23.7.2006 | 11:47
Erfið vika
Mikið er erfitt þegar maður eldist og fólk fer að deyja. Þessi vika er búin að vera rosalega erfið fyrir mig. Vinur minn og fyrrverandi vinnufélagi, Tim Powley, lést á Mánudaginn var. Hann var að verða fimmtugur og ég vann með honum í veisluþjónustunni fyrir þremur árum síðan. Ég vann með honum í fimm ár allt í allt og svo eftir að ég missti vinnuna þá hittumst við reglulega og fórum út í hádegismat og svoleiðis. Við vorum búin að reyna að plana að hittast í hádegismat síðustu þrjár vikurnar, en það var alltaf eitthvað og við náðum aldrei að fara út áður en hann dó.
Jarðarförin hjá honum var núna á Föstudaginn og var það rosalega erfiður dagur. Jarðarförin var mjög falleg og fullt af fólki talaði og vottaði fjölskyldu hans sínar samúðarkveðjur, hann var giftur í nítján ár og átti sextán ára gamla dóttur. Ég hitti allt fólkið sem að ég vann með, og var það mjög yndislegt að hitta alla, fyrir utan kellinguna sem ég vann fyrir, en allir aðrir voru svo ánægðir að sjá mig og ég ánægð að hitta alla, þó svo að kringumstæðurnar voru ekki sem bestar. Ég veit ekki hvort að margir vissu að fyrir tveimur mánuðum þá dó annar vinur minn og fyrrverandi kærasti í Boston. Hann David vinur minn var týndur í þrjá mánuði áður en að hann fannst í höfninni í Boston. Hann var 33 ára gamall og skildi eftir tvö börn, sonur hans er jafngamall Kalla mínum.
Ég komst ekki í jarðarförina hans vegna fjármála, en mikið var ég nú sorgmædd þegar hann dó og svo bara tveimur mánuðum síðar deyr annar vinur minn. Auðvitað er þetta bara hluti lífsins, en ég er nú búin að vera svo heppin að hafa ekki misst marga í lífi mínu, fyrir utan Kalla bróðir og svo afa, langaafa, langaömmu og frænkur mínar, Diddu og Gunnhildi. Maður huggar sig við það þegar fólk deyr þegar það er komið yfir ákveðinn aldur, eins erfitt og það er að sætta sig við dauðann, en mikið er þetta nú erfitt að missa fólk.
Mér finnst sérstaklega erfitt að geta ekki tekið upp símann og hringt og spjallað og hlegið. Maður kann aldrei að meta það sem að maður hefur fyrr en það er orðið of seint. Ég veit að það er ástæða fyrir því að ég missti tvo vini á svona stuttum tíma, þó svo að ég skilji ekki ástæðurnar núna. Ég bið og vona að vinir mínir og ættingjar hafi það betra í himnaríki og að þar séu ekkert nema hamingjustundir og skellihlátur og góður matur og félagsskapur. Kennslustundin er sú að meta fólkið í lífi sínu og láta fólk vita hversu vænt manni þykir um það, eins oft og hægt er.
Ég vil hér með láta ykkur öll sem að lesið þetta blogg vita mér þykir rosalega vænt um ykkur og þó svo að það eru margir vinir og ættingjar sem ég tala ekki við í gegnum síma daglega, vikulega, mánaðarlega, jafnvel árslega, þá eruð þið alltaf efst í huga mér og ég sakna ykkar allra svakalega. Ég get ekki hugsað mér að missa annan vin eða ættingja án þess að geta látið tilfinningar mínar í ljós og verið viss um að ÞÚ VITIR AÐ MÉR ÞYKIR ROSALEGA VÆNT UM ÞIG. Ég get ekki beðið eftir að gefa þér knús og koss og hlæja, gráta, blóta, öskra, borða, drekka, og bara sitja og ekki segja neitt UM LEIÐ OG LÍFIÐ GERIR ÞAÐ MÖGULEGT FYRIR OKKUR.
Ástar og saknaðarkveðjur í bili.
P.S. Hitinn er enn meiri þessa dagana, vildi óska að ég gæti sent eitthvað af þessum hita til ykkar svo að við getum allaveganna andað í nokkra daga!!
Athugasemdir
Loks fór ég vinnuna og fann þá þeta bloggsvæði ykkar eftir að vera búin að lesa póstinn minn kem til með að fylgjast með ykkur.Annasr allt gott að frétta að okkur sendi þér póst vi tækifæri. Allir biðja að heilsa Kveðja Valdís Bragi og börn.
Valdís Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 23.7.2006 kl. 20:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.