Hvar er hún?

Hafið þið horft í spegil og spáð í hver þessi manneskja er sem að horfir tilbaka? Þekkið þið konuna/manninn sem starir tilbaka? Ég velti því oft fyrir mér hver það er sem ég sé í speglinum. Ég man að þegar ég var táningur þá vildi ég ekki horfa á sjálfa mig í speglinum, það voru alltof margar bólur og freknur sem blöstu við mér, og ég var með hálfgert ógeð á sjálfri mér. Mér fannst ég voðalega óhugguleg, ljót eiginlega. Svo flutti ég að heiman einn daginn, og varð sjálfstæðari, og stundum gat ég horft í spegil í margar mínútur, stundum klukkutímaSmile Ég fór að kannast við þessa stúlku sem horfði tilbaka, hún var allt í lagi, bólurnar voru ekki eins margar, freknurnar voru enn til staðar, en þær voru krúttlegar.

Ég flutti til Ameríku, kynntist mörgum íslenskum stelpum, og þær kenndu mér að mála mig, plokka á mér augabrýrnar (er það rétt?), velja mér sæt föt. Ég fór að fíla þessa ungu stúlku, mér fannst augun á mér falleg, ég var lítil og sæt. Ég eignaðist kærasta, sem einn daginn píndi mig að horfa á sjálfa mig í speglinum, þangað til að ég sá það sem hann sá. Honum fannst ég falleg, og hann sagði mér það milljón sinnum, líka eftir að við hættum samanWink Sjálfsálitið var í hámarki, og ég var farin að trúa því að ég væri virkilega falleg, á minn eiginn litla freknulega hátt...

Ég giftist, var í skóla, eignaðist börn, en einn daginn þegar ég leit í spegil þá blasti við mér ókunnug kona. Þessi kona var bólgin í framan, hún var marin, hún var útgrátin, hún var þreytt. Augun hennar, sem einu sinni ljómuðu af hamingju, sjálfstrausti, og styrk, voru núna bólgin, óttaslegin og hálfdauð. Ég þekkti ekki sjálfa mig, og í langan tíma þegar ég leit í spegil þarna var hún, þessi ókunnuga kona sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti losað mig við. Einn daginn leit ég í spegil, neisti var kviknaður í augunum mínum, og ég sá gömlu, sterku Berthu aftur.

Það tók mig tvö, næstum þrjú ár að losa mig við ókunngu konuna í speglinum, stundum kom hún í heimsókn í nokkra daga, vikur, mánuði, en ég losaði mig við hana. Þegar ég leit í spegil þá sá ég mig, gömlu góðu mig. Eitt sumarið hitti ég mann, eldri mann, góðan mann, vitran mann, elskulegan mann. Þessi maður kveikti nýjan neista í augunum mínum, ástarneistann. Ástin var oft búin að vera í lífi mínu, en í þetta skiptið var ástin örugg, og það sást í speglinum. Í hvert skiptið sem ég leit í spegil þá sá ég öryggi endurspeglast.

Í nokkrar vikur núna hefur öryggið vikið fyrir ótta. Því miður hefur óttinn tekið yfir, og ég sé bregða fyrir gömlu, ókunnugu konunni, þeirri sem átti við óttann að stríða í fyrrverandi hjónabandinu. Þessi ótti er öðruvísi, þessi ótti viðkemur sjúkdómnum sem ég lifi með. Það er ekki auðvelt að hafa enga hugmynd um heilsufarið hjá sjálfum sér, að ekki vita hvort að maður kemst framúr rúmi næsta dag, hvort að maður getur eldað, keyrt, vélritað, skorið niður epli, greitt hár, burstað í sér tennurnar, já, þessi ótti er sterkur. Hann er að reyna að yfirgnæfa öryggið sem að ríkir í lífi mínu í fyrsta skiptið allt mitt líf... Ég mun ekki leyfa óttanum að taka yfir, þessvegna stari ég tilbaka á konuna í speglinum, og ég leita. Ég leita að sterku konunni, þeirri sem að flutti til Ameríku alein. Þeirri sem að hafði styrk til þess að fara frá ofbeldishneigða manninum sínum. Þeirri sem að hafði lítið sem ekkert sjálfsálit og traust, en styrkti sjálfa sig í gegnum árin og hefur mikið sjálsálit og traust. Ég leita að konunni sem elur upp fjögur börn, sem hugsar um fjölskyldu sína og biður til Guðs að hann leyfi henni að vera í faðmi fjölskyldunnar í marga tugi í viðbót.

