7.11.2007 | 17:49
Þoka og þreyta
Hér er kominn 7. Nóvember, takk fyrir, árið að fara að verða búið, hvert fer tíminn???? Í dag er komið haust hjá okkur, leiðindaþoka, kuldi, og smá úði. Samt er ég mjög ánægð með þetta veður, ég elska veturinn, sérstaklega hér í San Jose, því að við fáum kuldann, en ekki snjóinn. Ef við viljum fá snjó, þá er bara að keyra í tvo tíma norður, og þar er snjór handa okkur.
Ég er búin að vera rosalega þreytt uppá síðkastið, ég veit ekki hvort að það sé bara vegna MS, eða útaf vinnunni líka, eða bara bæði. Það er búið að vera frekar mikið stress í gangi í sambandi við börnin, aðallega tvíburana, vegna einkunna og hegðunar. Þær eru rosalega yndislegar, góðhjartaðar, og góðar stelpur, en uppá síðkastið eru þær búnar að vera miklar gelgjur og ég er að verða gráhærð. Það er nóg að hafa eitt stykki ungling með blessuðu unglingaveikina, en annað að hafa tvær unglingsstúlkur, það er semsagt aldrei frí, ein hagar sér vel, hin er með stæla, og svo skiptast þær á. Svo er búið að vera vesen með einn strák í bekknum hennar Mikaelu minnar, hann er búinn að vera frekar leiðinlegur við hana, og er ég búin að þurfa að hitta mömmu hans tvisvar í síðustu viku til þess að útkljá vandamálið.
Hér er svo búið að breyta tímanum, þannig að núna er átta tíma mismunur á mér og ykkur heima á Fróni, þannig að hér er bjart eldsnemma á morgnana, en orðið dimmt fyrir klukkan sex á kvöldin. Ég er ennþá að vinna á sama stað, en vinn núna fjóra daga vikunnar, fór ekki í vinnu í gær vegna heilsu, vaknaði svona líka aum í mjöðminni, og var haltrandi um eins og áttræð kona í tvo daga. Svona er þessi blessaði skjúkdómur óútreiknanlegur. Ég er loksins að fara að hitta taugasérfræðing fljótlega, er ekki búin að sjá hann síðan í Maí, alltof langur tími kominn. Ég þarf að fara í skönnun, er ekki búin að fara í svoleiðis í ár, og er sko kominn tími til. Svo þarf ég að vinna í því að byrja aftur á sprautunum, ég vona að það fari að gerast fljótlega. Ég er á rosalega sterkum verkjalyfjum núna, en þau virka, án þess að hafa aukaverkanir, sem er gott mál.
Tim líður vel, er mjög ánægður í sinni vinnu, er að vinna mikið í þessari viku, hann er að vonast til þess að fá stöðuhækkun fyrir eða um jólin, og verður það yndislegt ef að það gerist fyrir hann. Hann er að vinna í því að koma okkur inní hús, og er vonin enn sú að það gerist fyrir brúðkaupið í lok Júní á næsta ári, en við sjáum til með það, þetta fer vonandi allt að koma. Þar sem ég er loksins að vinna smá, þá á ég eftir að fá eitthvað smá tilbaka frá skattinum, og vonandi verður það nóg til þess að ég geti sent heim til Íslands fyrir markaðskjaraláninu fyrir allt árið, þá þarf ég ekki að stressast yfir því. Ég vona líka að það verði nóg til þess að borga mömmu og pabba eins mikið tilbaka og ég get, því að ég vil ekki skulda þeim neitt. Ég hef ekki talað við þau síðan mamma hringdi í Kalla minn í September, og ég býst ekki við að tala við þau í langan tíma, það er of erfitt fyrir mig að þurfa að hlusta á hversu mikill aumingi ég sé, þegar ég er enn að reyna að gera mitt besta, og eins og við vitum, þá er mitt besta aldrei nógu gott fyrir þau, sannleikurinn er bara sá.
Þá er kominn tími til þess að stökkva inní sturtu, og drífa mig í þessa blessuðu vinnu mína sem þreytir mig meira og meira á hverjum degi. Mér finnst æðislegt samt að komast út og vera í vinnu, en ég verð að fara að finna mér eitthvað sem er ekki svona erfitt á líkamann, hvað þá á heilsuna. Tíminn mun leiða það í ljós, ekki satt???? Ég vil svo þakka ykkur öllum fyrir að skrifa í athugasemdirnar og í gestabókina, Hilda og Fanney, ekkert smá gaman að heyra frá ykkur, endilega sendið mér email á berjamo@hotmail.com, það er æðislegt að heyra frá gömlum ættingjum og vinum, sérstaklega þegar ég hef spáð mikið í hvernig þið hafið það, ég grátbið ykkur um að senda mér tölvupóst, og ykkur öll sem að rekist á mig hér af tilviljun, og ykkur sem vitið að ég er hér.
Kossar og knús til ykkar allra, farið vel með ykkur og hvort annað
Athugasemdir
Knús til þín sæta !
Melanie Rose (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 18:06
Elsku besta sætasta dúlla!
