15.6.2006 | 15:22
Útskrift yfirstaðin!!!
Jæja, þá er litla dúllan mín búin að útskrifast úr Kindergarten hér í San Jose í gær. Mikið var nú æðislegt að sjá 80 fimm ára börn útskifast með stór bros, í fínum kjólum og jakkafötum. Hún Mikaela mín var auðvitað fallegasta stelpan, en þið mömmur vitið nú alveg að öllum mömmum finnst sín börn sætust. Eftir útskriftina fórum við svo á uppáhaldsveitingastaðinn hennar, Chili´s og hún fékk sér kjúkling og franskar, og ís auðvitað og ég sat bara og horfði á hana og hugsaði með mér, hvert fór tíminn?
Mér finnst að það hafi verið í gær þegar ég hélt á henni nýfæddri, og núna er hún bara lítil kona, með sínar skoðanir og alltaf að reyna að segja mér til. Ég er fegin að núna sé komið sumarfrí, sérstaklega þar sem ég er enn heima fyrir, núna get ég farið með þau í sund á daginn, eða út á leikvöll, eða bara setið heima og horft á bíó með þeim. Það er ekkert betra en að njóta barnanna sinna, sérstaklega þegar maður vaknar einn daginn og þau eru að verða stærri en maður sjálfur, bæði börnin mín ná mér nú þegar upp á brjóstkassa...
Ætli það taki nema nokkur ár í viðbót að þau horfi niður til mín þegar ég er að reyna að skamma þau, þá verður Bertha litla bara að fá sér tröppur og hoppa uppá þær til þess að skamma börnin sín, ekki málið...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.