26.4.2007 | 05:15
Fínn Fimmtudagur?
Þessi vika er ekki búin að vera sú auðveldasta, því miður Ég er enn að ná mér eftir veikindin, er eiginlega að hallast að því að þetta var MS kast, búin að lesa mér soldið meira til um þetta og það er mest líkur á því að þetta er/var kast. Ég hef ekki upplifað svona sterkt kast áður, og ekki svona lengi (ef þetta var þá kast), þannig að ég er enn að jafna mig, það erfiðasta við þetta var þreytan, bara að labba nokkur skref gerði mig dauðþreytta...
Nóg með það, þessi sjúkdómur er bara það, sjúkdómur, ekkert sem ég get gert til þess að breyta því að hann er hér til staðar fyrir mig til þess að deila lífinu með...svona hálfpartinn maki minn (þó svo að mér finnst hinn makinn minn, Tim, miklu skemmtilegari). Ég er enn að fiffa til sjúkrapeninginn minn, þarf að fara og skila inn pappírum aftur, og svo fer það allt að rúlla, hjúkk segi ég nú bara, er orðin frekar ósátt við að leyfa manninum mínum að sjá um allt...leiðinlegt að geta ekki gert meira en ég hef getað, en gott að hafa aðstoð og stuðning.
Stundum þarf maður að taka erfiðar ákvarðanir í lífinu, og ég var neydd til þess að taka þá erfiðustu í þessari viku. Það kemur tími í lífi manns þar sem maður hefur ekki orku lengur til þess að hafa neikvæðni og leiðinlegheit í kringum sig. Það er rosalega erfitt að keyra einstefnu allt sitt líf, einstefnu í samskiptum við ættingja eða vini. Þegar maður gefur og gefur af sér og fær varla neitt í staðinn, þá verður það mjög einhæft. Þegar maður varpar frá sér hlýju og kærleika, en kuldi og fyrirlitning kemur á móti þá er eðlilegt að sársauki taki sér dvalarstað í hjarta manns. Þegar maður reynir og gerir sitt besta í öllum ákvörðunum og gjörðum, en það er aldrei nógu gott í augum þeirra sem maður sækist í stoltið frá, þá verður maður að vera stoltur af sjálfum sér.
Í dag birtist viðtalið við mig í Vikunni, og ég vona að þið hafið haft tækifæri til þess að lesa það. Eins og ég sagði í viðtalinu, ég er ekki fórnarlamb en í staðinn hef ég lifað ýmsa hluti af. Lífið er svo stutt, ég veit ekki frekar en þið hversu langan tíma ég hef hér á þessari dásamlegu jörð, en ég veit að hver dagur er gjöf. Ég hef gaman af gjöfum, ég meina, ég er kona, en engin gjöf er betri en annar dagur á lífi. Uppi á vegg hjá mér hangir eftirfarandi málsháttur: " Dagurinn í dag gæti orðið besti dagur í lífi þínu, bara ef þú notar hann rétt".
Notum daginn í dag rétt, einbeitum okkur að því fólki í lífi okkar sem veitir okkur skilyrðislausa ást, umhyggju og virðingu. Setjum okkur ekki uppá háann hest, við erum ekki betri en neinn annar, því að við vitum ekki hvernig það er að ganga í skóm annarra, við skulum ekki þykjast vita það heldur. Umkringjumst fólki sem þekkir okkur, vill þekkja okkur, vill kynnast okkur, og vill sætta sig við okkur eins og við erum, með öllum okkar kostum og göllum. Hafið þið einhverntímann hitt fullkomna manneskju? Fullkomnar manneskjur eru eins og draugar, við trúum á þá, en sjáum þá aldrei
Mín reynsla er sú að fullkomnun er fjall sem verður aldrei klifið, hættum því að reyna. Sættum okkur við það sem blasir við okkur í speglinum í dag, sættum okkur við ákvarðanirnar sem við tókum í dag, og notum daginn í dag rétt því að hann gæti verið besta gjöfin sem þér hefur verið gefið í lífi þínu.
Athugasemdir
innritunarkvitt á fimmtudegi...
Ólafur fannberg, 26.4.2007 kl. 08:04
Ég fer ekki ofan af því að ég kalla fólk "hetjur" sem getur farið í gegnum jafn erfiða tíma og veikindi eins og þú, og samt brosað. Ég get verið sjálfur svolítill aumingi og kvartað yfir smámunum, en síðustu árin hef ég batnað og man alltaf eftir því hversu gott ég hef það í raun og veru (ætli það sé ekki bara aldurinn og þroskinn, hmm? -- Mér finnst bara rétt að kunna meta lífið, eins og þú gerir svo fallega. Fallegar sálir geisla út frá sér og smita aðra ... ég er eflaust smá smitaður og það er bara gott
Viðtalið er sem fyrr segir mjög fróðlegt og fallegt - skyldulesning segi ég bara. En hver var ákvörðunin erfiða sem þú þurftir að taka? Eða er það kannski ekki eitthvað sem þú ræðir hér? Ég sendi þér alla vegar hlýjar kveðjur, kossa og knús héðan frá Akureyri!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 10:52
Halló Bertha. Ég þekki þig ekki en man eftir andlitinu þínu frá því á Ísó í gamla daga. Ég las viðtalið við þig í Vikunni og bara varð að tjá mig um hvað það var gott að lesa það. Þú ert einmitt svona manneskja sem gefur manni aukinn þrótt og vilja til að sparka í eigin rass. Ég dáist að seiglunni og lífsviljanum hjá þér. P.s. Þið eruð afskaplega falleg fjölskylda :o)
The suburbian, 26.4.2007 kl. 11:53
Takk, takk og takk, þið eruð frábær, gaman að lesa fallegu skrifin frá ykkur. Doddi minn, ákvörðunin sem ég tók er ekkert leyndarmál, það er erfitt samt að tala um það án þess að vera með óvirðingu, og ég er að passa mig á að særa engann. Ég ætla að segja þér meira frá því, sendi þér email...
Suburbian - takk kærlega fyrir fallegu orðin þín, þú varst semsagt á Ísó, hvaða árgangur ertu? Takk fyrir að líta inná mig, það er alltaf gaman þegar nýtt fólk kíkir hér inn...
Bertha Sigmundsdóttir, 26.4.2007 kl. 14:24
Vá hvað þetta er sooo true hjá þér. Finnst fólk oft gleyma því mikilvægasta í lífinu. Eru oft mjög upptekin af einhv.allt öðru en því sem er mikilvægt.
Ég kaupi Vikuna eftir helgi....á ekki fyrir henni núna Hlakka ekkert smá til að lesa
Knús til þín og ég vona að þú farir að líða betur
Melanie Rose (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 17:56
Sólskinskveðjur til þín!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 26.4.2007 kl. 20:23
gott að lesa þetta.
Hrönn Sigurðardóttir, 27.4.2007 kl. 09:15
gott viðtal í vikunni Eigðu góða helgi...
Ólafur fannberg, 27.4.2007 kl. 18:50
Get ekki beðið eftir að fá vikuna senda :). Þú ert algjör hetja!!!Æðislegt að heyra að þér líði betur. Vona að þú eigir yndislega helgi með fjölskyldunni þinni.
Karlinn er kominn heim og ég kom honum á óvart með að lita hárið á mér ljóst ( honum finst það svo HOT :)) Bara gaman að þessu.
Knús og kossar
Kolla
Kolla, 27.4.2007 kl. 21:50
Kæru vinir
Ég vil þakka ykkur öllum fyrir hlý orð, hlýjar kveðjur, og frábærar viðtökur sem þið hafið veitt mér vegna viðtalsins. Ég er rosalega þakklát fyrir allan stuðninginnn, og vildi þakka ykkur milljón sinnum fyrir hann
ÞIÐ ERUÐ FRÁBÆR OG ÉG KANN VEL AÐ META YKKUR ÖLL
Bertha Sigmundsdóttir, 29.4.2007 kl. 17:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.