4.8.2007 | 23:19
Hugsanir...
Afmælisdagurinn var mjög fínn, rólegur og fínn. Maðurinn minn gaf mér blóm, kort, og eldaði þennan líka æðislega ameríska morgunmat... Deginum var eytt í afslökun og rólegheitum. Afmælisgjöfin mín var Íslandsferðin mín, þannig að engar gjafir voru nauðsynlegar.
Ég er soldið leið í dag Það er erfitt fyrir mig þessa dagana að standa uppi fyrir því sem ég trúi 100%. Ég trúi því að þú kennir fólki hvernig það á að koma fram við þig. Ég trúi því að enginn hefur rétt á að koma fram við þig eins og aumingja, ekki einu sinni ef þú ert aumingi. Ég trúi því að fjölskyldumeðlimir eigi að styðja við bakið hvort á öðrum, sérstaklega þegar erfiðleikar eins og veikindi koma uppá. Ég veit að ég mun aldrei snúa bakinu við fólki sem þarf á minni hjálp að halda, sérstaklega ef að ég get veitt þeim aðstoð. En, það er ég.
Ég býst ekki við að allir séu eins og ég. Ég býst ekki við að fólk hagi sér á sama hátt og ég í öllum aðstæðum. Ég býst ekki við að fólk aðstoði mig þó svo að ég hafi aðstoðað það. Ég býst ekki við að fólk skilji mínar aðstæður, né hafi áhuga á að skilja þær. Hinsvegar býst ég við að fólkið sem er í lífi mínu, fólk sem ég umgengst, þekki mig, vil þekkja mig, og vil skilja mínar aðstæður.
Ég hef allt mitt líf gert mitt besta, allt mitt líf gefið 100%. Þegar ég var gift, þó svo að hjónabandið var í molum mest allan tímann, þá hélt ég áfram að gefa 100%. Ég hef gefið börnum mínum meira en 100%, og mun halda áfram að gera það, allt þeirra líf. Ég skil vel af hverju mamma og pabbi vilja ekki lengur vera ábyrgðarmenn fyrir mig þegar viðkemur mínum skuldum heima á Íslandi, ég skil það vel, af því að ég hef átt í erfiðleikum með að borga allar mínar skuldir, sérstaklega síðasta árið. Ég er búin að vera frá vinnu núna í eitt og hálft ár, þannig að síðustu átján mánuðir hafa verið erfiðir, bæði líkamlega og fjárhagslega. Samt sem áður, vegna Tim, höfum við borgað alla okkar reikninga, Tim keypti ný húsgögn fyrir okkur, og ég gat farið heim til Íslands.
Þó svo að ég og Tim séum trúlofuð, þá finnst mér óréttlátt af mér að biðja hann um að borga mínar skuldir heima á Íslandi, þó svo að hann sé búinn að hjálpa mér mikið. Ég skil rosalega vel að mamma og pabbi séu fúl útí mig, en í mínum augum þá réttlætir það ekki að það sé komið fram við mig eins og aumingja. Ef að manneskja gerir sitt besta, er það þá nógu gott? Ef að maður gefur frá sér 100%, er því þá tekið sem 100%? Ef að maður er reiður, hefur maður þá rétt á að tala niður til barna sinna, koma fram við barnið sitt sem aumingja, þó svo að barnið sé fullorðið?
Smá pælingar í kjölfari afmælisins, ég svaraði ekki þegar mamma hringdi í mig. Ég gat það ekki... Ég get ekki lengur leyft henni að koma fram við mig eins og aumingja. Af því að ég er ekki aumingi, ég er sterk, hugrökk, góð manneskja, sem allt hennar líf hefur gefið 100% af sér, en það hefur aldrei verið nógu gott í augum foreldra minna. Ég er sár, af því að síðustu tvö árin hef ég verið að díla við veikindi, og ég er varla spurð af sumum hvernig ég hef það, það er sárt...
Allt mitt líf hef ég viljað að foreldrar mínir séu stoltir af mér, er það ekki draumur allra barna? Ég horfi uppá börnin mín fjögur gera allt sitt besta, þau ljóma þegar ég segi þeim hversu stolt ég sé af þeim, ljóma útaf eyrum... Ég hef gert mörg mistök, sem barn, sem unglingur, sem kona. Ég er stolt að segja, að ég hef alltaf lært af þeim, og ég geri ekki sömu mistökin tvisvar. Ég er langt í frá fullkomin, hef aldrei verið fullkomin, mun aldrei verða fullkomin, og ég er stolt af því að vera langt í frá fullkomin, af hverju, jú, það gerir mig mannlega...
Ég er ekki vön að loka á fólk, ég er ekki vön að útiloka fólk sem ég elska og virði, en ég verð að gera það sem er best fyrir mig núna. Ég er 34. ára gömul, ég hef MS, ég á fjögur börn, er trúlofuð að plana brúðkaup, og ég er góð manneskja. Yfirhöfuð er lífið mitt mjög notalegt og gott, ég á ekki mikið, en ég á nóg. Ég veit ekki allt, en ég veit fullt. Ég er ekki fullkomin, ég er mannleg. Mér líkar mjög vel við lífið mitt eins og það er í dag, en ég er að vinna í því að gera það enn betra. Ég er að rækta samböndin í lífi mínu sem eru mér mikilvæg, og er að vinna í þeim samböndum sem þurfa vinnu. Eitt af þeim samböndum er samband mitt við mömmu og pabba. Ég veit að þau skilja mig ekki, því að ef þau skildu mig, þá myndu þau ekki láta eins og ekkert hafi í skorist. Ég er ekki að reyna að særa þau, ég er ekki að reyna að vera ljót og leiðinleg, ég er ekki í fýlu. Ég veit ekki einu sinni hvort að mamma lesi bloggið mitt, þessvegna skrifa ég um mínar tilfinningar hér, bloggsíðan mín er sálfræðingurinn minn.
Ég veit ekki hvað annað ég get gert en að vernda mínar tilfinningar, vernda mig gagnvart stressi og leiðinlegheitum, því að stress hefur alvarleg áfhrif á mína líðan. Þegar ég var sem sárust, eftir páskana, þegar mamma mátti ekki vera að því að yrða á mig, tala við mig, og virtist koma af fjöllum þegar ég talaði um Viku viðtalið mitt og MS sjúkdóminn, þá var ég mjög veik í viku. MS sjúkdómurinn er svo óútreiknarlegur, að stress getur farið alveg með mann, og ég hef ekki efni á að vera rúmliggjandi vegna stress. Ég veit í hjarta mínu að mamma og pabbi hafa allt sitt líf gert sitt besta sem foreldrar, ég veit að þeim þykir vænt um mig. Ég veit líka, að þau eru reið útí mig, sár útí mig, fúl útí mig. Því miður, þá er það bara málið. Þeim finnst það réttlátt að koma illa fram við mig og koma fram við mig eins og ég sé bara eitthvað númer í bankanum, en ekki barnið þeirra. Þeim finnst allt í lagi að tala niður til mín, og svo næsta dag láta eins og ekkert sé. Þannig hefur okkar samband alltaf verið, því miður. Það er kominn tími til þess að það breytist. Ef að ég gef 100% og það er ekki nógu gott í þeirra augum, þá verð ég aldrei nógu góð í þeirra augum, það er staðreynd...
Ég verð að vera umkringd fólki sem líkar vel við mig, fólk sem sættir sig við mig eins og ég er. Ég get ekki breytt fortíðinni, en ég mun halda áfram að læra af mínum mistökum, vonandi mun samband mitt við foreldra mína styrkjast við þessa ákvörðun mína, ég verð að trúa því. Ég verð að trúa að einhvern daginn munu þau sætta sig við mig eins og ég er, tilfinningafull vera, sem vil ekkert meira en að foreldrar hennar skilji hana og elski hana skilyrðislaust. Þannig elska ég mín börn, þannig vil ég vera elskuð. Takk fyrir að leyfa mér að röfla, mér líður betur núna...
Athugasemdir
Elsku Bertha. Ég tek undir með þér og Ingu, að mér finnst bloggið vera svo góður sálfræðingur. Stundum þarf maður að fá að segja akkúrat sem maður vill segja, og hér grípur enginn frammí fyrir manni, hér hlusta (lesa) þeir sem vilja og þeim sem þykir vænt um þig láta þig vita.
Mér þykir vænt um þig, bara svo þú vitir það!
Aldur segir ekki neitt og hér í bloggheimum er maður orðinn góður vinur fólks á öllum aldri. Við (þú og ég) erum á svipuðu reki ... ef ég lána þér eitt ár, þá verðum við jafngömul!
Ég er svo heppinn að eiga gott samband við alla í minni fjölskyldu. Ég er svo heppinn að eiga frábæra vini og ættingja. Þannig að ég get ekki sagt að ég skilji þig fullkomlega þegar sambandið við foreldrana er eins og það er, en ég skil auðvitað þínar tilfinningar og það sem þú segir um þetta.
Þegar persóna gerir ávallt sitt besta, þá á það að vera nóg. Það er ekki hægt að biðja um meira. Sem betur fer áttu frábæran mann í Tim og fjölskyldu í honum og börnunum ykkar. Það er rosalegur styrkur. Og það er gott að sækja í hann.
Þú ert yndisleg vinkona og persóna. Ég þakka ávallt fyrir það að hafa fengið það tækifæri að kynnast þér, heyra í þér og komast að því manstu að heimurinn er svo lítill, þegar þú þekkir systur Veigu svona from the old days...
Hlýjar hugsanir stöðugt komast vonandi yfir hafið til þín. Knús og kveðjur fylgja ávallt. Hafðu það yndislegt!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 13:19
Takk elskurnar mínar, þið eruð alltaf jafn yndislegir og góðir vinir, og ég þakka ykkur fyrir hlýju kveðjurnar og bara fyrir að vera þið
Bertha Sigmundsdóttir, 5.8.2007 kl. 18:58
Kæra mín! Mig langar að byrja á því að óska þér til hamingju með afmælið! Ég kíkti stundum á þig, ekki oft en stundum. Ég dáist að þér í laumi, fyrir að þora að gefa þig sjálfa aftur, ég er ekki viss um að ég þori því nokkurn tíma.....
Annað! Ég hef gefið mig sjálfa 100% í að vera góð móðir en uppsker eins og þú, þessa biturð. Það segir mér að það er ekki nóg að gefa sig 100% Það segir mér líka að sumum dugar ekki allt, þau vilja meira og þegar maður getur ekki gefið meira hvað gerir maður þá?
Gangi þér vel
Hrönn Sigurðardóttir, 6.8.2007 kl. 01:34
Komdu sæl bloggvinkona... Ég var að lesa bloggið þitt og sá hversu bitur þú ert í garð fólksins þíns hérna á Íslandi og þá sérstaklega nánustu fjölskyldu... Ó þú svona ung að vera að velta þér uppúr gömlum fordómum misviturs fólks... I have been there!...
Af hverju ertu að láta þetta fólk eyðileggja fyrir þér lífið sem er svo dásamlegt ef við hlustum á innri rödd, hvað er rétt og hvað er rangt...Lífið hérna megin grafar á að vera dásamlegt og það er eingöngu undir okkur hverjum og einum komið hvernig við lifum því... Við þurfum að læra að loka á fólk sem brýtur okkur niður vegna einhverra hvata sem ég hef aldrei getað skilið að séu svo neikvæðir í sálum einstaklinga. Til hamingju með verðandi brúðkaup og teygið þið verðandi hjón ástarsæluna í botn!
Guðrún Magnea Helgadóttir, 6.8.2007 kl. 11:33
Knúz með afmælið.
Langar þig að heyra kaldhæðni, ég bý í Sönderborg núna :)
Kveðja Dagmar
Dagmar Íris og co (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 17:48
Þarf bara svoooo mikið að knúsa þig núna!!! Ástarkveðjur og milljón kossar og knús
Heiða.
Aðalheiður Haraldsdóttir, 7.8.2007 kl. 12:02
Vá en falleg og einlæg færsla þú færð mitt atkvæði
kkv Ég er ófullkomið vandræða barn. lol
Eva , 8.8.2007 kl. 02:50
Þakka ykkur enn og aftur fyrir ykkar hlýju og yndislegu orð. Ég er búin að eignast tvær nýjar bloggvinkonur í kjölfar þessarar færslu, og það er alveg yndislegt og skemmtilegt, velkomnar, ég hlakka til þess að kynnast ykkur betur
Heiða mín, ég væri sko alveg til í að fá knús frá þér, fæ sko aldrei nóg af þér og Óla Kalla, og ég tala nú ekki um frænkur mínar, takk fyrir góða, þó stutt væri, samveru á Íslandi, hlakka til þess að sjá ykkur í brúðkaupinu.
Ég mun halda áfram að gera mitt besta, með þá von í hjarta mínu að einhvern daginn mun það vera nógu gott, það er nógu gott í mínum augum og mínu hjarta, því betur en sitt besta getur enginn gert Takk aftur, elskurnar, þið eruð öll BEST
Bertha Sigmundsdóttir, 8.8.2007 kl. 04:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.