Yndislegt að heyra frá þér, þó svo að þú sért voða þreytt. Ég sendi þér í staðinn hlý faðmlög í óendanlegu tali og vona að krafturinn komist í þig. Einnig eru hér kossar og knús sem vilja fá að vera með, og ef þú vilt ... þá tekurðu eins mikið og þú vilt:
Það er mikið að gera á stóru heimili. Og það að hafa tvær stelpur á heimilinu er algjörlega ný lífsreynsla fyrir mig, og ég er stundum svo trekktur. Gelgjustælar eru ofboðslega erfiðir stundum. Ég er líka búinn að vera að vinna mjög mikið, er með tímabundna aukavinnu sem er ekki beint að borga vel en þó eitthvað ... allt telur í þessari baráttu við að fara ekki á hausinn, er það ekki?
Ég vona að allt gangi vel hjá þér og ykkur öllum auðvitað. Þú ert hetja sem ert að berjast við erfiðan sjúkdóm, og Tim er hvíti riddarinn þinn. Það verður svo væntanlega hvítt og fallegt ævintýrabrúðkaup hjá ykkur næsta sumar.
Rosalegar knús-kveðjur frá Akureyri,
Doddi
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 19:22
Ég segi eins og þú, allt í lagi að hafa rigningu, ég er fegin meðan ekki kemur snjór og frost með tilheyrandi hálku og umferðartöfum.
Vona að allt gangi vel hjá ykkur og að heilsan verði til friðs.
Bestu kveðjur, kæra bloggvinkona .
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.11.2007 kl. 17:22
Gott að heyra frá þér krúsídúlla! Vona að allt læknastússið eigi eftir að ganga vel og skila árangri. Gaman að heyra að það gangi svona vel í vinnunni hjá Tim! Þetta er allt að koma hjá ykkur!
Kossar og knús!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 8.11.2007 kl. 18:25
Ég hef ekki talað við þau síðan mamma hringdi í Kalla minn í September, og ég býst ekki við að tala við þau í langan tíma, það er of erfitt fyrir mig að þurfa að hlusta á hversu mikill aumingi ég sé, þegar ég er enn að reyna að gera mitt besta, og eins og við vitum, þá er mitt besta aldrei nógu gott fyrir þau, sannleikurinn er bara sá.
Elsku stelpan mín. Þetta er ekki gott að heyra. Það á alltaf að meta alla út frá þeirra eigin forsendum, en ekki uppgefnum stöðlum. Við erum öll ólík og misjöfn og yndisleg.
Vonandi lagast þessi þreyta hjá þér elsku Bertha mín. Og ég óska þess að allt gangi þér í haginn. Risaknús á þig.
Og láttu allt annað ganga fyrir, áður en þú ferð að hugsa um að borga pabba og mömmu, þeim liggur bara ekkert á þessu. Full frísk og frábærlega fær. Og alles. Það er mitt ráð til þín. Þú getur alltaf greitt þeim til baka, þegar allt er orðið í lagi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.11.2007 kl. 20:59
Hafðu mig bara fyrir því.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.11.2007 kl. 21:00
Heil og sæl Bertha, hefurðu heyrt af Póllandsferðum Jónínu Ben,þar mun vera sérfræðingur í M.S. sem látið hefur verið vel af,þekki eina unga konu sem taldi sig hafa haft mjög gott af heimsókn þangað. Kveðja ókunnug.
ókunnug (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 21:25
Hmm, ókunnug, ég hef reyndar ekki heyrt neitt slæmt um meðferðina sem Jónína stendur fyrir að senda fólk frá Íslandi í, en því miður hef ég heyrt að hún áætli sjálfri sér töluvert ríflega þóknun sem umboðsmanni, miðað við það sem kúrinn kostar ef fólk fer á eigin vegum. Það var maður sem ég treysti til að fara ekki með fleipur sem sagði mér þetta, hann fór þarna sjálfur á eigin vegum og fékk víst minni háttar sjokk þegar hann heyrði hvað hinir borguðu.
Greta Björg Úlfsdóttir, 11.11.2007 kl. 11:18
Takk kæru vinir, þið eruð eins og alltaf yndislegust. Ásthildur mín, þúsund þakkir fyrir hlý orð, það er alltaf gott að heyra stuðningsfull orð, sérstaklega frá Ísfirðingi...
Ókunnug, takk fyrir þetta, mér finnst alltaf mikilvægt að heyra um nýjar rannsóknir, og nýjar uppfinningar, hvort sem að það hjálpi til í smá stund eða í lengri tíma, það er alltaf gott að fá smá hvíld frá sjúkdómnum.
Gréta mín, enn meiri þakkir fyrir þín orð, því miður er það oftast nær þannig, að fólk sem er að hjálpa öðrum tekur ágætis þóknun fyrir það, sem er að hluta til skiljanlegt, en að hluta til sorglegt, því að þegar fólk er veikt er það oft til að borga næstum hvað sem er til þess að líða betur, og þá kemur fram fólk sem er tilbúið að notfæra sér svoleiðis tækifæri, ég er ekki að segja að Jónína Ben sé þannig manneskja, en oftast nær er betra fyrir mann að finna hlutina út sjálfur, í staðinn fyrir að hafa umboðsmann.
Þakka ykkur öllum enn og aftur fyrir stuðninginn, þið eruð yndislegust og best (ásamt Tim og börnum, auðvitað).
Bertha Sigmundsdóttir, 12.11.2007 kl. 01:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.