Fjórði Júlí

Fjórði Júlí 006Gleðilegan 4th of July, vinir og vandamenn. Hér var sko mikið um dýrðir, og þvílíkt stuð hjá okkur. Ég er búin að vera á fullu alla vikuna að undirbúa sjálfa mig og fjölskylduna fyrir Íslandsferðina, búin að búa til lasagna, og kjúklingaréttinn minn, frjósa réttina svo að maðurinn minn geti bara skellt þeim inní ofn ef hann nennir ekki að elda eitthvert kvöldið. Svo bjó ég til pasta salat, og fyllt croissants fyrir partýið sem við fórum í þann fjórða Júlí, þannig að síðustu tvo til þrjá daga hef ég búið inní litla eldhúsinu mínu (og það er lítið, ég get skorið niður með báðum höndum, á sitthvorum bekknum, bara með því að standa á miðju gólfinu...

Við fórum til vinkonu minnar, hún heitir Rose, hún var með partý heima hjá sér, í klúbbhúsinu... Þar var sundlaug fyrir krakkana, allskonar góðgæti að borða, og aragrúi af spilum til þess að spila. Samankomin var hennar fjölskylda frá fyrra hjónabandi, tengdamóðir, tengdasystkyni, og frænkur og frændar, og svo var nýji kærastinn hennar þar, ásamt fyrrverandi eiginmanni. Mjög heilbrigt hjá þeim, allt önnur sagan en hjá mér, en það er æðislegt að sjá hversu vel þeim öllum semur, og hvernig þau eru öll fullorðin, ekki eins og lítil börn (er ekki að minnast á nein nöfn, hóst, minn fyrrverandi).

Fjórði Júlí 003

Rose býr beint á móti stórum park, þar sem flugeldasýningin var haldin seinna um kvöldið. Við dúlluðum okkur allan daginn, komum þangað um þrjú leytið, borðuðum, spjölluðum, borðuðum köku, spiluðum, borðuðum ávexti, hlupum um, borðuðum meiri köku, spiluðum meira, spjölluðum meira, og svo lengi mætti telja. Þetta var frekar rólegt og huggulegt, það var að vísu geðveikur hiti hérna, 96 Fahrenheit, sem er um það bil 35 stiga hiti Celcisus (ekki dæma mig ef stærðfræðin er ekki rétt, það var steikjandi hiti). Þannig að við fórum ekki útí park, það var alltof heitt til þess, og börnin syntu smá, en þau litlu voru rekin úr lauginni... Já, já, það var Nasista sundlaugavörður og börnin máttu ekki hoppa í laugina, leika sér með bolta í lauginni, og voru víst með of mikil læti. Þannig að Kalli og Mikaela voru rekin úr lauginniFrown Mér fannst þetta bara fyndið, ekki fannst manninum mínum það... Ég er nú oftast nær rólegri yfir svona hlutum, ég á það til með að vera mjög ströng, en common, það skemmtilegasta við sundlaugina er að geta hoppað, er það ekki???? Og öskra, og fíflast, og skemmta sér, allaveganna fá þau að láta svoleiðis í okkar sundlaug, mér finnst allt í lagi að leyfa þeim að fá smá útrás, þá láta þau betur þegar inní hús er komið...

Fjórði Júlí 005

Mikaela mín var nú frekar sár yfir þessu, en þetta var góð lexía fyrir þau, það eru ekki allir eins þolinmóðir og mamma þeirra, og þau þurfa stundum að hlusta betur, það er sko víst. Eftir sundhremmingarnar, þá spilaði ég bookopoly (sem er það sama og monopoly, sem ég man sko ekki hvað heitir á íslensku, en ég spilaði þetta oft við mömmu og pabba þegar ég var krakki). Þetta er spilið með götunum, og húsunum, og leigunni, en í staðinn fyrir venjulegar götur og hús, þá lendirðu á bókum og kaupir bókasöfn og bókabúðir... Í staðinn fyrir að vera sendur í fangelsi, þá ertu sendur inní herbergi til þess að horfa á sjónvarp, það er þín fangelsisvist... Við byrjuðum fjögur að spila (ég og börnin mín þrjú, Jasmine vildi ekki spila), en svo hætti Kalli og Jasmine tók við. Svo datt Mikaela út, og við spiluðum þrjár í nokkra klukkutíma, greyið Tim, honum leiddist frekar mikiðUndecided 

