Sjálfsvorkun

Ég fann það í gær að ég var gjörsamlega að væflast í sjálfsvorkun. Það er sagt að slæmir hlutir gerist þrefaldir og ég fann sko fyrir því í gær. Ég er búin að vera frá vinnu núna í ár og er það nú ekki skemmtilegt, en cela vie... Ég er búin að fá sjúkrapening í ár, en núna er hann að renna út, þannig að ég sótti um langtíma sjúkrapening og sú umsókn tekur 3-4 mánuði, takk fyrir.

Ég lít semsagt frammá að hafa engar tekjur næstu þrjá mánuði. En, ég panikaði ekki, heldur sótti um að taka út pening úr lífeyrissjóðnum mínum, og er búin að bíða eftir að fá það samþykkt. Hér í Ameríku er alltaf svona catch 22. Ég get ekki fengið auka pening frá ríkinu af því að ég á yfir $6000 í ellilífeyrissjóðnum mínum, 401K eins og það kallast hér. En, ég get ekki tekið út þann pening til þess að lifa á þangað til að sjúkrapeningurinn minn byrjar að koma eftir 3 mánuði. Ástæðan er sú, að mínar aðstæður eru ekki nógu erfiðar til þess að ég geti fengið leyfi til þess að taka út minn eigin pening, sérðu catch 22.

Þannig að fyrst að mínar aðstæður falla ekki undir það sem ríkisskatturinn er búinn að stimpla sem erfiðar aðstæður, þá veit ég barasta ekki hvað erfiðar aðstæður eruDevil Það er ekki nóg að vera veikur og þurfa að stressa sig yfir heilsubótum og hvort að heilsutryggingar manns eiga nú eftir að samþykkja meðölin sem maður þarf að taka, heldur getur maður ekki tekið út sinn eiginn pening af því að aðstæður manns passa ekki inn í einhverja formúlu sem einhver eldgamall hvítur Kanakarl bjó til þar sem hann sat eflaust í nærbuxunum að horfa á klám í tölvunni hjá sér...

Ekki nóg með það, svo fæ ég líka þær fréttir að peningur sem ég er búin að vera að þéna til hliðar verður núna settur í biðstöðu næstu 3 mánuðina. Þannig að ég hef ekki aðgang að mínum pening, heldur get ég ekki þénað einhvern smápening næstu 3 mánuðina útaf einhverju rauðu límbandi... Ég var bara skíthrædd eftir að þetta tvennt gerðist, því ég vissi það að atvik númer þrjú var handan við hornið, og klukkan ekki komin yfir hádegi hjá mér.

Tim, sem betur fer, minnti mig á það að það þriðja var búið að gerast, og það var nú ekki svo slæmt, en við vorum að bjóða í jersey á ebay og unnum ekki sem highest bidder. Þannig að það var það þriðja, þannig að ég vissi að restin af deginum yrði ekki eytt í panik að bíða eftir þriðja atvikinu.

Ég get sagt ykkur það, að sama og við allt annað, þá hefur Ameríka margt gott uppá að bjóða, þó svo að ég kvarta oft og kveina yfir því slæma. Mér finnst mjög gott að búa hér, og mér hefur alltaf fundist að möguleikarnir séu endalausir þegar viðkemur manns menntun og vinnumöguleikum. Þar sem ég hef núna undanfarið ár haft þá ánægju að vera stimpluð sem sjúklingur í þessu stóra landi, þá hef ég séð aðra hlið á þessu landi.

Ég þakka Guði fyrir það að vera vel tryggð, því án þess veit ég ekki hvar ég væri stödd. Það góða við Ameríku er líka það, að fólk sem hefur haft möguleika á að mennta sig og hefur unnið mestallt sitt líf, hefur aðgang að aðstoð hjá ríkinu, og er aðstoðin ekki amarleg á meðan hún er fyrir hendi. Mér finnst sanngjarnt að fólk sem hefur unnið allt sitt líf og er sífellt að reyna að betrumbæta líf sitt, hafi aðgang að meiri aðstoð frá ríkinu og landinu, frekar en fólk sem nennir ekki að gera neitt og situr heima fyrir og safnar pening frá ríkinu til þess að reykja svo peninginn í hass formi.

Þar sem ég sat í sjálfsvorkun í gærkveldi, þá var ég minnt á það hversu heppin ég er að hafa stuðningsfullan mann og fjögur heilbrigð börn. Það er alltaf gott þegar maður er á einhverjum bömmer að muna eftir því jákvæða sem er tilstaðar í lífi manns akkúrat í dag. Ég hef margt að vera þakklát fyrir og er fjölskyldan, nær sem fjær, og vinirnir mínir, nær sem fjær, í fararbroddi. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að þykja svo vænt um mig að þið lesið þessa litlu og stunum löngu pistla hjá mér. Það er æðislegt fyrir mig að lesa orð ykkar í gestabókinni og í athugasemdunum, það virkilega hjálpar mér á jákvæðan hátt að heyra frá ykkur öllum, þúsund þakkir enn og aftur fyrir stuðninginn.

Málið er bara það, að það eru margir dagar sem eru slæmir, og enn fleiri dagar sem eru góðir. Er það ekki tilgangur lífsins, að komast yfir slæmu dagana til þess að vera nær þeim góðu dögum sem fylgja. Til dæmis, í dag ligg ég ekki í eins mikillri sjálfsvorkun, ég er núna bara að reyna að fiffa allt til svo að næstu þrír mánuðir setji mig ekki á hausinn. Ég hef sagt þetta áður, og segi aftur að vera ekki að þéna pening er niðurdrepandi, sérstaklega fyrir duglegt fólk, sem ég tel mig nú vera. Ég verð að finna einhverja leið til þess að sætta mig við þá staðreynd að vinna er of erfið fyrir mig núna, og ég verð að leyfa sjálfri mér að huga að mínum veikindum.

Ég hugsa bara til þeirra sem eru langtum verri að en ég, og þá finnst mér ég algjör aumingi. Það er svo margt fólk sem á við krabbamein að stríða, en er enn fullvinnandi, hvað er eiginlega að mér? Ég veit að ég má ekki gera sjálfri mér þetta, því að það er ekki gott að rífa sjálfan sig niður, en stundum þarf það til þess að maður geti endurbyggt sjálfan sig. Maðurinn minn benti mér nú bara á það að það er ekki hægt að bera sjálfan sig saman við annað fólk, því við erum öll einstaklingar, og við erum öll að ganga í gegnum okkar eigin erfiðu aðstæður. Ég veit ekki hvernig það er að vera með krabbamein, en sú manneskja veit ekki heldur hvernig það er að vera með MS.

Þetta er bara svona, þetta líf okkar. Ég er búin að ákveða að sleppa sjálfsvorkuninni í dag og einbeita mér í staðinn að endurbyggingu. Horfa á björtu hliðarnar er oft erfitt þegar maður er með ský hangandi yfir sér, en ég skal sko finna það bjarta í mínu lífi. Ég næ mér bara í regnhlíf, þá sé ég ekki skýin, og svo bíð ég bara eftir að börnin koma heim úr skólanum, brosandi og hamingjusöm, og að springa úr spenning til þess að segja mér frá öllum ævintýrunum sem gerðust í skólanum. Eitt er nú víst, að um leið og þau labba inn um dyrnar, þá sé ég ekki lengur skýin, því að sólin skín í gegnum öll börnin fjögur. Ef brosandi börn er ekki bjarta hliðin á lífinu, þá veit ég barasta ekki, hvað erCool


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

kvittun

Ólafur fannberg, 2.2.2007 kl. 15:27

2 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Takk fyrir þetta góða spark í rassinn!  Þetta var einmitt það sem mig vantaði.  Ég var einmitt að fá að vita að Svíarnir klúðruðu atvinnuleysisbótunum fyrir mér svo ég fæ ekki nema tæplega 1/3 af því sem ég reiknaði með, og er búin að velta mér upp úr því alla helgina hvað ég hafi eiginlega gert í síðasta lífi til að verðskulda þessa endalausu óheppni, á meðan miður heiðarlegt og miður guðrækið fólk fær stundum allt upp í hendurnar.  Horfði svo á ,,Bruce almighty" í sjónvarpinu í gær og var að spá í hvort það myndi kannski virka líka hjá mér að skammast svona í Guði.  En jæja o jæja, verður maður ekki bara að halda uppi íslenska mottóinu:  Þetta reddast einhvern veginn

Aðalheiður Haraldsdóttir, 4.2.2007 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband