9.5.2007 | 19:32
Hitabylgja...
Síðustu þrír dagar eru búnir að vera alltof heitir, ný met eru búin að vera slegin...93 stiga hiti Fahrenheit, um það bil 32 gráður, ef stærðfræðin mín er rétt. Það er hrikalega heitt, það versta við það er að þessir blessuðu verkir mínir verða svo miklu verri í hitanum
Ég er búin að vera dugleg að labba á hverjum morgni, verð að komast í betra form, sérstaklega fyrir sumarið, og sérstaklega fyrir Íslandsferðina mína. Ég er ekki búin að ferðast með þennan sjúkdóm áður, þannig að það verður athyglisvert að sjá hvernig flugið á eftir að fara í mig. Ég mun sjá aðeins betur í næstu viku, því að þá mun ég fljúga til Chicago fyrir stelpuhelgina mína...get ekki beðið.
Ég get sagt ykkur öllum núna, að það er alveg 100% öruggt að ég komi heim í sumar, nánar tiltekið eftir um það bil níu til tíu vikur...get ekki beðið. Ég er ekki búin að koma heim í þrjú ár og er það alltof langur tími, en svoleiðis er það þegar maður er búinn að vera einhleypur foreldri, veikur, og án vinnu, þá tekur þetta alltsaman soldið lengri tíma en maður vildi. Ég er ekki ennþá búin að panta miðana mína, er að bíða eftir að þeir fari kannski á útsölu, það er oft að miðarnir eru ódýrari ef maður kaupir þá mánuð fyrir tímann, í staðinn fyrir þremur mánuðum áður. Ég veit allaveganna að þeir verða ekki mikið dýrari en $900 á mann, og það er bara fyrir flugið frá Boston til Íslands, ég tala nú ekki um á milli strandanna. Þetta er bara svona, maður gerir sér ekki grein fyrir hversu langt það er á milli mín og ykkar fyrr en maður fer að plana ferð heim.
Ég er ekki búin að hugsa fyrir þessu öllu enn, en maðurinn minn er búinn að lofa mér að hann ætli að sjá fyrir því að ég komist heim í sumar, hann vill endilega að ég hætti að væla úr heimþrá hérna uppá annanhvorn dag. Ég vildi óska að við gætum öll komið heim í sumar, en það verður bara að vera næst. Þannig að það verður ég, Kalli og Mikaela í þetta skiptið. Tim og tvíburarnir eiga svo vonandi eftir að fljúga til Boston og hitta okkur þegar við komum þangað eftir Ísland, og þá getum við eytt afmælisdeginum mínum með Írisi og Veru, og allir fá að ferðast eitthvað í flugvél í sumar. Mér líður verst yfir tvíburunum, því þær eru bara börn, og skilja ekki alveg hversu dýrt það er að ferðast svona langt með okkar stóru fjölskyldu. Þannig að ég verð að kaupa eitthvað alíslenskt og flott, þá fyrirgefa þær mér kannski fyrir að fara frá þeim í þrjár vikur.
Ég veit ekki alveg hvernig ég ætla að hafa þetta, vil helst reyna að leigja mér kennaraíbúð svo að ég þurfi ekki að vera inná vinum og ættingjum, sérstaklega þar sem að ég er að vonast til þess að flestir geti komið og heimsótt mig, eða náð í mig, því að ég á ekki eftir að hafa efni á því að leigja bíl í svona langan tíma. Planið er að ég mun fara austur á Höfn að heimsækja afa og ömmu, en ég ætla að keyra með Óla frænda, því að hann og Heiða verða líka á Íslandi í sumar (þau búa núna í Svíþjóð), þau eru að fara að ferma sína elstu, Rebekku, þannig að ég er að koma heim á sama tíma og þau svo að ég geti séð þau líka, og auðvitað þá kemst ég líka í ferminguna hennar, því að í fyrra missti ég af fermingunni hjá henni Bríeti frænku, þannig að ég get ekki misst af öllu svoleiðis hátíðlegu. Ég vil líka koma heim áður en Elín vinkona fer til Spánar í ferðalag, en þá þarf ég að koma heim viku áður en ég upprunalega ætlaði mér, en ég verð að hitta hana, hún er ein af mínum bestu vinkonum, og ég get ekki misst af henni.
Ef að ég væri að koma heim með alla fjölskylduna þá gæti ég gert svona húsaskipti, eins og í The Holiday. Þá skiptist fólk á húsnæði og bíl á meðan það er í frí, svo að maður þurfi ekki að borga fyrir leiguhúsnæði og bílaleigubíl. Það er aðallega að hafa aðgang að bíl á meðan við erum fyrir sunnan, því að auðvitað er það stórt svæði, og ég mun sko ekki hafa orku í að vera í strætó á hverjum degi. Þannig að ef einhver vill vera svo yndisleg/ur að leyfa mér að fá lánaða íbúðina þeirra og bíl í nokkrar vikur, þá mun ég auðvitað þiggja það. Ég skal þrífa bæði íbúðina og bílinn í bak og fyrir áður en ég fer aftur út...Nei, nei, en án gríns, ef að þið þekkið einhvern sem myndi ekki vera á móti því að leyfa mér og börnunum mínum að hafa aðgang að húsnæði og bíl, á meðan við erum fyrir sunnan, sem yrði sennilega í kringum 9. Júlí (Elín vinkona fer út þann 12. og ég verð að hafa allaveganna tvo til þrjá daga með henni) til 18. kannski, og svo aftur þann 25-31. Júlí, þá endilega látið mig vita af því. Ég er alveg til í að borga einhverskonar leigu, fyrir bæði húsnæðið og bíl, og auðvitað skila ég öllu í tipp topp formi, ég er mjög hreinlát og börnin mín eru 6 og 7 ára gömul, þannig að þau eiga ekki eftir að skemma neitt.
Við myndum aðallega vera þar á kvöldin og á nóttinni, því við yrðum eflaust í heimsóknum á daginn. Og við myndum kannski bjóða fólki til okkar í kaffi nokkrum sinnum, ef það væri í lagi. En inná milli þess að vera fyrir sunnan förum við austur, þannig að allt í allt yrðu þetta um tvær vikur sem við myndum vera í íbúðinni og með not fyrir bíl. Ég veit að þetta er rosaleg stór bón, og endilega vitið það að ég er tilbúin að borga einhverskonar leigu, get ekki borgað allt of mikið, en það myndi hjálpa okkur rosalega mikið að þurfa ekki að vera uppá aðra komna, sérstaklega þar sem ég veit aldrei hverskonar daga ég hef, þannig að ég mun kannski þurfa að hvíla mig vel inná milli, og þá væri æðislegt að vera í heimahúsum, ekki leiguíbúð með engar sjónvarpsstöðvar eða vídeó fyrir börnin, og aðgang að tölvu, ef það væri í lagi.
Jæja, ég veit að þetta er stór bón, og ef þið þekkið ekki neinn, þá er það meira en í góðu lagi. Mér datt bara í hug að spyrja allaveganna, í versta tilfelli þekkið þið ekki neinn sem er tilbúinn í að leyfa mér að nota húsnæðið og bílinn þeirra, og það er bara í hinu besta lagi. Ég vil bara vera vel undirbúin fyrir ferðina heim, því þá verður ferðin auðveldari fyrir mig heilsulega séð. Auðvitað vil ég líka geta gert hluti með krökkunum, farið með þau að kaupa ís, labba niður Laugarveginn, og fara niður á tjörn. Kannski fara með þau í húsdýragarðinn og svoleiðis með vinum og vandamönnum, þá geta Kalli og Mikaela eytt tíma með frændfólki sínu og kannski lært einhverja íslensku loksins...þau skilja meira en þau tala, en það er búið að vera erfitt að fá þau til þess að tala íslenskuna, sérstaklega eftir að þau byrjuðu í skóla, þá er allt kennt á ensku auðvitað, og að reyna að þýða heimalærdóminn og hafa nægan tíma til þess að ljúka honum, já, það er auðveldara sagt en gert...
Ég leyfi ykkur öllum að fylgjast með undirbúningum fyrir Ísland, mun eflaust tala mikið um ferðina næstu vikur, er að verða þvílíkt spennt. Verð enn spenntari þegar ég verð búin að bóka miðana. Er að fara í dag með Kalla og Mikaelu í passamyndatöku, þeim vantar ný vegabréf, eru ennþá með baby mynd í vegabréfunum sínum, sem eru bæði útrunnin. Mikið verður nú gott að koma heim og ekki þurfa að hafa áhyggjur af neinu með Immigration, því að ég er með tíu ára græna kortið mitt núna, og mun eflaust sækja um ríkisborgararétt áður en að græna kortið mitt rennur út. Þá verð ég með tvöfaldan ríkisborgararétt, þannig að það verður gott mál. Svo bíð ég bara spennt eftir að fara til Chicago, því að þegar ég kem heim úr þeirri ferð, þá verða bara átta vikur í Ísland
GET EKKI BEÐIÐ, HLAKKA TIL ÞESS AÐ SJÁ YKKUR ÖLL...
Athugasemdir
Ohh hvað ég er spennt fyrir þína hönd !! En leiðinlegt að Tim og stelpunrar geta ekki líka farið með,en kannski seinna
Æjj ef ég ætti heima í 300 fm einbýlishúsi og ætti 2 jebbalinga *hóst* þá mættur sko koma bara til mín híhí..... En vona að einhv. geti hjálpað þér við að finna einhv. stað til að vera á þegar þú kemur.
Knús til þín
Melanie Rose (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 20:46
Elsku besta Bertha ... maður er allur af vilja gerður en því miður veit ég ekki um neina íbúð fyrir sunnan. Ef þið kæmuð norður, þá myndi ég bara leyfa þér að vera í íbúðinni minni, þar sem stóran hluta síðari hluta júlí verð ég að vesenast í flutningum, fyrir sunnan í brúðkaupi bróður míns ... en þú ert ekki á leið norður - þannig að þetta fellur um sjálft sig.
Hins vegar gæti þetta passað upp á tímann - ég og Veiga verðum fyrir sunnan í tengslum við brúðkaupið og þá væri yndislegt að geta hitt á þig!! Reynum alla vega að stefna á það!!
Þangað til - og alltaf: stórt knús og hjartahlýjar kveðjur til þín og fjölskyldunnar!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 23:58
Hæ Bertha! Loksins fann ég þig! Það sem ég er mikið búin að hugsa til þín undanfarin ár... ég var viss um að Ameríka hefði bara gleypt þig með húð og hári.
Því miður veit ég ekki um neina íbúð sem er laus á þessum tíma, en hef augu og eyru opin
Ég veit að þú hlýtur að vera með þéttbókaða dagskrá í sumar, en það væri rosalega gaman ef við gætum hist og rifjað upp gamla tíma - og endilega ef við getum smalað saman hinum stelpunum af Sómalíuborðinu. Meilið mitt er asdish at hafnarfjordur-punktur-is. Væri gaman að heyra frá þér!
Ásdís Huld úr MH (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 13:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.