29.3.2007 | 00:18
Stuttur dagur
hjá krökkunum í skólanum í dag. Það er alltaf svoleiðis á Miðvikudögum, sem er mjög fínt því að þessir skóladagar eru langir. Miðvikudagar eru í uppáhaldi hjá þeim, fyrir utan Föstudaga, af því að Miðvikudagar eru ísdagar. Þá leyfi ég þeim að fá sér ís þegar þau eru búin með heimalærdóminn.
Ég man að þegar ég var að alast upp þá var alltaf nammidagur á Laugardögum, þá var þvílíkt stuð að fá að fara útí sjoppu og velja sér nammi. Hér í Ameríku eru engar sjoppur, það er ekki hægt að keyra í gegnum lúgu og kaupa sér pylsu og bland í poka. Auðvitað eru lúgur í öllum McDonalds, Burger King, Taco Bell, Carl´s Jr., Wienershnitzel, og svo mætti lengi telja, því að fastamata búllur eru hér á hverju götuhorni (af hverju eru Ameríkanar feitir aftur?), hvergi er verið að bjóða uppá salat lúgur eða samloku lúgur, en allaveganna, ég var að tala um nammidaga.
Í okkar þjóðfélagi í dag eru nammihillur við hvern búðarkassa í hverri einustu matarbúð. Það er boðið uppá pítsur og hamborgara og pylsur í hádegismat í flestum amerískum skólum, en svo er líka boðið uppá salat með fullt af salatsósu með, eða pínulítil epli eða mandarínur til þess að fylgja risastóru pítsu sneiðinni. Hér eru McDonalds auglýsingar sýndar inná milli teiknimyndanna, og súkkulaði auglýst meira en nokkuð annað. Er nema von að krakkar nútildags heyra í manni þegar maður er að bjóða uppá ís, í staðinn fyrir ávexti? Já, ég spyr bara.
Ég er svo heppin að eiga börn sem að eru ekki matvönd. Ég man sko þegar ég var fimm ára, mamma var nýbúin að steikja fiskibollur og ég læsti mig inní herbergi svo að ég þurfti ekki að borða þær. Mamma kippti sér sko ekkert upp við það, sagði bara í gegnum hurðina að ég myndi sko koma fram þegar mallakúturinn færi að kvarta. Og viti menn, eftir það sem mér fannst að væru fimm klukkutímar, þá opnaði ég loksins hurðina mín, labbaði út með skottið á milli lappanna og settist við borðið, þar sem að fiskibollurnar biðu mín þolinmóðar. Ekki fannst munninum mínum þær góðar, en maginn var ánægður.
Börnin mín borða það sem ég elda. Ég hef aldrei þurft að elda eitthvað spes fyrir þau. Ég er með eina reglu og hún er, smakkaðu. Þú verður að smakka, ef þér finnst það ekki gott, þá þarftu ekki að borða það, en þú verður að smakka einn bita. Þar sem að þau borða að mestu leyti allt (get ekki sagt til um Þorramat, hef aldrei haft svoleiðis á borðum hér, mér finnst hann ekki góður)(ég er víst Íslendingur) þá leyfi ég þeim oft að fá eftirrétt. Stunum eina karamellu, eitt lítið súkkulaðistykki, fimm M&M´s, eða eina kökusneið.
Mér finnst allt í lagi að þau fái eftirrétt á kvöldin, við þurfum öll eitthvað smá sætt á hverjum degi. Samt hef ég stundum áhyggjur. Mér er hugsað til War of the Roses, muniði eftir þeirri mynd, með Michael Douglas og Katherine... æi man ekki eftirnafnið, en þau eru gift og eiga tvö börn. Hún heldur áfram að gefa börnunum candy bar, og hann segir alltaf við hana að hún eigi nú ekki að vera að gefa þeim svona mikið nammi. Þá segir hún hafa lesið að ef að börnum er gefið pínu nammi á hverjum degi, þá eiga þau ekki eftir að fitna eins mikið og börn sem langar alltaf í nammi og svo fá þau nammi og háma alveg rosa mikið í sig. Svo er sýnt börnin tíu árum síðar og þá eru þau spikfeit, étandi tíu súkkulaðistykki á dag. Ég vona að þetta komi ekki fyrir börnin mín, þá eiga þau eftir að segja sálfræðingnum sínum eftir tuttugu ár, þetta er allt mömmu að kenna, hún var bara ekki með einn nammidag í viku...
Athugasemdir
Við vorum líka með þessa reglu um að það yrði að smakka þegar stjúpdóttir mín bjó hjá okkur það er mjög sniðugt :). Og ég verð að segja þú ert heppin sem átt börn sem borða alt.
Kolla, 29.3.2007 kl. 17:10
Mínar skvísur borða flest allt. Victoria borðar maíis korn á stöng en ekki í dós....haha....finnst það alltaf jafn weird ! Annars er engin beint sértakur nammi dagur hér. Jú jú..þær fá nammi á laugardögum...og *hóst* einhverja daga inná milli stundum..ekki samt á hverjum degi. Kannski kex og eitthvað svoleiðis
Búin að adda þér
Knús,Mel
Melanie Rose (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 19:36
Hjá mér er það öll flóran - sú elsta er frekar matvönd en það eru líka jákvæðar hliðar á því. Hún hefur t.d. aldrei drukkið gos (fékk það ekki þegar hún var lítil og fannst það svo vont loksins þegar hún mátti smakka) og er ekkert mikið fyrir nammi, borðar t.d. afar fáar tegundir af súkkulaði. Miðstelpan borðar flest og smakkar allt en sú yngsta LIFIR fyrir mat! Og það er einkum hennar vegna sem ekki er hægt að bjóða upp á sætindi nema einu sinni í viku, enda er ekki stundlegur friður á laugardögum fyrr en búið er að fara og kaupa ,,godis". Sjálf get ég hreinlega ekki lifað án SÚKKULAÐIS! Bara elska það!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 30.3.2007 kl. 17:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.