21.6.2007 | 05:20
Minni hiti
Loksins, búið að vera aðeins skárra veður síðustu þrjá daga, minni hiti, sól og blíða, en smá gola sem hjálpar alltaf til í hitanum. Við erum bara búin að slaka á, ég er aðeins byrjuð á heimalærdómnum með krökkunum, ég var búin að ákveða að hafa klukkutíma af skóla á hverjum vikudegi, þannig að við getum lagað það sem laga þarf, tvíburarnir þurfa að lesa, betrumbæta stærðfræðina og stafsetninguna. Kalli er með skólabækur, stærðfræði, lestrarbækur, og skrifbók (journal writing), þannig að hann hefur alveg nóg að gera með það. Mikaela mín er að æfa stafsetningu, stærðfræði, og lesturinn sinn. Þannig að planið hjá mér er að hafa klukkutíma á dag fyrir heimalærdóm, og vonandi mun smá skóli í sumar hjálpa þeim þegar þau byrja í næsta bekk, það er alltaf best að vera vel undirbúinn
Æskuvinkona mín, hún Sigrún Eiríksdóttir er í Los Angeles að heimsækja barnsföður sinn. Hún er að spá í að kíkja til mín í heimsókn á föstudaginn, og ég get ekki beðið. Ég hef ekki hitt hana síðan 2000, áður en dóttir mín fæddist, og áður en að sonur hennar, Emil Eiríkur, fæddist. Elsti sonur hennar, Ismael, er ellefu ára gamall, ótrúlegt hversu hratt tíminn líður... Ég er mjög spennt að fá hana í heimsókn, er ekki búin að fá heimsókn frá neinum síðan mamma og pabbi komu í heimsókn í þrjá daga í Júní 2003. Þau eru búin að heimsækja mig tvisvar síðan ég eignaðist börnin mín, fyrst í Apríl 2001, og svo 2003. Fyrir utan þau, þá kom Íris í heimsókn til mín í Október 1999, og svo aftur í Ágúst 2005, rétt eftir að ég kynntist Tim. Þannig að ég hef ekki fengið marga gesti í heimsókn til mín, og auðvitað er það leiðinlegt að sjá ekki fólkið sitt í langan tíma, en svo er það rosalega gaman þegar ég fæ fólk í heimsókn, því að ég er ekki vön því.
Svo styttist óðum í Íslandsferðina mína, og kvíðinn eykst með hverjum degi. Mikaela mín er nú ekkert alltof ánægð með framvindu mála, hún sagði sko við mig um daginn að hún vill ekki að ég fari, að níu dagar sé alltof langur tími, og hver eigi nú eiginlega að knúsa hana á morgnana? Hún er svo mikil mömmustelpa, hefur alla tíð verið það, og auðvitað er rosalega erfitt fyrir mig að fara frá henni, og þeim öllum. Ég verð bara að koma heim, það er erfitt fyrir mig að útskýra þetta fyrir öllum börnunum, því að þau fatta nú ekki alveg hvernig það er að hafa enga fjölskyldumeðlimi í kringum sig, þau eru vön að hafa fjölskylduna í kringum sig. Tim er búinn að lofa mér að hann muni halda þeim uppteknum, þannig að þau verða ekki of leið og sorgmædd. Svo ætlum við að tala saman í tölvunni á hverjum degi, og kannski í gegnum vefmyndavél, ég er að spá í að koma með eina svoleiðis heim með mér og þá get ég spjallað við þau öll og séð þau, á meðan ég er heima.
Ég er nú samt alveg á því að tíminn muni líða rosalega hratt á meðan ég er heima, ég er auðvitað að ferðast næstum því tvo daga á leiðinni til Íslands, og svo mun ég stoppa í einn dag í Boston áður en ég flýg svo heim til San Jose. Mikið verður nú gaman að sjá börnin mín og Tim, þegar ég lendi aftur í Kaliforníu, ég get ekki beðið Ég veit að það verður yndislegt fyrir mig að koma heim, af því að mér á eftir að líða betur, ég á ekki eftir að þjást af heimþrá lengur, því að ég mun hafa tækifæri til þess að hitta ykkur flest á meðan ég er heima. Ég vil biðjast afsökunar fyrirfram ef ég hitti þig/ykkur ekki, hver sem þú/þið eruð, því miður á ég ekki eftir að geta hitt alla, það er bara ómögulegt, en ég mun gera mitt besta til þess að allaveganna hringja í ykkur á meðan ég er heima. Endilega sendið mér símanúmerin ykkar á berjamo@hotmail.com, þá get ég haft samband á meðan ég er heima. Ég mun eyða meirihluta vikunnar á Höfn, af því að þar er mikill hluti af fjölskyldunni minni. Ég er enn að spá í hvort að ég muni hafa efni á að leigja mér bíl í einn dag eða svo á meðan ég er fyrir sunnan, þá mun ég geta verslað og snattast það sem ég þarf að snattast. Þetta kemur allt betur í ljós, það er svo stutt í þetta núna.
Jæja, ég er eitthvað svo þreytt í dag, er búin að vera orkumeiri síðustu tvær vikur, en í dag er ég eitthvað lúin, svona er þetta nú bara. Ég þarf að fara eldsnemma í fyrramálið og redda heilsutryggingunni minni, alltaf einhver pappírsvinna, svoleiðis er þetta hér í Ameríkunni, en maður gerir það sem maður gera þarf. Börnin öll sofnuð, Tim að horfa á snjó og vetur í sjónvarpinu, og mér orðið kalt á að hlusta á vetrarvindinn Ætli ég fari ekki að reyna að halda áfram að lesa Barack Obama, The audacity of hope, mjög áhugaverð bók eftir tilvonandi forseta Bandaríkjanna (allaveganna vona ég það). Njótið kvöldsins, elskurnar, og ekki gleyma að senda mér símanúmerin ykkar, hlakka til þess að sjá ykkur eftir tvær og hálfa viku. Kossar og knús
Athugasemdir
Of mikill hiti er náttúrlega alltaf svolítið orkustelandi ...drekka nógu mikinn vökva!
