8.9.2007 | 06:24
Leyndarmálið...
Hafið þið lesið bókina, The Secret? Eða séð DVDinn? Algjört must, ef að þið hafið áhuga á góðum lestri, áhuga á hvernig hægt er að betrumbæta lífin ykkar, eða bara ef þið hafið áhuga á heimspeki...
Ég las þessa bók fyrir svona mánuði síðan, og byrjaði að notfæra mér sumar leiðbeiningarnar, og mér fannst mikið til í þessu. Meginatriðið er að allt í heiminum, veröldinni, í kringum okkur er orka. Ég og þú erum orka, borðið er orka, talvan sem ég er að vélrita á er orka, og svo framvegis. Mannfólkið hefur endalausar óskir, og veröldin er okkar Genie...hvað sem við óskum okkur, okkur mun veitast... Áhugavert, ekki satt???
Að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, er lykilatriði í lífum okkar, ef við viljum vera hamingjusöm. Að sjá fyrir sér það sem maður vill hafa, verður að hafa, langar til þess að hafa eða gera, allt það er framkvæmanlegt. Visualize it, sjáðu fyrir þér... Ég trúi því að mörg okkar eru nú þegar að lifa leyndarmálinu, án þess að vita það sjálf, þessvegna er það leyndarmál. Mikið af því sem að bókin talar um, hef ég nú þegar framkvæmt, gert, eða hugsað um að gera. Mér finnst það mjög áhugavert. Ég vil ekki segja of mikið um bókina, vil ekki spilla fyrir ykkur sem hafa ekki lesið hana, og þið sem hafið lesið bókina, skiljið eflaust allt sem ég er að segja, þó svo að það hljómar hálf ruglingslega
Ég ætla að nota sjálfa mig sem dæmi um hvernig leyndarmálið virkar. Bókin talar um að þegar þú sendir frá þér jákvæða orku, þá færðu jákvæða orku tilbaka frá umheiminum, til dæmis, þú vaknar í góðu skapi, vekur börnin þín, og þau skynja orkuna þína, þau fara í skólann í góðu skapi, brosandi og syngjandi. Þú ferð útí búð, og frá þér skín jákvæðnin, fólk brosir til þín (ókunnugir), hjálpar þér ef þú missir eitthvað. Svona er dagurinn hjá þér, bjartur, hamingjusamur, og 100% jákvæður. Sama gildir með neikvæða orku...til dæmis...
Ég er búin að vera rosalega þreytt síðustu tíu daga eða svo, alveg að deyja úr þreytu. Það virðist ekki skipta neinu máli hversu mikið ég sef, ég sef í sjö tíma á nóttunni, fer með krakkana í skólann, kem heim og sef í fjóra tíma í viðbót... Dagurinn í dag er gott dæmi um neikvæða orku. Ég vaknaði rosalega þreytt, og kíkti á bankareikninginn minn, ég átti von á meðlagsgreiðslu á miðvikudaginn, og hún var ekki ennþá komin í morgun, og það lítur ekki út fyrir að hún sé á leiðinni. Ég var mjög pirruð, af því að ég er búin að vera að bíða eftir greiðslunni (margir reikningar eru of seinir hjá mér), og sonur minn á afmæli í næstu viku, auðvitað vil ég gefa honum gjafir. Allaveganna, ég var rosalega pirruð og sár og þreytt, og eftir að ég fór með krakkana í skólann (gat samt haldið grímunni á þeirra vegna, og þau fóru mjög ánægð og hamingjusöm í skólann), þá brotnaði ég niður. Sat í bílnum mínum í tíu mínútur og grét. Ég settist svo við skrifborðið mitt og lít á bókina mína, The Secret, og hugsa með mér að dagurinn í dag eigi eftir að vera erfiður og ljótur.
Því miður þá var hann það. Ég var búin að senda neikvæða orku útí umheiminn síðustu tvo daga (vegna þreytu og fjármála), og í dag þá sendi umheimurinn neikvæða orku tilbaka. Ég fékk slæmar fréttir í sambandi við bekkinn hans Kalla míns, á mánudaginn verður einn strákur færður inní bekkinn hans og þeim Kalla semur mjög illa saman. Ég talaði við skólastjórann, og honum virtist vera nokkuð sama um hvaða vandamál strákarnir hafa á milli sín, og talaði við mig eins og ég viti ekki hvað ég þurfi að kenna syni mínum...ekki bætti það líðan mína. Svo lentum ég og maðurinn minn í kíting, og ég fór út í nokkra klukkutíma, ég var rosalega reið, og verð það ekki oft, en hann sagði hluti við mig sem að ég tók á einn veg, þó svo að hann meinti það á annan veg, en hann hafði ekki fyrir því að útskýra eitt eða neitt af því að hann var reiður. Svo er resturinn af deginum búinn að vera mjög dapur og niðurdreginn, þó svo að ég sé búin að reyna mitt besta að snúa orkunni við, en það er búið að reynast mér erfitt.
Þannig að, ég er búin að ákveða að ég ætla að lesa bókina aftur, og ég ætla virkilega að fylgjast vel með hvernig orku ég sendi frá mér, því að ég veit (frá eigin upplifun) að ég fæ tilbaka það sem ég sendi frá mér. Ég er mjög þakklát fyrir allt sem að ég hef í lífi mínu, meira að segja það slæma, af því að það slæma er hlutur af mér, mínu lífi, við öll höfum eitthvað slæmt sem við þurfum að lifa með, hvort sem að það er sjúkdómur, veikindi, minningar, hvað sem er. Fortíðin hefur skapað þá persónu sem við erum í dag, og við þurfum að vera þakklát fyrir fortíðina, án hennar þá værum við ekki við. Ég hef margt á dagskrá í framtíðinni, þið vitið nú öll um brúðkaupið, en það mikilvægasta núna er að finna vinnu, og að vinna í því að komast inní hús. Við Tim erum staðráðin í að vera kominn inní hús fyrir brúðkaupið okkar næsta sumar, þannig að núna er tíminn til þess að vera jákvæður, núna er tíminn til þess að trúa
Ég mæli með bókinni, þið sem hafið lesið hana, spjallið við mig um hana, hvað finnst ykkur? Hefur hún breytt lífinu ykkar? Trúið þið á að allt sé orka í kringum okkur? Þið sem hafið ekki lesið bókina, nælið ykkur í eintak, eða horfið á DVDinn. Mér finnst alltaf gaman að spjalla um bækur, myndir, lífsreynslur sem geta hjálpað mér, á jákvæðan hátt. Á morgun gefst mér annað tækifæri á að senda frá mér jákvæðni, hamingju, og góða orku. Á morgun gefst mér annað tækifæri, og ég mun nota það tækifæri vel, mun vakna með bros á vörum, sól í hjarta, og hamingjusamar hugsanir
Njótið helgarinnar og hvors annars
Athugasemdir
Ég hef ekki lesið þessa bók, en séð hluta úr henni og náttúrlega eru myndin og bókin til á safninu. Vinsælt efni. En fyrir mér er þetta líkt og góð sjálfshjálparbók ... þú lest og skilur og finnur og líður betur.
Ég á nokkrar svona bækur og glugga í þær every once in a while. En það sem hjálpar mér mest er reynslan, bæði góð og slæm. Reynslan er alltaf besti kennarinn. Bækurnar eru góðar. Og þegar fólki líður betur eftir lestur bóka, þá er tilganginum náð.
Ég vil samt ekki taka svo djúpt í árinni að neikvæðir hlutir eins og þreyta og fjármál eigi að skila sér til baka í erfiðum og vondum dögum. Heimurinn verður að leyfa okkur að vera döpur og stundum pirruð ... án þess að "refsa" okkur fyrir það. Ég er sjálfur að eðlisfari mjög hress og djókari í mér, en ég er fjölskyldufaðir og vinnandi maður ... og stundum á maður sínar pirrings- og áhyggjustundir. Ég hef 2svar eða 3svar skrifað um áhyggjur mínar og smá vanlíðan á blogginu mínu. Og ég hef fengið til baka yndislegan stuðning, vegna þess að ég á góða vini hér sem styðja mig.
Ég trúi ekki á guð en ég trúi á hið góða og hið illa. Við erum í heiminum og í stöðugri baráttu. Mín fílósófía er skýr: það er betra að vera jákvæður en neikvæður - komdu fram við aðra eins og þú vilt að fram sé komið við þig.
Þessi mantra mín hefur hjálpað mér stundum, og líka sú staðreynd að ég horfi oft í spegilinn þegar ég hef verið að kvarta og segi: Doddi, hættu þessu væli. Þú hefur það ótrúlega gott miðað við svo marga aðra. Og eftir því sem tíminn líður lengur, þeim mun betri verð ég í þessu.
En það eru sosum atriði sem geta fengið mig til að missa alla von ... en við förum ekki nánar út í það.
Það sem skiptir mestu er hið jákvæða viðhorf þitt núna, og að þú fannst hjálp í bókinni og myndinni ... það er yndislegt og ég vona að sú hjálp haldi áfram. Annars verðum við vinir þínir hér á blogginu, til að styðja þig og til að gleðjast með þér.
Knús og kossar og hjartans kveðjur frá Akureyri!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 10:53
Kæra Bertha, þetta er mjög athyglisverður pistill hjá þér.
Ég hef ekki lesið bókina eða séð myndina, þarf nú að drífa mig að leigja mér dvd, það eru allir að tala svo mikið um þetta. Ég held samt að ég sé í dálítinn tíma búin að vera að reyna að lifa eftir þessu og að ég sé farin að sjá árangurinn. Alltof lengi stjórnuðu neikvæðir hlutir lífi mínu, en nú finnst mér verulega farið að birta til .
Það er mjög skiljanlegt að peningaleysi valdi þér áhyggjum og svo hafa þær áhyggjur áhrif bæði á heilsufarið og sambandið við manninn þinn. Þetta er örugglega líka erfitt fyrir ykkur bæði, því auðvitað hlýtur hann líka að hafa áhyggjur, þó þær komi kannski öðruvísi út hjá honum en þér. Ég held að það sé ekki til auðvelt samband milli karls og konu, að minnsta kosti hef ég ekki kynnst því, og nokkrum sinnum gefist upp, ef út í það er farið, og það er líka ástæðan fyrir að ég ætla mér að vera áfram ein.
Það er ekki gaman að láta tala niður til sín, eins og mér heyrist þessi skólastjóri hafa gert við þig (og kannski maðurinn þinn líka?), maður verður að reyna að passa að taka það ekki inn á sig og fara að trúa því sjálfur að maður viti minna en þeir sem þannig láta.
Það er svo margt sem mig myndi langa til að spjalla við þig um í sambandi við pistilinn þinn, ef ég væri þarna hjá þér, það er erfitt að segja mikið í svona kommenti. Haltu áfram að vera svona hugrökk og yndisleg kona eins og þú ert, þá greiðist úr öllum þínum áhyggjum með tímanum. Knús og klemm til þín, þín bloggvinkona Greta Björg.
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.9.2007 kl. 10:54
Flottur pistill Bertha
Ég er sammála þér Doddi.
Eva , 8.9.2007 kl. 14:33
Kæru bloggvinir, þó svo að mér finnst það varla viðeigandi að kalla ykkur það, því að þið eruð orðin góðir vinir, með eða án bloggsinns...
Ég vildi þakka ykkur fyrir athugasemdirnar, mér þykir svo vænt um það þegar þið nennið að lesa ruglið í mér, og nennið að kvitta fyrir ykkur í leiðinni...
Doddi minn - hvað get ég sagt??? Þú ert tvíburabróðir minn, við vorum aðskilin í æsku... Þú hittir alltaf naglann á höfuðið, og ég gæti ekki verið þér meira sammála, reynslan er besta kennslubókin í lífinu... Þó svo að ég trúi á Guð, en þú ekki, þá trúum við bæði á það góða og slæma í heiminum, og hvað annað er það en orka?? Svo lengi sem að lífið bjóði manni fleiri góða daga en slæma, þá er það hið besta mál í mínum augum... Þú ert algjör dúlla, Doddi minn
Gréta - þú ert yndisleg Ég held að flest, ef ekki öll sambönd karlmanna og kvenmanna eru erfið, á köflum, og stundum í langann tíma, en þannig er það bara. Ég átti í erfiðu sambandi við fyrrverandi manninn minn, barnsföður minn semsagt, og hann talaði mikið niður til mín, og ég loksins vaknaði til lífsins, var farin að vera minn eiginn skuggi, og sálin mín var kvalin, ekki var það góð tilfinning, mér leið eins og maur, þó að raunveruleikinn var sá að ég var sterk kona, ég komst að því eftir að ég fór frá honum... Það tók mig langan tíma að vinna í sjálfri mér, og svo hitti ég núverandi manninn minn Við erum ennþá að læra inná hvort annað, og það kemur fyrir að hann talar niður til mín, þegar það gerist þá er ég fljót að benda honum á það, og við ræðum alltaf málin um leið, og hann er ekki að reyna að vera leiðinlegur, stundum fattar hann ekki að hann sé að tala svona...samt sem áður, þá finnst mér enginn maður hafa rétt á að tala niður til konunnar sinnar, hvað þá að vera óvirðingarfullur, ég tel mig mjög heppna að vera með góðum manni, sérstaklega nú til dags, þegar helmingur hjónabandna enda í skilnaði. Auðvitað eru erfiðleikar hjá öllum, sérstaklega þegar veikindi eru til staðar, og Guð minn góður, með fjögur börn, þá má maður sko búast við allskonar erfiðleikum Ég þakka þér kærlega fyrir hlýju orðin þín, farðu vel með þig
Takk fyrir að kvitta, Eva Lind...
Kæra Inga mín - hvenær getum við hist og spjallað saman um lífið og tilveruna??? Það er svo mikið til í því sem að þú ert að segja, maður hugsar oft ekki útí það að veikindin taka mikið á, maður heldur áfram þangað til að maður virkilega lekur niður, ég er sök um það, og ég veit að það er ekki gott mál... Ég veit að ég á að slaka á, hvíla mig, og ég verð að muna að gera það, hlusta á líkamann, en stundum hefur maður bara þessa daga þar sem allt virðist fara til fjandans Ég er mikið búin að hugsa um að fara til sálfræðings, og ætla einmitt að tékka á tryggingunum mínum, því að ég veit að það getur hjálpað að tala við einhvern bláókunnugan, en svo finnst mér á aðra höndina bloggið virka mjög vel sem sálfræðingur Það er ekki það sama og þú ert að tala um, Inga mín, en samt sem áður, þá finnst mér það mjög losandi að setjast niður og pikka inn hvernig mér líður og svo framvegis....
Ég vildi tala um bókina The Secret, af því að mér finnst hún mjög áhugaverð, og hún er eins og svo margt annað sem að fólk getur notað í lífum sínum til þess að aðstoða mann í gegnum erfiðu tímana, ekki satt? Ég verð þó að benda á eitt, sem að mér fannst Doddi minn misskilja soldið, og það er að bókin er ekki að tala um svokallaða refsingu, ef að þú sendir ekki frá þér jákvæða orku. Ef að þú sendir frá þér neikvæða orku dag eftir dag eftir dag, þá kemur sá tími að þú færð ekkert nema neikvæða orku tilbaka...ekki svo mikið sem refsingu, heldur frekar að þú færð tilbaka það sem þú lætur frá þér... Eins og biblían talar mikið um, komdu fram við fólk eins og þú vilt að það komi fram við þig...það sama gildir um hugsunarhátt okkar og orkuna okkar, ef við sendum frá okkur að mestu leyti neikvæðni, þá er skiljanlegt að við fáum bara neikvæðni tilbaka...
Það eru margar bækur, spólur, og fólk til í heiminum sem að getur hjálpað manni í gegnum erfiðu tímana, en við sjálf erum okkar eigið mesta meðal, við getum hjálpað sjálfum okkur betur en nokkur/ð annað, ekki satt, þar koma lífsreynslur okkar inní spilið... Ég mun halda áfram mínu striki, ég mun halda áfram að vera jákvæð, þó svo að inná milli mun ég eiga mína erfiðu daga, eins og við öll. Ég þakka ykkur öllum fyrir að vera stuðningsfullir vinir, og það er yndislegt að vita til þess að fólk nennir að lesa um mitt litla líf, og nennir að styðja við bakið á lítillri íslenskri konu í San Jose, Kaliforníu...takk, dúllurnar mínar
Bertha Sigmundsdóttir, 9.9.2007 kl. 06:28
Elsku Bertha mín, þetta er slæmt að heyra. Jú ég er með bókina hér á borðinu og lít í hana af og til. Er alveg viss um að boðskapurinn er alveg frábær. Mér barst svo myndin líka. Ég er að reyna að lifa eftir því sem þarna stendur. Eða réttara sagt, ég finn að margt sem kemur fram í bókinni, hef ég verið að gera ósjálfrátt. Og mér líður vel með það.
Vonandi gengur allt vel hjá ykkur, og auðvitað verðið þið komin í ykkar eigið húsnæði fyrir giftinguna. Stórt knús til þín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.9.2007 kl. 15:12
Hm - ég ætla sko að ná mér í þessa bók og spjalla svo við þið á eftir. En eins og þú segir, maður veit hvað það tekur á að vera blankur og í fjárhagsvandræðum, það bitnar óneitanlega á öllu í kringum mann, maður hefur stöðugar áhyggjur og mikill tími fer í að plana og ráðstafa hverri krónu. Fyrir marga er þetta of mikið og skerðir lífsgæði fólks - ég meina, þegar ekkert gengur upp og maður veit ekki hvernig maður á að fara að því að eiga fyrir reikningunum, þá er oft erfitt að njóta þess sem maður hefu, barnanna, heilsunnar, fjölskyldu og vina. Þegar svo erfið veikindi bætast við - jæja, ég þarf ekkert að segja þér um það. Ég veit bara að fólk sem ekki hefur þurft að hafa áhyggjur af heilsu eða peningum getur fæst sett sig í spor þeirra sem ganga í gegnum slíka erfiðleika. Þú, dúllan mín, ert algjör hetja!!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 13.9.2007 kl. 08:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.