5.4.2007 | 04:38
Að fá nóg!!
Það tekur mismikið fyrir okkur öll að fá nóg. Suma tekur það varla neitt, aðra heilmikið. Sumir eru viðkvæmari en aðrir, eru aðrir þá ekki neitt viðkvæmir? Eða sterkari? Færð þú oft nóg?
Ég er mjög viðkvæm, hef alla tíð verið það. Veit ekki hvort að það er vegna ljónamerkisins, vegna næmra tilfinninga, eða af því að ég er ekki eins sterk og aðrir. Samt tel ég sjálfa mig mjög sterka manneskju, eins og þið vitið sem lesið bloggið mitt reglulega þá hefur lífið ekki verið einhver dans á rósum hjá mér. Ég held samt að flest okkar gangi í gegnum erfiðleika, og erfiðleikarnir móta okkur að því fólki sem við erum og verðum.
Ég trúi því að ef við gætum gengið í skónum hjá hverjum sem væri, þá myndum við virkilega skilja þá persónu, þeirra kvalir, þeirra líf, þeirra hamingju. Ég hef alltaf verið sátt við að vera viðkvæm. Samt sem áður lærði ég mjög snemma að fela tárin, en lét þau alltaf flakka þegar ég var ein, eða þegar ég var í kringum fólk sem ég treysti. Mér fannst erfiðast að fela tárin fyrir foreldrum mínum, fannst ykkur það líka? Ástæðan var sú að mér var látið líða illa yfir því að ég var viðkvæm. Ég man að pabbi sagði oft þegar ég grét, æi, er lífið svona sorglegt...
Þegar ég heyrði það þá skammaðist ég mín fyrir að vera viðkvæm, fyrir að sýna einhverskonar tilfinningar. Það er sagt hér í Bandaríkjunum, you wear your feelings on your sleeve! Halló, þessi málsháttur var skrifaður með mig í huga Sem fullorðin kona, fjagra barna móðir, þá veit ég og skil betur að pabbi var ekkert að reyna að særa mig. Hann kunni bara ekkert á mig, vissi ekkert hvað hann átti að segja við mig. Sú er sagan enn þann dag í dag, ástæðan er sú að hann þekkir mig ekkert allt of vel.
Er það honum að kenna? Nei. Er það mér að kenna? Nei. Okkur báðum? Já... Ekki gerir fjarlægðin hlutina auðveldari, það er erfitt að rækta sambönd við ættingja þegar fjarlægðin er svona mikil. Samt sem áður finnst mér aldrei of seint að endurnýja sambönd við fólk. Samt fæ ég nóg þegar ég er sú eina að reyna að endurnýja samband við aðra manneskju. Ég er búin að reyna að endurnýja sambandið við eina manneskju, og það er alveg sama hversu oft ég reyni, ég fæ ekkert tilbaka. Ég segi manneskjunni að það væri yndislegt ef við værum nánari, læt manneskjuna vita að ég sakni og elski hana, læt manneskjuna vita að við gætum styrkt samband okkar með því að tala meira saman, getum gert það í gegnum tölvupóst, eða síma.
Ég fæ nóg þegar ég gef og gef, en mér er ekkert gefið tilbaka. Ég get gefið endalaust, en ég er búin að læra að þegar ég gef of mikið, þá er ég notuð Ekki vil ég að fólk haldi að gjafmildi mín sé veikleiki. Þó svo að ég sé viðkvæm, þá fellur viðkvæmnin undir sterkleika mína. Mér finnst gott að gráta, suma daga verð ég að gráta. Ég fékk nóg í dag og ég grét. Og það hjálpaði mér. Gaf mér styrk. Með meiri styrk því sterkari verð ég.
Að fá nóg er eðlilegt, það gerist fyrir okkur öll. Skiptir ekki máli hvort að við erum viðkvæm eða sterk, við komumst öll í kynni við fólk, eða kringumstæður sem verða til þess að við fáum nóg!!! Stundum er það eitthvað mikilvægt, stundum eitthvað fáránlegt. Við skulum bara vona að þegar við fáum nóg, þá verðum við sterkari.
Athugasemdir
knús
Ólafur fannberg, 5.4.2007 kl. 05:58
Ég er líka næm manneskja og hef altaf tekið allt inn á mig og þá meina ég alt. Til að svara spurningunni þinni þá var Franz hundurinn minn sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég varð 18 ára. Hann hefur búið heima hjá pabba þar sem ég hef flakkað aðeins um heiminn. Franz sofnaði í nótt og kvaddi þennan heim. Ég get ekki líst sorginni sem er í hjartanu mínu núna. Enda er víst óhætt að segja að alt er blautt í kringum mig núna. Maðurinn minn fór í morgunn þannig að ég var ein þegar ég fékk fréttirnar og verð ein með mína sorg þessa páska. Ég er svo eirðarlaus að ég veit ekki hvað ég á að mér að gera. Þótt hann hafi búið hja pabba var ég í heimsókn 2 á ári og altaf þekkti hann mig og fagnaði mér. Hann gerði svo mikið fyrir mig þetta litla grei enda er hans sárt saknað.
Knús frá noregi
Kolla, 5.4.2007 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.