Ég vona að þið Sigrún eigið eftir að hafa það ótrúlega skemmtilegt saman. Það er ótrúlegt hversu fljótur tíminn er að líða, og þegar ættingjar og vinir manns búa úti í útlöndum ... þá er eins og tíminn stelist til þess að líða enn hraðar. Mér fannst það mjög leiðinlegt hvað ég náði að heimsækja Ara bróður og fjölskyldu mjög lítið þegar þau bjuggu úti, en nú eru þau flutt heim - og ég ætti að sjá þau meira.
Íslandsferðin þín verður þvílíka skipulagða skemmtunin Mundu bara að hafa ekki móral yfir því ef þú hefur ekki heilsu, nennu eða getu til að hitta alla sem þig langar til að hitta. Þessi Íslandsferð á auðvitað að hressa þig við, en ekki öfugt ... farðu alltaf vel með þig. (Að þessu sögðu bendi ég auðvitað á símann minn ... )
Eðlilega á fjölskylda þín eftir að sakna þín og þú hennar, Mikaela verður bara knúsuð aðeins extra meira rétt fyrir brottför og eitthvað eftir heimkomu ...
Gangi þér vel með þína pappírsvinnu í dag.
Knús og kossar frá Akureyri!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 07:48
Elsku Doddi minn, komin með símann, og ég lofa að hringja í þig, við verðum að spjalla smá persónulega séð. Takk fyrir hlýju orðin, ég veit að ég verð að passa mig á meðan ég er heima, og ekki ofgera sjálfri mér. Ég mun eflaust slaka mest á fyrir austan, þar get ég bara labbað um og heimsótt ættingja, og spilað Yahtzee við Óla frænda (hann þykist geta rústað mér, erum alltaf með keppni þegar ég kem heim, ég er nú búin að vinna oftast nær...)
Elsku Inga mín, you beat me to it, ég ætlaði einmitt að stinga uppá því að við gætum hist á meðan ég er í Boston. Það væri frábært. Ég ætlaði einmitt að tala við Írisi, og bara sjá hvort að hún væri ekki til í að hosta smá kvöldmat eða eitthvað á miðvikudagskvöldinu, og boðið nokkrum stelpum sem ég hef ekki séð í langan tíma, og sumar aldrei (þig, hahaha). Hún Íris mín og Vera, þær hugsa alltaf svo vel um mig þegar ég kem til þeirra, ég man eitt árið, þegar þær náðu í mig útá flugvöll, þá mættu þær með six pack af Heineken, og Smirnoff Black, svo fengum við okkur öllara í bílnum á leiðinni heim (uss, ekki segja neinum...)
Takk kærlega fyrir stuðninginn, þið bæði. Ég veit að börnin mín eru í góðum höndum, mér finnst ótrúlegt að vera með manni sem ég get treyst fyrir börnunum mínum, því ég treysti ekki barnsföður mínum (eða sæðisgefanum, eins og hann virkilega er) fyrir að hugsa vel um þau. Tim er rosalega góður maður, og auðvitað á þetta eftir að vera mikið á hann lagt, en hann veit að ég myndi gera það nákvæmlega sama ef hann þyrfti að fara í heimsókn til sinnar fjölskyldu. Ég virkilega vona að hann eigi eftir að gera það, kannski þegar ég kem tilbaka, því að mér finnst það bara sanngjarnt, en hann er voða rólegur yfir þessu öllu saman.
Hann ætlar einmitt að hafa fullt að gera með börnin á meðan ég er farin, Inga mín, ég veit nefnilega alveg hvað þú átt við með það að tíminn líður ekki eins hratt hjá þeim litlu. Og Doddi minn, ég er búin að vera að kyssa og knúsa þau öll aðeins extra, svo að þau verði ekki alveg ónýt á meðan ég er farin, auðvitað mun Tim knúsa þau líka, en það jafnast ekkert á við kossa og knús frá mömmu sinni... Og í lokin, elsku Inga mín, ég skil alveg hvernig þér líður í sambandi við hundana, gæludýrin manns eru manni mjög mikilvæg, það er sko alveg svipað að skilja við þau eins og börnin manns, og sérstaklega hundar, þeir eru rosalega næmir fyrir öllum tilfinningum eigenda sinna, þannig að þeir finna alveg fyrir kvíðanum hjá þér, þeir eiga eftir að verða mikið ánægðir þegar þú kemur aftur heim.
Jæja, núna fer ég kannski að klæða mig, hér er smá frí frá hitanum núna, enda klukkan bara kortér yfir sjö, ég vaknaði eitthvað óvenjusnemma í dag. Heyri í ykkur bráðlega, og sé þig vonandi Inga mín í Boston (ó, sorrý, by the way, Tim og börnin koma ekki að hitta mig, þessvegna verð ég bara einn dag í Boston, við erum að reyna að spara peninga...)
Bertha Sigmundsdóttir, 21.6.2007 kl. 14:13
Mikið verður gaman að hitta þig, elsku dúllan mín. Þótt það verði ekki nema í mýflugumynd á kaffihúsi eða eitthvað. Sendi þér öll númerin mín á emeilinu þínu. Knús frá Skaganum!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.6.2007 kl. 19:38
Kvitt til þín
Melanie Rose (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.