31.10.2007 | 17:09
HAPPY HALLOWEEN
SPOOKY SPIRIT and her PREY....................
Þessi mynd var tekin á laugardaginn var, þar sem ég vann sigur í hver var óttaslegasti búningurinn, takk fyrir!!!!! Partýið var alveg frábært, fullt af krökkum, allir komu í búingunum, og skemmtu sér stórkostlega.
Mikið var um ógeðslegan mat, draugar, draugaskítur, blóðugt popp, mannakjöt (kjúklingur...), augasteinar, og blóðug pítsa. Krökkunum fannst svaka gaman að borða draugana og draugaskítinn, fannst það sko ekkert smá fyndið. Við vorum með allskonar leiki, og svo var ég með þetta þvílíka dansgólf, gufu, ljós, og allir fengu ljósaarmband eða hálsmen, þannig að litadýrðin var þvílík, og krakkarnir dönsuðu frá sér allt vit.
Ég set inn hérna fullt af myndum handa ykkur, ég vona að þið njótið þeirra. Svo í dag er sjálf Hrekkjarvakan, og erum við sko tilbúin. Ég var að koma heim eftir að horfa á skrúðgönguna hjá krökkunum í skólanum, og voru allskonar fyrirbrigði þar samankomin, ásamt prinsessum og ofurhetjum. Í kvöld förum við svo og betlum nammi útum allt hverfið, en ég er samt á því að við förum frekar í kirkju, já og biðjum um fyrirgefningu á þessum fíflalátum í okkur
Nei, nei, að vísu förum við sennilega í kirkju, en þar verða samankomin allskonar fjölskyldur, og leikir spilaðir, og krakkarnir fá aragrúa af sælgæti, jafnvel meira en ef við löbbum um allt hverfið, ég veit ekki alveg hvort við munum gera samt. Þó svo að Hrekkjarvakan sé í dag, þá var þessi líka hrekkur spilaður á okkur í gærkveldi.
Við lentum í jarðskjálfta, takk fyrir, 5.6 á Richter, og var hann mjög sterkur, við fundum vel fyrir honum hér inni hjá okkur. Allt í einu byrjaði smá titringur, og ég segi við krakkana, hvaða læti eru þetta? Svo byrjaði öll íbúðin að skjálfa, ég sé kojuna hennar Mikaelu hristast, ég kalla á börnin að koma í dyragættina, Tim kemur hlaupandi og við höldum utan um börnin fjögur, á meðan íbúðin hristist, myndir duttu af veggnum, ein brotnaði, og kojan byrjaði að sveiflast fram og tilbaka. Innan við 20-30 sekúndur (sem leið eins og nokkrar mínútur) þá var jarðskjálftinn yfirstaðinn, og við þrifum glerbrotin, og tékkuðum á íbúðinni. Nágrannarnir þutu margir út, og stóðu úti eftir á og ræddu málin, það er mikið um Afríkubúa hér í nágrenninu, og margir að upplifa sinn fyrsta jarðskjálfta.
Það skrýtnasta við þetta var, að eftir að jarðskjálftinn var búinn, þá var eins og byggingin sveiflaðist fram og tilbaka, eins og hún var ekki viss um hvort að hún ætlaði að standa uppi, eða falla. Það var rosalega skrítin tilfinning, af því að við vorum enn skjálfandi úr hræðslu, en svo héldum við áfram að sveiflast með byggingunni, mjög skrítið. Það er ekki vitað til þess að neinn hafi meiðst eða slasast, og ekki var mikið um skemmdir, en þetta var skrítin upplifun. Ég er búin að búa í Kaliforníu í meira en átta ár, og er þetta minn fyrsti, alvöru, stóri jarðskjálfti. Manni verður nú bara um og ó þegar það eru bæði skógareldar og jarðskjálftar að gerast á sama tíma, manni verður hugsað til þess að heimurinn sé kannski bara að farast, eins og biblían segir, að þetta sé byrjunin á endinum, en auðvitað leyfir maður sér nú ekki að hugsa svo djúpt, því þá yfirtekur hræðslan mann.
Ég veit að eitt gott við þennan jarðskjálfta var það að ég og Tim brugðumst við hratt og rétt, þannig að núna vitum við það. Þetta skapaði líka tækifæri að ræða betur við börnin um hvað gera skal þegar jarðskjálfti skellur á, og núna erum við komin með jarðskjálfta áætlun, sem að við vorum aldrei búin að æfa áður, en höfðum hugmynd að. Þannig að það kemur alltaf eitthvað gott útúr óttaslegnum augnablikum, það er fegurð lífsins.....
Ég óska ykkur öllum Gleðilega Hrekkjarvöku, njótið dagsins, og drauganna
Athugasemdir
Frábær mynd af þér - voða kyssileg þarna! Ég hlakka til að skoða myndir - og auðvitað segi ég: HAPPY HALLOWEEN!
Það er líka frábært að taka út úr þessum skjálfta þann lærdóm að vita að þið bregðist rétt við og getið frætt börnin. Ég er eins og þú ... tja, mér verður alla vega hugsað til þess að kannski sé komið að endurnýjun heimsins ... kannski erum við mannfólkið að drepa náttúruna hægt og bítandi ... flóð, jarðskjálftar, eldar ... náttúran lætur sko vita af sér.
En auðvitað er ég ekki fanatískur í þessu ... ég er nokkuð rólegur enn. Man ekki eftir að hafa upplifað sterkan jarðskjálfta sjálfur - nema í Universtal Studios kannski - en ég man 17. júní hér um árið, þegar ég bjó með minni fyrrverandi í Reykjavík, að þá kom skjálfti og ég sat rólegur í sófanum á meðan unnustan stóð í dyragættinni ferlega stressuð ... og svo kom skjálfti um nóttina aftur - og ég vaknaði auðvitað ... en ekki við skjálftann, heldur við það að unnustan var berjandi á bringuna á mér: Doddi doddi annar skjálfti ... og ég fann auðvitað ekki fyrir neinu.
Kannski er ég róleg týpa?
Hmm...
Vona að þú og fjölskyldan eigið yndislegan dag framundan, og hafið það framúrskarandi frábært!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 18:48
Jamm Happy Halloween. Hræðilegt þetta með jarðskjálftann, hvað er eiginlega að gerast þarna hjá þér elskan mín. En gott að allt fór vel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.11.2007 kl. 20:31
Ja, hérna hér! Það er alveg spurning hvort er skelfilegra: jarðskjálftinn eða myndin af ykkur Tim! En það er fyrst og fremst gott að allir eru heilir á húfi! Hann Óli frændi þinn svaf sko vært í tveimur litlum skjálftum í Reykjavík fyrir margt löngu síðan. Síðan höfum við ekki lent í skjálfta. (Eiginlega hefur Óli aldrei lent í skjálfta því að hann tók ekkert eftir þeim).
Bestu kveðjur til ykkar þarna í náttúruhamförum og hrekkjum!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 6.11.2007 kl. 20:01
halloweenkveðjur
Ólafur fannberg, 7.11.2007 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.