Þegar uppi var staðið, þá vann Janae, hún átti $2741, ég átti $2310, og Jasmine átti $2355. Þannig að þetta var mjög spennandi og nálægur leikur. Loksins kom svo kvöldið, og við þurftum ekki að fara langt, við löbbuðum út og beint fyrir framan klúbbhúsið var grasblettur þar sem við vorum búin að setja upp stóla og teppi. Við settumst þar og biðum spennt eftir flugeldunum. Hér á ofan má sjá okkur skötuhjúin að bíða eftir flottheitunum. Fyndin saga, ég er í rauðum bol, ég hef ekki átt rauð föt síðan ég var sjö eða átta ára, því að þegar ég var krakki þá elskaði ég rautt, ég vildi bara rauð föt, ég átti rauð stígvél, rauða úlpu, peysur, boli, og buxur held ég líka. Veit ekki með sokkana og nærfötin, en þau voru örugglega líka rauð. Þannig að sem krakki fékk ég sko ógeð á rauðu, en prufaði svo um daginn þennan líka flotta rauða bol, og skellti mér á hann. Var svo í honum í tilefni þjóðhátíðardagsins, og finnst ég bara taka mig mjög vel út í rauðuWink

Flugeldarnir voru sko geðveikir, og alveg þess virði að bíða allan daginn eftir. Það var ekkert smá pakkað í þessum park á móti hennar Rose, fólk var búið að flykkjast þar að allan daginn, með bjóra og gos, litlu grillin sín, og sumir voru meira að segja með tjöldin sín með sér. Svo var götunni sjálfri lokað og hún fylltist ekkert smá fljótt af fólki. Við settumst bara á okkar litla grasblett, og vorum með besta útsýni EVER. Mér finnst flugeldar alltaf svo fallegir, og þessir ullu ekki vonbrigðum, allskonar litir máluðu himininn, aðallega blátt, rautt, og hvítt (fánalitirnir), en inná milli kom fjólublátt, bleikt, og grænt, og gulllitað. Ekki var sparað hjá borginni, því að flugeldasýningin stóð á í allaveganna kortér, ef ekki tuttugu mínútur, og lokasýningin var GEÐVEIK, og HÁVÆR. Þá var skotið upp svona hundrað flugeldum í einu (ég er ekki að ofgera), allskonar litir, allskonar stærðir, og blasti þetta allt við okkur í einu, þetta var sælgæti fyrir augun, og hamingjan flæddi yfir mig. Mér finnst flugeldar svo fallegir, ég fer oftast nær að gráta (af hamingju), ekki í gærkveldi samt, en hamingjan flæddi í gegnum mig alla, ég fór að hugsa til þess hversu yndislegt lífið mitt er, hversu heppin ég er að hafa stóra fjölskyldu sem elskar mig og börn sem líta upp til mín, mann sem elskar mig og virðir mig, nógu góða heilsu til þess að geta setið úti í faðmi fjölskyldunnar og vina, og notið flugeldanna með þeim.

Lífið er yndislegt, ég mæli með því við ykkur öll að njóta hvers dags, því að morgundagurinn er ekki lofaður, og gærdagurinn er horfinn. Við höfum bara daginn í dag, og reynum öll að njóta hans og skilja það að hver dagur er Guðs gjöf til okkar. Eftir flugeldasýninguna, þá héldum við aftur inn og þökkuðum fyrir okkur með því að hjálpa við þrifin, það var sko það minnsta sem við gátum gert, eftir frábæran dag. Tim skúraði svo í lokin, og svo var haldið heim á leið, þar sem allir rotuðust fyrir miðnætti, þetta var langur og skemmtilegur dagur. Það var gaman að þurfa ekki að vakna í dag með eldhús fullt af skítugum pottum og diskum, því vanalega fáum við fólk í heimsókn yfir hátíðarnar, og húsið okkar er í rúst eftir á, ekki í þetta skiptið. Hér sofa ennþá allir værum svefni, og ég er eins og alltaf, vöknuð of snemma.

Hér er komin þessi líka geðveika hitabylgja, og ég efast um að ég fari út fyrir dyr í dag, ég held að ég verði bara inní stofu með loftkælinguna á, og viftu beint á mig, því að hitinn fer frekar illa í mig. Svo eru bara fjórir dagar þangað til að fjölskyldan mín skutlar mér uppá flugvöll, og ég held á leið mína til Íslands, fagra Ísland, landið mitt góðaKissing Mikið verður nú gaman að koma heim, og sjá ykkur öll, ég hlakka mikið til. Ég er að mestu leyti tilbúin, þarf bara að pakka niður, og svo ætla ég að versla í matinn á laugardaginn fyrir fjölskylduna mína, skilja eftir nógu mikið af góðgæti handa þeim. Ég er staðráðin í því að gráta ekki á flugvellinum, ég verð að bíða þangað til að þau keyra af stað, þá get ég byrjað að gráta, ég vil ekki skilja við börnin svoleiðis. Þetta á eftir að vera mjög þroskandi reynsla fyrir þau öll, og þá sérstaklega Mikaelu, því að hún er algjör mömmustelpa. Hún á eftir að verða mikið nánari Tim, og tvíburunum, því að þau eiga öll eftir að hugsa svo vel um hana. Hún er nú þegar náin bróður sínum, en þau verða eflaust enn nánari við þetta líka. Kalla mínum er búið að vera illt í maganum síðustu viku, og ég held að það sé útaf ferðinni minni, ég vona að hann verði ekki veikur á meðan ég er í burtu, en hann er líka mjög náinn mér, þannig að þetta verður eflaust soldið erfitt fyrir hann líka. Tvíburarnir eiga eftir að sakna mín líka, en ekki fyrstu tvo til þrjá dagana, því að þær eiga eftir að njóta þess að ég sé ekki að minna þær á uppvaskið, eða að taka til í herberginu, eða setja á sig svitalyktaeyðir... Svo eiga þær eftir að fatta það að ég hugsa rosalega vel um þær, og þá á söknuðurinn eftir að koma.

Að vissu leyti til held ég að ferðin verður erfiðust fyrir mig (uppá söknuðinn að gera), af því að ég verð svo langt í burtu frá þeim, en þau eru ennþá öll saman og heima hjá okkur. Við erum búin að plana að tala saman á hverjum degi, og vonandi get ég nálgast tölvu hjá frænda mínum, hann er með vefmyndavél, þannig að ég get kannski spjallað við þau öll í gegnum tölvu og þá getum við séð hvort annað nokkrum sinnum, það verður æði pæði, ég elska tæknina í dag. Þetta er ekki nema níu dagar allt í allt, og þeir eiga eftir að líða hratt. Ég veit að þegar ég kem aftur heim, þá verð ég þolinmóðari, skemmtilegri, hamingjusamari, því að ég fæ smá lækningu við heimþránni. Það verður yndislegt að sjá ykkur öll, og ég vona að enginn verði fúll eða sár, ef ég hef ekki tækifæri til þess að hitta þig/ykkur. Því miður eru þetta bara sjö heilir dagar sem ég verð á landinu, og ég veit að ég verð á fullu allan tímann. Ég mun gera mitt besta til þess að hitta sem flesta, ef ekki, endilega vitið það að þið eruð velkomin í heimsókn til mín, hvenær sem er, og það er loforðSmile

Sé ykkur sem flest í næstu viku, heyri í ykkur sem flestum í næstu viku, farið vel með ykkur, njótið dagsins og hvorts annarsKissing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá, hvað þessi færsla er frábær, hressandi og yndisleg. Ég verð að segja að mér finnst þið skötuhjúin alveg ótrúlega flott svona saman í rauðu - og ég er ekki að grínast en þið gætuð algjörlega notað þessa mynd á kort frá ykkur eða eitthvað svoleiðis.

Sundlaugarvörðuinn jú algjör leiðindapúki ... en maður hefði bara þurft að henda honum út í - og brosa svo að þessu. Svona club tropicana tilfinning!

Ísland hlakkar til að fá þig og sjá þig. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður: ekki hafa áhyggjur af því að þú móðgir einhverja þó þú getir ekki hitt þá eða talað við þá hér á Íslandi. There is only so much you can do ... á sjö dögum. Hugsaðu fyrst og fremst um að hafa það gott, hitta þá sem þú getur og njóta þess algjörlega.

Knús knús og kossar til þín og ykkar - og segðu Tim endilega að þessi mynd af ykkur sé frábær.

Kær kveðja frá Akureyri!  

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 18:15

2 Smámynd: Kolla

Hæhæ:)

Rauðibolurinn fer þér mjög vel. Gaman að heyra að þið skemtuð ykkur vel á þjóðhátíðardaginn. Og ég skal njóta lífsisn, en þu verður líka að lova að gera hið sama

Knús og kossar

Kolla, 6.7.2007 kl. 22:19

3 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Jæja, þá styttist í að við hittumst!  Hlakka rosalega til að sjá þig - auðvitað hefði verið æðislegt að fá Tim og krakkana líka en það verður bara seinna - ég held þá áfram að hafa eitthvað til að hlakka til   Svo er bara að byrja að safna fyrir ferðinni okkar Óla í brúðkaupið ykkar næsta sumar   SJÁUMST EFTIR 3 DAGA!!!  (Þú gleymir ekkert að sækja okkur á flugvöllinn)

Aðalheiður Haraldsdóttir, 8.7.2007 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband