13.1.2007 | 18:08
Löng helgi
Þá er komin fyrsta langa helgin á nýja árinu. Á mánudaginn kemur höldum við uppá Martin Luther King Jr. daginn og er frí hér í öllum skólum. Þannig að ég hef púkana heima næstu þrjá daga. Hér er enn þvílík kuldabylgja og varla hægt að fara út án þess að vera með húfu, trefil, og vettlinga. Þetta er sko ekki algengt hér í Kaliforníu þó svo að það er stundum kalt á nóttunni, þá man ég ekki eftir að þurfa að dúða mig yfir hábjartan dag. Hér sér maður fólk vanalega í stuttbuxum og peysum allt árið í kring.
Núna er ég með litlu frænku hans Tims í heimsókn, hún er bara tveggja ára og algjör lítil mús, hún er ein af þessum stelpum sem að láta eggjastokkana hjá manni hristast. Hér er búið að vera mikið rætt hvort að skuli bæta við einu barni í fjölskylduna. Við erum enn á báðum áttum með það, að vega og meta kosti og galla við þá ákvörðun. Ég er búin að lesa mér mikið til um hvernig meðganga hefur áhrif á sjúkdóminn sem ég hef og segja flestir að á meðan á meðgöngu stendur líður konum betur. Minni verkir semsagt og öll einkenni minnka. Ég verð nú að segja að þetta er ein af þeim stærstu ástæðum sem ég vil eignast annað barn, minni verkir í níu heila mánuði, Guð minn góður, ég myndi myrða fyrir það.
Svo eru 20-40% líkur á að verkirnir og einkennin verða miklu verri eftir fæðingu. Þá er talað um að það geti gerst innan við nokkra mánuða eftir að barnið fæðist, ekki gaman að hugsa til þess að kannski geta ekki hugsað um litla krílið þegar það er komið. Það jákvæða við að pæla í þessu öllu er það að ég veit að ég myndi hafa rosalega mikla aðstoð. Tvíburarnir okkar verða 13 á árinu, Kalli 8, og Mikaela 7. Guð hvað tíminn líður hratt. Og svo auðvitað hef ég stuðningsfulla manninn minn sem á eftir að vera við hlið mér í gegnum þetta allt saman.
Kostirnir eru margir ásamt mörgum göllum. Einn sá helsti galli er auðvitað peningar, er það ekki alltaf vandamálið Samt finnst mér fáránlegt að láta peninga ráða mikilvægum ákvörðunum í lífinu, en raunveruleikinn er sá að það væri heimska að íhuga ekki hversu stóran þátt peningar hafa í öllum lífs ákvörðunum. Það góða við að eignast barn er að maður hefur níu mánuði til þess að undirbúa komu barnsins, þannig að það væri nú ekkert mál að kaupa allt sem að þarf til.
Svo reikar hugurinn til stærðar fjölskyldunnar, við erum nú sex fyrir, þannig að bæta við einu í viðbót er nú ekki það erfitt, en sjö manna fjölskylda er nú frekar stór. Ég hugsa til þess hvernig þetta var í gamla daga og flestar mömmur áttu nú fjögur eða fleiri börn. Þá var líka mamman heima við og pabbinn þénaði peninginn. Nú til dags er ekki hægt að lifa á tekjum mannsins eins, nema að hann þéni $100.000 eða meira og ef hann gerir það þá sér hann aldrei fjölskylduna, hann er alltaf að puða. Sú staðreynd að ég er búin að vera frá vinnu núna í ár vegna veikinda er mjög niðurdrepandi fyrir mig. Samt finnst mér æðislegt að geta labbað með krakkana í skólann og náð í þau, gert heimalærdóm og eldað góðan og heilsusamlegan kvöldmat hér á hverju kvöldi. Ég hef nú alltaf verið algjör vinnuhestur, en núna fer öll mín orka í heimilið og heilsuna.
Ekki misskilja mig, mér finnst gott að hugsa um heimilið, ég hef séð þvílíkan mun í börnunum mínum síðan ég hef verið heimavið, en ég sakna auðvitað að þéna þann pening sem mín menntun leyfir mér að þéna. Sérstaklega þar sem ég er að svitna yfir að borga LÍN tilbaka öll skólalánin. Ég er búin að lofa sjálfri mér að á þessu ári mun ég ákveða hvernig vinnu ég get sinnt með mínum veikindum, hvort ég ætli að eignast eitt barn í viðbót, og ég vil annaðhvort leigja eða kaupa hús fyrir lok sumars. Mikilvægar ákvarðanir liggja fyrir, og ég veit að ég mun gera réttar ákvarðanir í öllum tilfellum. Auðvitað getið þið fylgst með hér á blogginu hjá mér hvað 2007 ber í för með sér fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er bara spennt sjálf að sjá hvaða ákvarðanir verða teknar, það er alltaf gaman þegar maður íhugar lífið og tilveruna, sérstaklega þegar maður er að íhuga nýtt líf.
Athugasemdir
rafræn innlitskvittun á lestri
Ólafur fannberg, 13.1.2007 kl. 18:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.