Á ég að sprauta honum...

Aldrei mun ég gleyma þessum orðum og minnir mig að þetta sé úr þeirri frábæru mynd Stella í orlofi, eða þá að þetta var í einhverju gömlu skaupi, en alltaf hef ég munað þessa fyndnu spurningu, og spyr nú sjálfa mig, á ég að sprauta henni????

Það var hringt í mig loksins í gær útaf þessu nýja meðali sem ég á að fara að byrja á, þetta heitir Copaxone, og er þetta meðal sem að maður sér sjálfur um að sprauta sig með, á hverjum degi. Læknirinn minn, taugasérfræðingurinn minn sem heitir Doctor Sól, er nú ekki sérlega sólarlegur, frekar þurr á manninn, grannur og hávaxinn og er alltaf með þessar fyndnu sögur til þess að bera saman mín einkenni við aðra hluti. Til dæmis, ef líkaminn á mér væri bíll, þá er ekki nóg fyrir mig bara að setja bensín í mig, heldur þarf líka að skipta um olíuna, tékka á vélinni, og skipta um dekk öðru hvoru. Þannig að hann er búinn að ákveða að það sé best fyrir mig að fara í olíuskiptingu núna, en ég verð að fara í eina svoleiðis á hverjum degi, og er þetta ein besta olían fyrir MS bílinn minn og heitir hún Copaxone.

Doctor Sól segir líka að líkaminn minn sé eins og bíll án tryggingar. Ég borga fyrir tryggingar í hverjum mánuði án þess að lenda í árekstri. En, ef það gerist að ég lendi í árekstri þá munu tryggingarnar mínar borga fyrir skaðann. Þetta er hans samanburður við þetta meðal sem ég er að fara að byrja að sprauta henni...

Þar sem að ég er enn í byrjunarstigi MS, þá þarf ég að tryggja líkamann minn með Copaxone, þannig að ef ég lendi í árekstri, sem er það sama og MS kast, þá verður skaðinn ekki eins mikill því að ég er með tryggingar. Þetta er nú engin sólarsaga samt, því að þessi daglegu skot geta auðvitað haft skaðandi áhrif á manneskjuna, sjúkdóminn, og heilsuna yfir höfuð. Ég lít á þetta sem svo að ég vil frekar vera tryggð og ekki lenda í árekstri, en að lenda í árekstri ótryggð.Police

Það er nú eitt gott við að búa í frjálsa landinu með góða heilsutryggingu. Meðalið sem að kostar $30.000 á ári, sem er meira en 2 millur heima eins og krónan er þessa dagana, mun aðeins kosta mig skítna $15 á mánuði. Ég fæ mánaðarsendingar til mín í gegnum Fed Ex, þarf ekki að ná í lyfin eða neitt. Ég er nú þegar búin að fá ejector, sem að ég mun setja sprauturnar í og það aðstoðar mig við að sprauta sjálfa mig. Á morgun kemur fyrsta sendingin af meðalinu mínu, og þarf ég að hafa það kælt inní ísskáp, svo fæ ég líka BioTech kassa sem að ég mun setja notuðu sprauturnar ofan í. Svo kemur hjúkka hérna heim til mín á Sunnudaginn til þess að þjálfa mig á notkun sprautanna. Hún er líka með MS, er búin að vera með það í 28 ár, og sagði að hún er búin að vera á Copaxone í 3 ár og líður núna betur en í langann tíma. Hún er á leiðinni á Mánudaginn í draumaferðina sína, og verður í burtu í 6 vikur. Ég er mjög ánægð fyrir hennar hönd og get ekki beðið eftir að hitta hana.

Ég er búin að hafa mestar áhyggjur af krökkunum, að ekki hræða þau með þessu öllu. Sprauta mig eftir að þau fara í skólann, og inná baði um helgar, en aðallega að þau geti ekki einhvern veginn meitt sig á þessu. Þannig að ég vil vera eins varkár og ég get, sérstaklega þar sem að við erum í lítillri íbúð, þá verð ég að passa mig. Ég er að spá í að reyna að finna lítinn ódýrann ísskáp til þess að setja útá svalir, svo að ég geti geymt meðalið þar. Þá þurfa börnin ekki að horfa á meðalið í hvert skipti sem að þau fara inní ísskáp til þess að ná í eitthvað.Sideways

Ég er búin að tala við þau um þetta smá, ég vil ekki hræða þau, en ég vil líka að þau skilji hvað sé í gangi með mig, því að auðvitað skynja börn svona hluti, og ég er búin að vera rosalega þreytt og erfitt fyrir mig að gera marga hluti með höndunum, vegna verkja. Þannig að skera niður epli og reima skó er ómögulegt suma daga. Börnin mín eru svo góð og yndisleg að þau kyssa á mér hendurnar tíu til tuttugu sinnum á dag, þau eru alltaf að reyna að hjálpa mér og spyrja mig hvort að sé ekki allt í lagi með mig.

Stundum verð ég leið þegar ég hlusta á þau spyrja mig hvernig mér líður, því að bernskan á að vera fögur og skemmtileg, en stundum get ég ekki gert fyrir þau það sem ég vil og þá verð ég döpur. Sem betur fer hef ég yndisleg börn, og þetta er lífið sem að Guð hefur planað fyrir mig. Ég geri það besta úr þessu öllu saman, hef mína frábæru daga jafnt og mína hörmulega, en er það ekki svoleiðis fyrir okkur öll, á mismunandi stigum bara.

Ég les mikið núna blogg annarra og sé hversu gott ég hef það miðað við marga aðra. Ég veit að við öll sem foreldrar getum ekki dílað við það þegar börnin okkar eru veik, og við óskum alltaf að við gætum verið veik í staðinn, þannig kemst ég í gegnum alla mína daga. Ég vil miklu frekar vera veik, heldur en að börnin mín séu veik. Þegar ég byrjaði með þessa verki í höndunum á mér fyrir, Vá, það eru næstum því komin 2 ár núna, þá bað ég til Guðs. Ég gerði samning við hann, að hvað sem að væri að hjá mér, myndi ekki vera það alvarlegt að ég myndi deyja ung og ekki vera til staðar til þess að ala upp börnin mín. Þannig að ég skal halda uppi mínum hluta samningsins, og díla við þennann sjúkdóm sem að heitir MS, og vera hér til staðar fyrir börnin mín. Og þakka Guði fyrir það að ég sé veik, en ekki þau, og þakka Guði fyrir það að suma daga get ég reimað skóna hjá þeim, og skorið niður epli fyrir þau í nestiSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Elsku Bertha!  Ég get ekki annað en dáðst að viðhorfi þínu en það kemur mér samt ekkert á óvart.  Einmitt svona ert þú gerð og það gerir þig svo frábæra.  Ég sit hér með tárin í augunum.  Börnin þín eru rosalega heppin að eiga þig fyrir mömmu.  Ég vona svo sannarlega að þessi lyf eigi eftir að hjálpa þér og bæta líðan þína.  Takk, elsku Pollýanna, fyrir að vera til!

Aðalheiður Haraldsdóttir, 8.2.2007 kl. 23:26

2 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Já og p.s.  Það var Edda Björgvins í hluti hjúkku í Heilsubælinu í Gervahverfi sem átti þessa ódauðlegu setningu

Aðalheiður Haraldsdóttir, 9.2.2007 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband