppá toppinn. Svona mánuði síðan, þá talaði ég aftur við mömmu, og akkúrat þá hafði hún ekki tíma til þess að tala við mig, vegna gesta (þetta var yfir Páskana), og þegar ég sagði henni frá Vikuviðtalinu mínu, þá gat hún ekki skilið af hverju einhver vildi taka viðtal við mig í fyrsta lagi, og að hún hafði nú ekki vitað til þess að ég hefði verið skilgreind með eitt né neitt (ég sagði henni það fjórum mánuðum fyrir Páska að ég væri með MS). Allaveganna, þetta eru aðalástæðurnar fyrir því að ég tala varla við þau núna í ár, en svo koma þau fjöllum að ofan, þegar þau eru spurð af hverju ég vilji ekki tala við þau, skilja bara ekki neitt.

Þetta er eins og góður þáttur í Spaugstofunni, því að þetta er svo fáránlegt þegar maður hugsar útí þetta. En, svona er þetta bara. Þess vegna er ég núna að reyna að finna sjálfa mig í þessari súpu sem ég sit í. Ég veit svo sem fullvel hver ég er, en ég er að reyna að finna hina nýju mig, stelpuna sem er með þennan leiðindar sjúkdóm, og þarf að kunna inná hann, þarf að sætta sig 100% við hann, og þarf að byrja sitt nýja líf, sem kona með MS, ekki MS sem kona...

Fyndið að sjá að ég byrjaði að skrifa um mig og mínar hugleiðingar, og það sem ég sé þegar ég les yfir það sem ég hef skrifað, að ég er virkilega sár og ósátt að ég hafi ekki foreldra sem eru aðeins skilningsríkari, og sem að sýna mér að ég tilheyri fjölskyldunni, og að ég er mikilvægur hluti af henni, með eða án MS. Kannski er það sem ég þarf að komast yfir og sætta mig við núna, svo að ég geti loksins haldið áfram að berjast við þennan sjúkdóm, því að ég er barráttukona, ég hef barist allt mitt líf við eitthvað, þannig að ég veit að ég mun komast yfir þessa hraðahindrun. Eitt er víst, þó að það endist kannski ekki meira en í dag, þá er ég aðeins léttari núna.

Ég þakka ykkur fyrir það, mínir kæru bloggvinir...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Traustur vinur getur gert kraftaverk..." hljómar fræg sönglína úr íslensku dægurlagi. Hins vegar eru það gömul sannindi að fjölskyldan er það mikilvægasta í lífi hvers manns. Stundum er það þannig, að fjölskyldur ná ekki saman og sem betur fer get ekki beint sett mig í þín spor, en ég skil þig svo vel. Ég er heppinn að eiga yndislega foreldra (sem skildu 1982) en elska mig bæði og hlusta á mig. Ég á líka frábær systkini sem eru mér góð. En það eru daglegir bloggvinir, trúnaðarvinir og sálufélagar sem fá að heyra mest í mér eftir að ég fullorðnaðist. Og í dag er ég að eignast slíka vini. Og þegar maður hefur hitt þessa einstaklinga, þá takast með okkur enn sterkari bönd - og það er ótrúlega ljúft að halda í þau.

Ég hef heyrt í þér í síma og ég les þig alltaf Ég vildi svo gjarnan geta hitt þig reglulega, því ég er viss um að við værum þannig vinir að geta setið lengi yfir spjalli yfir alvarlegum hlutum og einnig mjög svo léttvægum hlutum.

Ég vona að þú kynnist Berthu sem mér þykir svo vænt um: mikilli baráttukonu sem er jákvæð og er vinur vina sinna, en fyrst og fremst fjölskyldukona fyrir mann sinn tilvonandi og börnin. Þú ert hetja í mínum augum, og ég veit að þú munt halda því áfram. Súpan sem þú ert í ... hún er kannski ekki bragðgóð ... en það má krydda hana á réttan hátt svo úr verði ljúffengur réttur.

Kossar og knús yfir hafið!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 16:33

2 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Doddi minn, þú ert engill á jörðu, og bróðir minn í öðru lífi. TAKK, eins og alltaf, þú ert æðislegur og yndislegur

Bertha Sigmundsdóttir, 17.4.2008 kl. 16:56

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku stelpan mín, mikið er sorglegt að lesa þetta.  Eins og það er auðvelt að skilja þig og láta sér þykja vænt um þig.  Og hvað það er gott að geta fylgst með þér og fjölskyldu þinni, full af ást og trúnaði.  Þið eigið svo margt til að lifa fyrir samhenta fjölskylda.  En það vantar svo mikið, þegar mömmuna vantar, hún er stór þáttur í lífi manns.  'Eg vildi óska að hún breytti viðhorfi sínu, eða allavega hugsaði sinn gang, það getur vel verið að þetta sé vörn hjá henni, ef hún samþykkir ekki sjúkdóminn þá fari hann burtu.  Hún elskar þig örugglega rosalega mikið, ég er viss um það.  En stundum finnst manni auðveldara að láta sem ekkert sé, en að takast á við lífið.

Ég vona innilega að hún lesi þetta, bæði þín vegna og ekki síður sín vegna.  Því hún má hreinlega ekki missa af þér og fjölskyldunni þinni.  Knús á þig elskuleg.  Og megi allt verða gott í fjölskyldunni þinni.  Ég ætla allavega að knúsa hana þegar ég sé hana næst og spyrja hvort hún lesi ekki bloggið þitt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.4.2008 kl. 18:43

4 identicon

Finnst svo leiðinlegt hvernig fólk getur verið stundum.....svo sorglegt. Og ég vildi óska að þú ættir foreldra sem gætu staðið við hlið þér í gegnum súrt og sætt vegna þess að þú átt það svo sannarlega skilið. Og sorglegt hvað þau eru að missa af......þau eru að missa af svooooo miklu.

Vona elsku Bertha að þú finnur hver þú ert og hversu mikilvæg þú ert hjá svo mörgum.

Hugsa alltaf til þín

Melanie Rose (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 18:52

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Bestu kveðjur til þín

Greta Björg Úlfsdóttir, 26.4.2008 kl. 12:44

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það er þeirra missir að vera ekki í sambandi við þig, svona yndislega manneskju. Algjör synd, svo líða árin allt of hratt, fólk fer að sjá eftir öllu saman en getur ekki spólað árunum til baka.  Ég vona innilega, elsku Bertha mín, að einn góðan veðurdag, fyrr en seinna, komist allt í lag milli þín og fólksins þíns.  Knús frá Akranesi

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.4.2008 kl. 17:16

7 Smámynd: Kolla

Ég er sammála Guðríði, það er sko bara þeirra missir elskan.

Knús og kossar

Kolla, 30.4.2008 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband