27.8.2007 | 06:57
Öðruvísi...
Þegar ég var krakki, sérstaklega árið sem ég fermdist, þá tók ég eftir hvernig kirkjan er heima á Íslandi. Ég man að mér fannst alltaf rosalega leiðinlegt að ég mátti ekki klappa í kirkjunni, ég gleymi því aldrei þegar fermingarbekkurinn minn á Ísafirði fór með leikrit í kirkjunni, og enginn klappaði. Auðvitað var það öðruvísi en þegar maður var með leikrit í skólanum, þannig að þetta var voða skrítið, allaveganna fannst mér það sem þrettán ára gamallri stelpu.
Mér var hugsað til kirkjunnar heima á Íslandi í dag þar sem ég sat í kirkjunni hér í San Jose, sem er bara tveggja mínútna akstur frá okkur. Sú kirkja er að mestu leyti sótt af svertingjum, en samt eru allir litarhættir og þjóðir þarna samankomnar. Þið sem hafið ekki sótt svarta kirkju, prufið það ef þið getið. Hún er svo mikið öðruvísi en kirkjurnar heima, að ég veit varla hvar ég skal byrja að útskýra. Það sem mér líkar best við er orkan sem ríkir í kirkjunni, um leið og þú gengur inn, þá finnurðu ástríka og jákvæða orku. Allar svartar kirkjur (og ég nota þessa lýsingu, af því að 95% af meðlimunum eru svartir, og af því að þær eru kallaðar black churches, hér í Ameríku), sem ég hef aðsótt, eru með hljómsveit og kór. Okkar kirkja (down the street) er með fimm manna hljómsveit, og stóran kór, stundum syngur hálfur kórinn, stundum fimm konur, stundum þrjátíu manns, fer bara eftir mannafli þann daginn. Í dag söng kórinn svo fallega, og það snerti hjartað mitt svo mikið að ég fór barasta að gráta. Svo standa margir upp og syngja með kórnum, klappa, dansa, hoppa, og ég veit ekki hvað og hvað, já þetta er alveg eins og í bíómyndunum...
Mér finnst lífsgleðin svo mikil hjá svertingjum í kirkjunni, að maður smitast alveg, áður en maður veit af er maður farinn að dilla sér í takt, handleggirnir sveiflast fram og tilbaka, og líkaminn tekur yfir. Þetta er eins og að vera blindfullur í næturklúbb, nema hér er maður bláedrú í húsi Guðs, og gleðin er svo mikil að manni líður eins og maður sé drukkinn...
Svo byrjar presturinn að tala. Ég veit ekki um ykkur, en alltaf þegar ég fer í messu, þá finnst mér presturinn alltaf vera að tala beint til mín, hann er alltaf að tala um mína erfiðleika, það sem er að ganga á í mínu lífi. Svo lít ég í kringum mig, og ég sé að ég er ekki sú eina sem líður þannig, hann er að tala beint til okkar allra, mér finnst það ótrúlegt Mér er hugsað til fordómanna sem ríkja í heiminum í dag, hversu óþarfir þeir eru, því að við erum öll eins í augum Guðs. Við viljum öll það sama, sama hvar við erum í heiminum. Við viljum finna fyrir friði á heimilum okkar, hamingju með fjölskyldunum okkar, ást í hjörtum okkar, og lítið, rólegt, og notalegt líf á meðan við njótum jarðarlífsins.
Dagurinn í dag var góður dagur. Kirkjan kallaði á mig í morgun, og ég veit af hverju. Það var svo að ókunnug kona, sem er sjálf að rækta sitt samband við Almáttinn og vinnur hjá kirkjunni, gat haldið í eina höndina mína, með hina hendina á öxl mér, og svo bað hún fyrir mér með öllu sínu hjarta, án þess að hafa hugmynd um hver ég er, og það skipti hana engu máli. Ég var spurð fyrir hverju hún gæti beðið fyrir mína hönd, og ég sagði henni það. Hún beið fyrir mér í margar mínútur, á meðan ég þakkaði Guði fyrir allar hans gjafir, á meðan tárin streymdu, og á meðan ég styrktist á sálinni. Ég gekk út úr húsi Guðs í dag, vongóð, glöð, og sterkari á allann hátt. Ég mun biðja fyrir ókunnugu konunni í kvöld, því að hennar bæn hefur nú þegar byrjað að virka
Athugasemdir
En æðislegt, og svo fallegt af konunni.
Bestu kveðjur
KOlla
Kolla, 27.8.2007 kl. 12:37
Ég fór einu sinni í svertingjamessu í Bretlandi og skemmtilegri messu hef ég ekki farið í, gleðin, söngurinn og dansinn, þetta var allt frábært. Það er alltof mikill drungi yfir messum hér heima.
Huld S. Ringsted, 27.8.2007 kl. 17:23
Hæ hæ. Við bjuggum í Oklahoma fra janúar 2000 til ágúst 2001. Jósep var að læra flubvirkjan í Tulsa. Svo fluttum við til Noregs þar sem jósep er uppalinn og hérna á hann einnig 12 ára gamla dóttur. Við búum í bæ á suð vestur landinu sem heitir Stavanger. Jósep vinnur að vísu á flugvellinum í Osló en hann vinnur næturvaktir 6 daga í röð og svo er hann heima 8 daga. En við ákváðum að gera þetta svona þar sem ég var byrjuð í skólanum þegar hann fékk þessa vinnu. En þetta er rosalega sjarmerandi bær sem hefur upp á alt að bjóða, og ég vill allavegana ekki flitja aftur til Osló og þar í kring, fanst það ekkert spes.
Knús og kossar
Kolla
Kolla, 27.8.2007 kl. 17:52
Hrönn Sigurðardóttir, 27.8.2007 kl. 20:53
Trúir þú á engla? ég las það hér á netinu um daginn að þegar þú biður fyrir einhverjum, fari lítill engill og setjist á öxl viðkomandi. Ég er til í að trúa því.
Það var nú klappað í kirkjunni þegar Rebekka fermdist um daginn, tvisvar meira að segja. Í annað skiptið eftir fallegan einsöng (gospel) konu úr kirkjukórnum og í hitt skiptið eftir sönginn hennar Sesselju!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 31.8.2007 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.