Ég leita að mér...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elskuleg bara  það að þú sest niður og setur þetta hér á blað, segir mér að baráttukonan sé ennþá þarna til staðar.  Þú þarft bara að sættast við þessa konu sem þú horfir á, læra að elska hana eins og hún er.  Það leynist kraftur undir þessu yfirborði.  Þann kraft þarftu að virkja til að ná strikinu aftur.  Mundu að þú átt þennan góða yndislega mann, og svo eru það börnin þín fjögur.  Þú ert ekki ein, þú átt líka kraftmikla mömmu hér og föður, sem ég veit að eru traust og haldreipi. 

Stundum tekur svona tilfinning yfir tímabundið, það er eðlilegt, sérstaklega þegar eitthvað bjátar á í lífinu.  En svo birtir upp að nýju.  Maður þarf bara að læra að sætta sig við það sem er, ekki það sem gæti orðið.  Gera það besta úr því sem maður hefur. 

Elsku Bertha mín, ég sendi þér góðar hugsanir og kærleika, megi allir góðir vættir vaka með þér og vernda, senda styrk og orku.  Reyndu að vera jákvæð, skrifaðu niður 10 atriði sem þú veist að eru jákvæð í þínu lífi, límdu þau á ísskápin eða þar sem þú sérð þau á hverjum degi, lestu þau líka yfir hvern morgun og farðu með þau út í daginn.  Brostu svo til konunnar í speglinum og segðu henni að þú elskir hana eins og hún er, en þú viljir sá hana brosandi. 

Risastórt knús til þín elskuleg.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2007 kl. 08:24

2 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Leitið og þér munuð finna stendur skrifað,og þegar mannvera skoðar sjálf sitt kemur oft ýmislegt í ljós.Það þarf hugrekki til að breyta og gera rétt.Þegar ég byrjaði að vinna í sjálfi mínu vegna þess að ég vildi lifa og þráði frið í sálu og hjarta,og er ég leit í spegilinn góða var ég hættur að sjá mig,ég sá djöfulinn sjálfan og hann bjó í mér.Og ég varð drulluhræddur við sjálfan mig og hver ég var orðinn svo ég bað guð minn um aðstoð og hjálpræðið kom einmitt frá honum sem allt megnar.Skemmtileg lesning og gangi þér vel kveðja Úlli.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 10.10.2007 kl. 08:24

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Elsku Bertha, þessi færsla þín fer eins og svo oft áður inn að innstu hjartarótum manns. Ég dáist að hugrekki þínu og bjartsýni. Haltu áfram að berjast á sama hátt og þú hefur gert. Vonandi færðu ekki fleiri köst, vonandi finnst bráðum lækning við sjúkdóminum.

MS-sjúkdómurinn er hræðilegur og erfiður. Ég hef í mínu starfi hugsað um langt leidda sjúklinga með þennan sjúkdóm og ég get sagt þér að öðrum eins hetjum hef ég ekki kynnst, það var eins og allt þetta fólk byggi yfir yfirnáttúrulegum krafti og rósemi gagnvart örlögum sínum. Ég veit að hvernig sem allt veltist, Bertha mín, þá ert þú kona af þessu "kalíberi", þú átt líka þennan styrk, að geta brosað til heimsins í gegnum erfiðleikana. Gangi þér og þínum ævinlega allt í haginn!

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.10.2007 kl. 09:56

4 identicon

Elsku Bertha mín. Það er leitun að jafnmikilli baráttukonu og góðhjartaðri eins og þér. Ég hef sagt þér það oft síðan við kynntumst og hvika ekkert frá því - þú ættir að vita það að ég meina það sem ég segi og segi það sem ég meina. Ég hef aldrei verið falskur hvað þetta varðar. Það er ekki staðan á einhverjum listum sem skiptir máli, heldur staðan sem viðkomandi er í hjarta og hug manns.

Það skiptir ekki heldur máli hversu oft eða reglulega er bloggað ... það breytir ekki þeim sterku böndum sem fyrir eru. Frá mínum bæjardyrum séð alla vega.

Ég sé ekki baráttukonu í speglinum þegar ég lít þangað. Ég sé feitan og sköllóttan mann, sem er þrælduglegur, skemmtilegur og samkvæmur sjálfum sér. Ég átti mjög erfitt með að sættast við gaurinn í speglinum þegar ég var í kringum tvítugt og hugsaði meira að segja ýmislegt sem ég hef ekki gert aftur. Það þurfti ekki mikið til að koma mér í sátt við sjálfan mig, sem betur fer, og ég þakka fyrir þá hjálp. Í dag er ég 40 kg þyngri og 40 sinnum ánægðari með lífið (eða meira)

Ég elska að kynnast fólki, og ég hef átt auðvelt með að opna mig. Ég t.d. myndi treysta þér algjörlega fyrir öllum mínum innstu hugarmálum, og þú gætir spurt mig hvaða spurningar sem er, ég myndi svara (kannski ekki á svæði sem allir lesa, en þú skilur mig).

Með þetta í huga, með þá væntumþykju sem ekki hefur minnkað elsku dúllan mín, þá finn ég rosalega til með þér og er með þér í anda í þessari baráttu þinni. Ég hef trú á því að þú finnir sjálfa þig, að þú finnir þessa konu sem þú leitar að - eins og Ásthildur segir: "...baráttukonan sé ennþá þarna til staðar". 

Ég vildi að ég gæti gert eitthvað fyrir þig, og ef það er ... þá læturðu mig vita. En á meðan - og alltaf - sendi ég þér hjartahlýjar kveðjur. Knús knús knús í tonnatali.

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 11:36

5 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Kæru vinir og nýir vinir

Takk fyrir athugasemdirnar, það er alltaf gaman að sjá að ykkur líki vel við það sem ég skrifa, skiljið það sem ég skrifa (ég veit, ég er stundum soldið kúkkú), og hafið góð ráð handa mér. Ég mun halda áfram að horfa á konuna í speglinum, þangað til að ég finn mig, á meðan mun ég hugsa um orðin ykkar Þið eruð svo yndisleg, þessvegna hef ég ekkert á móti því að skrifa með hjartað á erminni, ég veit að þið skiljið það sem ég er að segja...

Elsku Doddi minn, ég vona að þú vitir að ég var bara að grínast með athugasemdina mína á blogginu þínu, ég er soddan djókari stundum, en í alvöru talað, ég er ekki sár í alvörunni, var bara að gantast með þig, vona að ég fór ekki yfir strikið....

Bertha Sigmundsdóttir, 10.10.2007 kl. 14:39

6 identicon

Ég vissi það alveg, elsku dúlla, en mér fannst samt rétt að segja þér að mér þykir vænt um þig We are kindred spirits you know?

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 15:47

7 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Hæ, elsku dúllan mín!!!  Mikið var þetta falleg færsla hjá þér, svo sönn og auðvitað beint frá hjartarótum eins og alltaf þegar þú átt í hlut.  Ég veit líka að þú ert stundum svolítið kúkkú en þú ert bara svo rosalega frábærlega skemmtilega kúkkú!!   Og svo sönn.

Guð leggur ekki meira á mann en hann veit að maður ræður við heyrði ég einhvern tímann.  Það er kannski einmitt vegna þess hvað þú ert sterk og góð manneskja sem þú hefur fengið svona þungar byrðar.  Við verðum að trúa því að það liggi einhver göfugur tilgangur á bak við þetta þó að við skiljum hann ekki alltaf.

Ég sé bara hversu margir kíkja inn á síðuna þína.  Kannski til að gleyma eigin sorgum, fá hughreystingu, finna til samkenndar, eða samúðar eða hreinlega til að fá hressilegt spark í rassinn!!  Þú ert svo lagin við að minna okkur á hvað við eigum margt dýrmætt, hvort sem heilsan er góð eða ekki, og að við eigum að njóta þess.  Þegar ég les það sem þú skrifar gleðst ég, hlæ, verð döpur, græt eða jafnvel skammast mín fyrir eigin dugleysi.

Ég veit að þú munt halda áfram að gefa af þér, það er bara í þínu eðli.

Ég sendi þér hlýja strauma og er viss um að þú átt betri daga í vændum!  Kossar og risastór knús frá okkur öllum til þín, Tim og krakkanna.  Við erum farin að plana Kaliforníu næsta sumar og ég veit að það verður gullfalleg manneskja sem þú munt sjá í speglinum á brúðkaupsdeginum - sem og alla aðra daga!!

Aðalheiður Haraldsdóttir, 10.10.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband